Rúmlega 200.000 manns fá neyðaraðstoð í Afganistan

7. okt. 2008

Samkvæmt Alþjóða Rauða krossinum gætu hundruð þúsunda manna í norðurhluta Afganistans þurft að yfirgefa heimili sín í vetur vegna þurrka, átaka og hækkandi matvælaverðs. Alþjóða Rauði krossinn og afganski Rauði hálfmáninn hafa nú hrint af stað neyðaraðstoð fyrir 280.000 manns (40.000 fjölskyldna) í héruðunum Kunduz, Balkh, Faryab og Badgis. Á þessum svæðum verður dreift um það bil 5.000 tonnum (500 vörubílsförmum) af matvælum.

Einn þorpsbúi frá Dashte Archi í Kunduz héraði sagði að þurrkarnir sem nú ríkja séu svo alvarlegir að „fyrir hver 100 ser sem plantað var höfum við ekki einu sinni uppskorið 25 ser (eitt ser jafngildir sjö kílóum)“. Hjá sumum þorpsbúum var uppskeran nánast ónýt og aðeins nothæf í dýrafóður.

„Ef við getum ekki útvegað þessu fólki mat fljótt gæti það þurft að yfirgefa heimili sín um miðjan vetur,“ sagði Franz Rauchenstein, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Afganistan.

Sjálfboðaliðar afganska Rauða krossins munu dreifa matarpökkum með hrísgrjónum, baunum, smjöri, salti, hvítum sykri og te. Aðstoðinni verður dreift í tveimur lotum í héruðum þar sem ástandið er verst. Skjólstæðingar voru valdir með tilliti til þess hvort þeir þyrftu á aðstoð að halda, en það mat byggðist á ítarlegri athugun sem landsfélagið hefur gert á kjörum þessara fjölskyldna. Fyrsta dreifingarlota mun fara fram áður en vetur gengur í garð, en seinni lotan snemma á árinu 2009. „Sjálfboðaliðar okkar eru að vinna einstakt starf. Þeim finnst mjög gefandi að geta hjálpað fólki og degið úr áhyggjum þess vegna harðindanna sem bíða þess á komandi vetri,” sagði Fatima Gailani, formaður afganska Rauða hálfmánans.

Alþjóða Rauði krossinn aðstoðar særða og þá sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna átaka eða náttúruhamfara í Afganistan frá árinu 1987. Alþjóða Rauði krossinn dreifir mannúðaraðstoð sinni í landinu í samvinnu við afganska Rauða hálfmánann sem hefur á að skipa meira en 20.000 sjálfboðaliðum.

Árið 2007 útvegaði Alþjóða Rauði krossinn meira en 500.000 fjölskyldum matvæli og aðra aðstoð. Félagið sá um það bil einni milljón manna fyrir heilbrigðisþjónustu og sinnir ýmsum öðrum mannúðarstörfum í öllum héruðum landsins.