Þúsundir pakístanskra flóttamanna þora ekki að snúa heim vegna harðnandi átaka

1. okt. 2008

Vopnuð átök í ættbálkahéruðum Areas og Swat við landamærin í norðvesturhluta Pakistans fóru harðnandi í Ramadanmánuði. Í kjölfarið hefur mikill fjöldi fólks neyðst til að yfirgefa heimili sín og leita skjóls í flóttamannabúðum. Mjög brýnt er að þeim berist matur og önnur hjálpargögn og að þeir fái aðgang að heilbrigðisþjónustu. Íslenskur sendifulltrúi, Áslaug Arnoldsdóttir, starfar á sjúkrahúsi Rauða krossins á staðnum.

Harðir bardagar í Bajaur héraði hafa hrakið rúmlega 200.000 manns  af heimilum sínum. „Um það bil 80% flóttafólksins eru konur og börn sem búa nú með fjölskyldum sem skotið hafa yfir það skjólshúsi eða í búðum sem settar hafa verið upp í skólum og öðrum opinberum byggingum,“ sagði Pascal Cuttat, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Pakistan. „Þetta fólk þarf á mikilli aðstoð að halda: húsaskjóli, hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu, heilsugæslu og mat.“

„Við höfum einnig orðið vitni að fjölgun í hópi þeirra sem leita læknisaðstoðar á sjúkrahúsum eftir að hafa særst vegna vopnaðra átaka, en það er skýrt merki um vaxandi bardaga,“ bætti Cuttat við. „Flestir hinna særðu frá Bajaur fara á Timergara sjúkrahúsið í Dir héraði. Alþjóða Rauði krossinn hefur séð sjúkrahúsinu fyrir lyfjum og öðrum sjúkragögnum. Þegar þess gerist þörf er sjúklingum vísað áfram til annars þeirra sjúkrahúsa í Peshawar sem njóta stuðnings Alþjóða Rauða krossins.“