Skert heilbrigðisþjónusta á Gaza stofnar sjúklingum í hættu

28. okt. 2008

Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna ástandsins á Gaza á undanförnum vikum. Allt samstarf milli palestínskra yfirvalda í Ramallah og á Gaza hefur stöðvast. Innflutningur á mikilvægum aðföngum til sjúkrahúsa er nær enginn og hundruð mjög veikra sjúklinga á Gaza hafa ekki aðgang að lífsnauðsynlegri aðstoð.

„Þetta hefur alvarleg áhrif,” sagði Eileen Daly sem stýrir heilbrigðisaðgerðum Alþjóða Rauða krossins á Gaza. „Til dæmis hafa mörg lungnaveik börn ekki getað fengið lyf undanfarna viku. Ef þessi börn taka lyf sín ekki reglulega hrakar þeim mjög ört.”

Frá því í lok ágúst hefur staðið yfir verkfall palestínskra heilbrigðisstarfsmanna en það hefur einnig áhrif á það hvort sjúkrahús geti veitt lífsnauðsynlega þjónustu. Tíðni skurðaðgerða og innlagna hefur minnkað mjög að undanförnu.

Til að hjálpa sjúkrahúsum að takast á við þau verkefni sem eru mest aðkallandi hefur Alþjóða Rauði krossinn útvegað sjúkrastofnunum lyf, sjúkragögn og varahluti. Neyðaraðstoðin nægir hins vegar ekki til að takast á við núverandi ástand.

Alþjóða Rauði krossinn beinir því til palestínskra yfirvalda bæði í Ramallah og á Gaza að þau tryggi að næg aðföng berist sjúkrahúsum á Gaza. Skorað er á ísraelsk stjórnvöld að flýta því að sjúkragögn berist á svæðið.

„Stjórnmál mega ekki hafa áhrif á heilbrigðisþjónustu,” sagði Katharina Ritz yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins. „Mörg mannslíf eru að veði og því þarf að finna skjótar og raunhæfar lausnir á vandanum.”

Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur er tengiliður Alþjóða Rauða krossins við spítala á Gaza og Vesturbakkanum.