37 milljónir til Kongó vegna Göngum til góðs

5. nóv. 2008

Rauði kross Íslands hefur sent 37 milljónir króna til leitarþjónustuverkefnis Rauða krossins í Kongó sem stuðlar að því að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast vegna átaka. 

Rúmar 18 milljónir söfnuðust í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs sem haldin var 4. október. Í ljósi þess að aðeins safnaðist um helmingur þeirrar upphæðar sem fékkst í landssöfnuninni árið 2006 ákvað stjórn Rauða krossins að tvöfalda þá upphæð með framlagi úr neyðarsjóði félagsins til að standast væntingar Alþjóða Rauða krossins. Þrátt fyrir erfiða stöðu telur Rauði krossinn mjög mikilvægt að standa við skuldbindingar sínar í alþjóðlegum verkefnum.

Þörfin fyrir leitarverkefni Rauða krossins í Kongó hefur aldrei verið meiri en nú. Átök milli stjórnarhers og uppreisnarhermanna í norðurhluta landsins hafa blossað upp undanfarna daga og vikur og tugþúsundir manna hafa orðið að flýja á nýjan leik. Borgarastyrjöld hefur geisað í landinu síðan árið 1998 þó að formlega hafi verið samið um vopnahlé árið 2003 og eru um 1,3 milljón manns á flótta innan eigin landamæra.

Rauði krossinn er ákaflega þakklátur þeim sem gáfu sér tíma til að Ganga til góðs og þeim sem gáfu í söfnunina þrátt fyrir erfitt árferði.

„Við vissum að það var á brattann að sækja vegna efnahagsástandsins í landinu. Við erum því ákaflega þakkát þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið og örlæti þeirra sem gáfu,” segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands. „Við erum þakklát landsmönnum fyrir að sýna samhug með verkefnum Rauða krossins í Kongó þrátt fyrir erfiða tíma. Það er mikilvægt að geta veitt öðrum þjóðum sem búa við erfið skilyrði aðstoð þó á móti blási á Íslandi, og samstaðan með þeim er ekki síður mikilvæg en það fé sem safnaðist.”

Lokaupphæðin er byggð á söfnun Rauða kross deilda um allt land auk þeirrar upphæðar sem safnaðist í gegnum söfnunarsíma Rauða krossins. Þá tvöfaldaði SPRON þá upphæð sem viðskiptavinir bankans söfnuðu sem sjálfboðaliðar í Göngum til góðs og reiddi fram 1,2 milljóna króna framlag til landssöfnunarinnar. SPRON er sérlegur styrktaraðili Rauða krossins og hefur lagt félaginu lið í sjálfboðnu starfi.

Tæpar 40 milljónir söfnuðust árið 2006 þegar síðast var Gengið til góðs. Metþáttaka var þá í söfnunarátakinu en um 2.600 sjálfboðaliðar gengu í öll hús á landinu. Nú tóku um 1.600 sjálfboðaliðar þátt í landssöfnuninni og tókst því ekki að ganga í öll hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Góð þátttaka var þó víðast hvar á landsbyggðinni.