Stuðningur úr óvæntri átt

Helgu Þórólfsdóttur

16. okt. 2008

Í síðustu viku sendi Emanuel Tommy, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Síerra Leóne, Rauða krossinum á Íslandi samúðar- og baráttukveðju vegna þeirra þrenginga sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum. Emanuel er ungur maður sem býr í einu fátækasta landi heims. Hann hefur upplifað hræðilegt stríð og misst marga af sínum nánustu. Ég hef oft dáðst af æðruleysi hans og jákvæðni í hjálparstarfi sem er mjög krefjandi við þær aðstæður sem hans fólk býr við. Þrátt fyrir að búa sjálfur í landi sem er að takast á við mikla erfiðleika tók hann sér tíma til að hugsa til okkar á Íslandi.

Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við kveðjunni. Fyrst skammaðist ég mín, þar sem ég veit að þrátt fyrir þá kreppu sem við erum að sigla inni erum við langt frá því að búa við þrengingar í líkingu við þær sem fólkið í Síerra Leóne þarf að takast á við. Síðan gladdist ég yfir að eiga Emanuel Tommy að. Rauði kross Íslands hefur verið til staðar fyrir hann undanfarin ár og nú er hann til staðar fyrir okkur. Þegar erfiðleikar steðja að, er gott að finna að maður er ekki einn í heiminum.

Ég hef undanfarna daga þakkað fyrir að hafa fengið að starfa með og fyrir fólk í fátækustu löndum heims og á svæðum þar sem vopnuð átök ríkja. Það fólk sem ég hef unnið með og fyrir hefur kennt mér margt um samstöðu, listina að lifa af litlu og hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Einnig hef ég lært að eignir og peningar eru ekki það sem skiptir öllu máli þegar spurningin er að lifa af á erfiðum tímum – þá er betra að eiga góða að sem eru tilbúnir að deila með sér og sýna samstöðu.

Í starfinu hef ég upplifað það að vera í lífsháska. Þetta var þegar átök brutust út þar sem ég var við störf í Líberíu. Á þeirri stundu var mér sama um að missa allt, nema mína nánustu. Ég var meira að segja komin í samningaviðræður við guð um að ég gæti sætt mig við að fá skot í vinstri handlegg eða fótlegg bara ef ég kæmist lifandi heim. Þetta gerðist þegar ráðist var á bílalest okkar útlendingana sem vorum á flótta frá átökum.

Það að við lögðum á flótta þýddi einnig að við skildum eftir í Líberíu innlenda samstarfsmenn og vini okkar auk almennra borgara. Þegar fólk áttaði sig á að við vorum að yfirgefa svæðið braust út mikill ótti .  Það að yfirgefa fólk í lífsháska var það erfiðasta sem ég hef upplifað sem hjálparstarfsmaður.

Ég reyndi að gefa allan gjaldeyrinn sem ég var með og lyklana að vöruhúsinu sem var fullt af matvælum en enginn vildi taka við þessum verðmætum. Skýringin var að á þessari stundu skipti það eitt máli að leggja á flótta til þess að lifa af og þá voru peningar og matarbirgðir íþyngjandi. Sem betur fer náði ég að hitta flesta mína samstarfsmenn eftir að við komumst úr landi.  Þá voru þeir allslaust flóttafólk í nágrannalandi – en þakklátt fyrir að hafa haldið lífi í þeim hremmingum sem þau gengu í gegnum.

Við það að starfa við mannúðarstörf erlendis og nema friðar og átakafræði er það mér mjög ljóst að við Íslendingar búum við velferð sem fáum íbúum þessa heims hefur staðið til boða. Ég er þakklát fyrir þau forréttindi að hafa fæðst á Íslandi og þrátt fyrir kreppu og þá uppstokkun sem á sér nú stað er ég á þeirri skoðun að það verði áfram mjög eftirsóknarvert að tilheyra íslensku samfélagi og búa á Íslandi. Ég hlakka til að takast á við það endurmat og nýsköpun sem bíður okkar og ég gleðst yfir að eiga marga góða að um allann heim sem munu vera með okkur í því starfi.

Takk Emanuel fyrir að minna mig á að við tilheyrum hvort öðru í því samfélagi sem deilir með sér gæðum jarðarinnar. Takk fyrir að minna mig á þau forréttindi sem fylgja því að tilheyra íslensku velferðarsamfélagi og búa á Íslandi og takk fyrir að minna mig á að njóta lífsins. Það er gott að eiga þig að.

Helga Þórólfsdóttir
hth79@hi.is

Höfundur er með framhaldsmenntun í friðar- og átakafræðum og hefur starfað sem sviðstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands og við hjálparstörf á vegum Rauða krossins í Sómalíu, Líberíu, Georgíu, Bosníu, Tajikistan, Úganda og Indlandi.  

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2008