Rauði krossinn í Afríku berst við loftslagsbreytingar og efnahagskreppu

23. okt. 2008

Landsfélög Rauða krossins í Afríku er í síauknum mæli farin að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga í álfunni. 

„Afrísku landsfélögin þurfa nánast árlega að berjast við afleiðingar flóða og þurrka sem áður urðu kannski á tíu ára fresti," segir Þórir Guðmundsson, fulltrúi Rauða kross Íslands á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans um Afríku sem lauk í Jóhannesarborg í dag. „Á sama tíma eru óveðursský á lofti vegna efnahagssátandsins í heiminum og óvíst hversu mikið fjármagn rennur á næstu árum til neyðar- og þróunarmála nú þegar þörfin hefur aldrei verið meiri."

Samþykkt var á Afríkuráðstefnunni að stefna að aukinni samvinnu og samskipti við ríkisstjórnir og aðra samstarfsaðila til að bæta hag þeirra samfélaga sem minnst mega sín í álfunni. Á þeim þremur dögum sem fundurinn stóð yfir var lagður grunnurinn að framkvæmdaáætlun Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku fyrir næstu fjögur ár.

Samkomulagið, sem kennt er við Jóhannesarborg, hefur að geyma niðurstöður ráðstefnunnar, en leitast einnig við að tryggja að samfélög standi fremst í því að hanna og koma í gagnið skilvirkum lausnum á þeim mannúðarvanda sem íbúar Afríku standa frammi fyrir.

Samkomulagið leggur áherslu á að styrkja samstarf bæði innan svæðisins og við alþjóðlegar hjálparstofnanir og styrktaraðila sem eiga sameiginleg markmið og hafa mikinn áhuga á samfélags- og sjálfboðastörfum.

„Allt samstarf þarf að byggja á samvinnu og gagnkvæmri virðingu. Þetta samstarf þarf að reisa á framlagi samfélagsins í baráttunni við alnæmi, berkla, malaríu og aðra sjúkdóma,“ sagði Mandisa Kalako-Williams, framkvæmdastóri suður-afríska Rauða krossins sem stjórnaði ráðstefnunni. „Það eru sjálfboðaliðar okkar sem eru grunnurinn að starfinu úti í samfélaginu.“

Auk stórra heilbrigðisverkefna munu hin 53 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku taka þátt í að þróa getuna til að bregðast við þörfum fólks sem neyðist til að flytjast búferlum vegna náttúruhamfara eða efnahagskreppu. Þau munu einnig tryggja matvælaöryggi, taka þátt í forvarnaraðgerðum gegn ofbeldi og vinna að því að draga úr neyð þeirra samfélaga sem hafa orðið illa úti í hamförum.

„Saman getum við gert ráðstafanir til að bregðast við þeim erfiðleikum sem þessi álfa stendur frammi fyrir. Sjálfboðaliðar okkar gera ráðstafanir af þessu tagi á hverjum degi í hverju þorpi, en það er samt svo margt sem er enn ógert. Við höfum trú á Afríku,“ sagði Bekele Geleta, framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins í ræðu sinni á lokaathöfn ráðstefnunnar.

Alþjóða Rauði krossinn hrinti fyrr í vikunni af stað verkefninu Höfum trú á Afríku, sem hefur það að markmiði að hvetja fjölmiðla og mannúðarstofnanir til birta fleiri jákvæðar fréttir frá Afríku. Haldin verður samkeppni á meðal fjölmiðla í Afríku sem er hluti af þessu verkefni. Tilkynnt verður um sigurvegara samkeppninnar á aðalfundi Alþjóða Rauða krossins í Nairobi í nóvember 2009.