Rauði kross Íslands opnar skrifstofu í Malaví

24. okt. 2008

Hólmfríður Garðarsdóttir hefur opnað skrifstofu Rauða kross Íslands í Lilongwe, höfuðborg Malaví, sem er eitt þéttbýlasta land Afríku með 11 milljónir íbúa. Hún starfar sem heilbrigðisráðgjafi Rauða kross Íslands og sér um samhæfingu alnæmis- og heilbrigðisverkefna Rauði krossins í landinu.

Rauði kross Íslands hefur á undanförnum árum safnað fé, meðal annars í söfnununum Göngum til góðs, sem nú er notað til að styðja alnæmisveika íbúa Chiradzúlu héraðs í Malaví og koma börnum þeirra sem deyja úr alnæmi til mennta. Í verkefnunum er lögð áhersla á heimahlynningu sjúkra, aðstoð við börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og forvarnarstarf til að vinna gegn útbreiðslu HiV veirunnar

Þrátt fyrir efnahagsóvissu þá sem ríkir á Íslandi leggur Rauði krossinn mikla áherslu á að viðhalda þjónustu sinni enda er um að ræða stuðning við fátækasta fólk í heimi, sem hefur orðið fyrir því gífurlega áfalli að greinast með alnæmisveiruna í líkama sínum. Um 4.100 börn njóta aðstoðar í verkefnum sem Rauði kross Íslands styður í Malaví.

Að auki er Rauði kross Íslands með heilbrigðisverkefni í Mósambík sem Nína Helgadóttir verkefnisstjóri þróunarverkefna félagsins hefur umsjón með, en hún hefur aðsetur í Mapúto í Mósambík. Þórir Guðmundsson yfirmaður alþjóðlega hjálparstarfs Rauða kross Íslands er nú að heimsækja verkefnin í fylgd með Hólmfríði og Nínu.