Bardagar valda þjáningum meðal almennings í Kongó

28. okt. 2008

Vopnin eru nú farin að tala á ný í Kongó, sem almenningur á Íslandi safnaði fyrir í Göngum til góðs nýverið. Starfið sem Íslendingar styðja - að sameina fjölskyldur sem sundrast í stríðinu - verður því illu heilli enn mikilvægara á komandi vikum og mánuðum en áður var vitað.

Þann 28. ágúst 2008 hófust að nýju bardagar milli stjórnarhers Lýðveldisins Kongó, andspyrnuhreyfingarinnar Congres National pour la Defense du Peuple og annarra vopnaðra hópa. Ástandið í Norður- og Suður-Kivu hefur versnað mjög og valdið því að um það bil 100.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Þetta hefur gert líf óbreyttra íbúa landsins enn erfiðara.

Óbreyttir borgarar flýja bardaga í Kivu héruðum

Hjálparstofnanir áætla að um það bil 100.000 manns hafi flúið heimili sín í Kivu frá því að bardagar hófust á svæðinu. „Hluti íbúanna hefur hrakist undan bardögum en aðrir yfirgefa þorp sín til að koma í veg fyrir árásir og þjófnað af hálfu vopnaðra flokka“, segir Max Hadorn, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Lýðveldinu Kongó. „Bardagarnir hafa valdið miklu manntjóni. Flóttafólkið hefur lítinn aðgang að vatni, læknishjálp og öðrum grundvallarnauðsynjum.“

Alþjóða Rauði krosssinn aðstoðar heilbrigðisstofnanir í Kongó

Alþjóða Rauði krossinn styður rekstur 17 heilbrigðisstofnana á átakasvæðinu með lyfjum og öðrum sjúkragögnum sem nauðsynleg eru til að hlúa megi að særðum. Rúmlega 600.000 manns búa á þjónustusvæði þessara stofnana. „Við höfum dreift sjúkragögnum sem gera þeim kleift að sinna um það bil 200 særðum,“ segir Hadorn. „Við höfum einnig útvegað skurðlækni og hjúkrunarkonu fyrir sjúkrahúsin í Norður-Kivu til að hægt sé að gera skurðaðgerðir á særðum.“

Alþjóða Rauði krossinn á einnig samstarf við Rauða krossinn í Kongó um dreifingu matvæla, útsæðis og annarra aðfanga til nærri 40.000 skjólstæðinga í Norður-Kivu. Þar hafa einnig verið settir upp tveir 5.000 lítra tankar sem geta séð rúmlega 10.000 manns fyrir drykkjarvatni.

Bardagar hindra störf Rauða krossins í Norður- og Suður-Kivu

Erfitt og jafnvel útilokað er fyrir Rauða krossinn að sinna starfi sínu á sumum svæðum. Þetta kemur í veg fyrir að hægt sé að hjálpa mörgum fórnarlömbum ófriðarins, séstaklega á svæðunum vestur af Goma. Allsstaðar þar sem öryggisástand leyfir heldur hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins hins vegar áfram.

„Alþjóða Rauði krossinn heldur nánu sambandi við alla aðila að átökunum í Kongó og minnir á skyldur þeirra samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum,“ segir Hadorn að lokum. „Óbreyttir borgarar eru þeir sem fyrstir þurfa að þola þjáningar vegna bardaganna. Það er skylda stríðandi aðila að bera virðingu fyrir mannslífum og standa vörð um velferð óbreyttra borgara, særða og allra þeirra sem teknir eru höndum í tengslum við átökin. “