Neyðaraðstoð þegar hafin í Pakistan vegna jarðskjálftanna

29. okt. 2008

Hátt á annað hundrað manns fórust þegar þrír öflugir jarðskjálftar riðu yfir suðvestur Pakistan í dag og þúsundir manna hafa misst heimili sín. Óttast er að þessar tölur eigi eftir að hækka verulega. Jarðskjálftarnir mældust á bilinu 6,2-6,4 á Richter og ollu mestri eyðileggingu í Balukistanhéraði sem liggur við landamæri Afganistans.

Viðbragðssteymi frá Alþjóða Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum í Pakistan voru send á vettvang þegar í morgun til að hefja neyðaraðgerðir og meta ástandið. Að sögn hjálparstarfsmanna hefur fjöldi eftirskjálfta fylgt í kjölfar stóru skjálftanna þriggja og eru íbúar mjög óttaslegnir. Flestir hafast við undir berum himni en nú er orðið mjög kalt á næturnar á þessum slóðum og vetur við það að ganga í garð.

Rauði hálfmáninn hefur þegar hafið dreifingu hjálpargagna á svæðinu og heilbrigðisteymi þeirra veitir særðum og sjúkum aðhlynningu og fyrstu hjálp.  Sérhæft skurðlæknateymi Alþjóða Rauða krossins sem hefur aðsetur í borginni Peshawar í norðvesturhluta Pakistan hefur einnig verið sent á staðinn. 

Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur og einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands hefur nú um tveggja mánaða skeið unnið í Peshawar fyrir Alþjóða Rauða krossinn við að veita aðstoð flóttamönnum frá átakasvæðum við landamærahéruð Afganistans.

„Starfsmennirnir í þessu teymi eru allir mjög reyndir hjálparstarfsmenn fyrir Rauða krossinn og munu geta veitt særðum aðstoð á vettvangi og jafnvel framkvæma flóknar skurðaðgerðir á staðnum,” segir Áslaug.

Áslaug fann ekki fyrir jarðskjálftunum í morgun og í dag. Hún mun halda áfram störfum sínum í Peshawar og nágrenni út nóvember.