Alþjóða Rauði krossinn aðstoðar fórnarlömb jarðskjálfta í Pakistan

4. nóv. 2008

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni að upphæð sem svarar um það bil einum og hálfum milljarði íslenskra króna (níu milljónum svissneskra franka) til aðstoðar fórnarlömbum jarðskjálfta í suðvesturhluta Pakistans. Féð mun gera Alþjóða Rauða krossinum og pakistanska Rauða hálfmánanum kleift að auka neyðaraðstoð sína.

Jarðskjálftarnir riðu yfir landið þann 29. október og talið er að um 200 manns hafi farist á þeim svæðum í Baluchistan sem urðu verst fyrir barðinu á skjálftunum. Enn er ekki ljóst hve margir hafa slasast, en Alþjóða Rauði krossinn áætlar að jarðskjálftinn hafi valdið 20.000 til 30.000 manns tjóni.

Mest var tjónið í Ziarat héraði, 60 kílómetrum fyrir norðan Quetta en þar búa um 50000 manns. „Rúmlega 4000 hús úr leir og timbri eyðilögðust og þúsundir manna misstu heimili sín," sagði Pascal Cuttat, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Islamabad. „Forgangsverkefni okkar er að útvega fólki húsaskjól nú í byrjun vetrar. Vegna eftirskjálfta hefur margt fólk ákveðið að sofa utandyra, jafnvel á svæðum sem eru 2000 til 2500 metrum fyrir ofan sjávarmál".

Strax eftir að skjálftarnir riðu yfir aðstoðuðu Alþjóða Rauði krossinn og pakistanski Rauði hálfmáninn heilbrigðisstofnanir við að sinna þeim sem slösuðust. Dreift var hjálpargögnum til fólks sem á um sárt að binda vegna hamfaranna, þar á meðal tjöldum, segldúkum, teppum og búsáhöldum. Alþjóða Rauði krossinn býður einnig upp á leitarþjónustu fyrir þá sem þurfa hjálp við að finna ástvini sína á hamfarasvæðunum.

Áslaug Arnoldsdóttir sendifulltrúi hefur verið við störf í Peshawar undanfarnar vikur en er nú komin heim.