Hjálpargögnum pakkað í gáma til Sómalíu

6. okt. 2011

Hjálpargögn frá Rauða krossi Íslands eru nú komin í gáma í Dubai og verða send með skipi til Sómalíu í næstu viku. Um er að ræða tjaldefni, teppi, eldhúsáhöld, hreinlætisvörur og annað sem verður afhent flóttamönnum sem flúið hafa til Norður-Sómalíu frá mestu hungursvæðunum sunnar í landinu.

Sameinuðu þjóðirnar óttast að 750 þúsund manns kunni að láta lífið úr hungri ef ekkert verður að gert í austanverðri Afríku. Ástandið er langverst í suðurhluta Sómalíu. Hundruð þúsunda manna hafa flúið þaðan, bæði norður í land og yfir til Kenýu og Eþíópíu.

Auk þess að senda vörur til hjálpar flóttamönnum hefur Rauði kross Íslands keypti um 770 þúsund skammta af bætiefnaríku hnetusmjöri sem dreift er í suðurhluta Sómalíu. Þá verða á næstunni, fyrir stuðning frá Íslandi, keypt veiðarfæri fyrir sjómannafjölskyldur við strendur Sómalíu.

Hjálparstarf Rauða krossins í sunnanverðu landinu nær til rúmlega einnar milljónar manna. Það er einhver umfangsmesta matvæladreifing sem nú á sér stað í heiminum.