Mikilvægt að flytja jákvæðar fréttir um Afríku

20. okt. 2008

Alþjóða Rauði krossinn hvetur blaðamenn og starfsmenn mannúðarsamtaka til að birta fleiri fréttir af því sem vel gengur í Afríku. Sérstaklega er mikilvægt að meira sé rætt um þann góða árangur sem oft fæst af mannúðarstörfum í álfunni. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem Rauði krossinn sendi frá sér við upphaf sjöndu Afríkuráðstefnu landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem hófst í Jóhannesarborg í dag.  Þórir Guðmundsson yfirmaður alþjóðasviðs er fulltrúi Rauða kross Íslands á ráðstefnunni.

Rauði krossinn hefur hrint af stað átaki sem kallað er „Höfum trú á Afríku“. Markmið átaksins er að vinna gegn þeirri ímynd fátæktar og hörmunga sem heimsálfan hefur fengið. Það hefur í för með sér ýmsar slæmar afleiðingar að Afríku skuli oftast vera lýst eins og þar ríki einungis vonleysi og eymd.

Athuganir Alþjóða Rauða krossins á umfjöllun vestrænna fjölmiðla sýna að Afríku er oftast lýst á mjög neikvæðan hátt. Sú mynd sem fjölmiðlar bregða upp af ástandinu er hins vegar í miklu ósamræmi við skoðanakannanir sem gerðar hafa verið meðal háttsettra embættis- og stjórnmálamanna um álit þeirra á framtíð Afríku. Þessir aðilar hafa flestir mjög jákvæða framtíðarsýn. Aðeins tveir af þeim 30 valdamönnum sem rætt var við voru svartsýnir á framtíðarhorfur álfunnar.

Flestir viðmælenda töldu fjölmiðla viðhalda neikvæðum viðhorfum gagnvart Afríku og fannst  að Alþjóða Rauði krossinn ætti að gera meira til að vekja athygli á þeim góða árangri sem náðst hefur á mörgum sviðum.

Fréttir af hörmungum beina athygli að þörfinni fyrir aðstoð
„Rauði krossinn er mannúðarstofnun og í hjálparstarfi okkar þurfum við að reiða okkur á fjárhagslegan stuðning frá styrktaraðilum. Við þurfum að vekja athygli á vandamálunum til að þessir aðilar leggi málefninu lið,“ sagði Bekele Geleta, nýskipaður framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins. „Það er skylda okkar að draga vandann sem steðjar að íbúum Afríku fram í dagsljósið og standa vörð um hagsmuni þeirra sem ekki fá nægan mat eða heilbrigðisþjónustu.“ Bekele Geleta er sjálfur fæddur í Eþíópíu, einu af fátækustu löndum Afríku.

„Að því leyti glímum við við sama vandamál og blaðamenn. Um allan heim eru það slæmu fréttirnar sem hafa mest áhrif og valda sterkustum viðbrögðum," sagði Geleta. „Við getum ekki flúið þá staðreynd að harðir og skyndilegir bardagar sem valda miklum straumi flóttamanna hafa meira fréttagildi heldur en átök sem fjara út á mörgum vikum eða mánuðum meðan flóttamenn tínast smátt og smátt aftur heim til sín.

„Þetta fréttamat hefur þau áhrif að það sem vel gengur í Afríku fellur í skuggann af því sem miður fer, en þrátt fyrir það eiga sér stað miklar framfarir í álfunni. Ríkisstjórnir Afríkulanda taka á sig sífellt meiri ábyrgð meðan samfélög og almenningur vinna hörðum höndum að jákvæðum breytingum. Rauði krossinn á náið samstarf við alla þessa aðila um uppbyggingu samfélagsþjónustu og aðstoð við þá sem eru hjálparþurfi.“

Alþjóða Rauði krossinn metur mikils það starf sem blaðamenn vinna í Afríku. Þeir bregðast oft mjög skjótt við og fara einir síns liðs langt inn á afskekkt þurrka- eða flóðasvæði þar sem engir eru komnir fórnarlömbum hamfaranna til hjálpar aðrir en sjálfboðaliðar Rauða krossins á staðnum. Þessir blaðamenn senda frá sér fréttaefni sem beinir athygli heimsins að þörfinni fyrir mannúðaraðstoð og styður þannig við þá fjáröflun sem er nauðsynleg til að hrinda megi hjálparstarfinu í framkvæmd.

Víða eru miklar framfarir í Afríku
Fréttamiðlar Alþjóða Rauða krossins hafa fylgst gaumgæfilega með ástandinu í Afríku og þeim framförum sem eiga sér stað í álfunni. Sérstaklega hefur átt sér stað mikil jákvæð þróun á sviði viðskipta og þar er gríðarlega hröð uppbygging farsímaþjónustu eitt af bestu dæmunum. Í ljós hefur komið að á Vesturlöndum eru jákvæðar fréttir um Afríku algengastar í viðskiptamiðlum.

„Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í Afríku í dag er aðeins hægt að leysa með því að styrkja innviði samfélagsins,“ sagði Geleta. „Það er samfélagið sjálft sem hefur bestu aðstöðuna til að bera kennsl á vandamálin og finna á þeim lausnir. Til að geta hrint þessum lausnum í framkvæmd er stuðningur alþjóðasamfélagsins nauðsynlegur, en um leið er mjög mikilvægt að hafa það í huga að vandamálin verða ekki leyst í Lundúnum, New York eða Genf, heldur í borgum, bæjum og samfélögum Afríku.“

Ráðstefna allra landsfélaga Rauða krossins í Afríku
Sjöunda ráðstefna allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku (the Pan-African Conference of Red Cross and Red Crescent Societies) hófst í Jóhannesarborg í dag. Þar koma saman leiðtogar 53 afrískra landsfélaga, auk fulltrúa alþjóðlegra mannúðarstofnana og háttsettra embættismanna frá ýmsum ríkjum. Á ráðstefnunni verður lagður grunnurinn að starfi Rauða krossins í Afríku á næstu fjórum árum.