Yfirmaður Alþjóða Rauða krossins fundar með Rauða krossi Íslands

31. okt. 2008

Encho Gospodinov, sviðsstjóri upplýsingasviðs Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf, heimsækir Rauða kross Íslands 31. október – 2. nóvember. Gospodinov mun halda til Akureyrar á laugardag til að funda með stjórn Rauða kross Íslands.

Gospodinov mun kynna fyrir stjórninni nýja stefnuskrá Alþjóða Rauða krossins sem taka á gildi árið 2010, en öll 186 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans byggja starfsemi sína á sameiginlegri stefnu sem gefin er út á tíu ára fresti.

Gospodinov mun einnig ræða við stjórnina um þær blikur sem eru á lofti vegna efnahagskreppunnar um allan heim og hvernig afleiðingar hennar kunna að koma niður á alþjóðlegri starfsemi Rauða krossins.

Encho Gospodinov hefur gegnt ýmsum stjórnunarstöðum hjá Alþjóða Rauða krossinum bæði á vettvangi og í höfuðstöðvum samtakanna í Genf. Áður en hann tók við stöðu sviðsstjóra upplýsinga- og stefnumótunarsviðs Alþjóða Rauða krossins var hann yfirmaður skrifstofu samtakanna í New York og tengiliður við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna um 10 ára skeið.