Fjöldi hælisumsókna til iðnvæddra ríkja fyrri hluta ársins 2008

27. okt. 2008

Þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr fjölda íraskra hælisleitenda fyrri hluta ársins 2008 voru Írakar enn langfjölmennasti hópur hælisleitenda í iðnvæddum ríkjum. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna, UNHCR.
 
Fyrstu sex mánuði ársins 2008 bárust þeim 44 iðnvæddu ríkjum sem skýrslan tekur til alls 19.500 hælisumsóknir frá Írökum. Þetta samsvarar 18% fækkun miðað við seinni hluta ársins 2007 og 10% fækkun miðað við fyrri hluta ársins 2007. En þrátt fyrir þessa niðursveiflu eiga Írakar enn um 12 af hverjum 100 hælisumsóknum sem lagðar eru fram í iðnvæddum ríkjum.
 
Skýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna leiðir meðal annars í ljós að fleiri umsóknir bárust frá Írökum (19.500) en frá þegnum Rússneska Sambandslýðveldisins (9.400) og Kína (8.700) samanlagt, en þaðan koma flestir hælisleitendur á eftir Írak. Margir hælisleitendur koma einnig frá Sómalíu (7.400), Pakistan (6.300) og Afganistan (6.300).
 
Sextíu af hverjum hundrað íröskum umsækjendum sóttu um hæli í einungis fjórum löndum: Svíþjóð (20%), Þýskalandi (18%), Tyrklandi (14%) og Hollandi (12%). Fimmtungur allra íraskra hælisumsókna var lagður fram í Svíþjóð (3.900) en Svíþjóð hefur um nokkurn tíma verið aðal áfangastaður íraskra hælisleitenda. Nýverið hefur umsóknum Íraka um hæli í Svíþjóð þó fækkað, í kjölfar þess að breytingar voru gerðar á því hvernig ákvarðanir eru teknar um slíkar umsóknir. Á sama tíma hefur íröskum hælisleitendum fjölgað í Þýskalandi, Hollandi og Noregi. Til dæmis sóttu 3.400 Írakar um hæli í Þýskalandi fyrri hluta ársins 2008; jafnmargir og seinni hluta ársins 2007, en fjórfalt fleiri en fyrri hluta ársins 2007. 
 
Alls er talið að 165.100 hælisumsóknir hafi verið lagðar fram í iðnvæddum ríkjum fyrri hluta ársins 2008.

Enn sóttu flestir um hæli í Bandaríkjunum. Talið er að 25.400 einstaklingar hafi sótt um hæli í Bandaríkjunum á fyrri hluta ársins 2008, en það er um 15% af öllum umsóknum sem lagðar voru fram í þeim 44 iðnríkjum sem skýrslan tekur til. Næstflestir sóttu um hæli í Kanada, eða alls 16.800 einstaklingar á fyrstu sex mánuðum ársins.

Umsóknum um hæli í iðnvæddum ríkjum fjölgaði um 9% frá árinu 2006 til ársins 2007. Þessi þróun hélt áfram á fyrri hluta ársins 2008, en tölur sýna að umsóknum hafi fjölgað um 3% miðað við fyrri hluta 2007. Miðað við að núverandi mynstur haldist óbreytt næstu sex mánuði gerir Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna ráð fyrir að alls muni allt að 360.000 manns sækja um hæli árið 2008, 10% fleiri en árið 2007.
 
Meðal þeirra landa sem hvað flestir hælisleitendur koma frá varð vart við umtalsverða fjölgun umsækjenda frá Malí, Simbabwe, Myanmar, Afganistan, Srí Lanka, Fílabeinsströndinni, Georgíu og Lýðveldinu Kongó.

Skýrslan í heild sinni: Asylum Levels and Trends in Industrialized Countries, First Half 2008 [PDF, 519Kb]