Rauði krossinn aðstoðar fórnarlömb kóleru í Simbabve

2. des. 2008

Alvarlegur kólerufaraldur geisar nú víða í Simbabve og hefur leitt hundruð manna til dauða. Heilbrigðisyfirvöld í landinu njóta aðstoðar Alþjóða Rauða krossins við að stöðva útbreiðslu faraldursins og veita sjúkum nauðsynlega aðhlynningu. Huld Ingimarsdóttir sendifulltrúi starfar í Simbabve.

Mikill fjöldi nýrra sjúklinga leitar á hverjum degi til heilbrigðisstofnana í Harare með alvarlegan niðurgang. Hluti þessara tilfella er kólera sem oft dregur sjúklinga til dauða. Samkvæmt tilkynningum frá ýmsum hjálparstofnunum hafa að minnsta kosti 380 manns látið lífið af völdum kóleru í Simbabve á undanförnum vikum og meira en 9500 tilfelli hafa verið skráð.

Haft var eftir einum starfsmanni heilsugæslustöðvarinnar í Budiriro í Harare að ástandið fari versnandi dag frá degi. Kólerutilfellum fjölgaði enn í þessari viku, bæði í Budiriro og á öðrum heilsugæslustöðvum. Budiriro er ein af mörgum heilsugæslustöðvum í úthverfum Harare sem breytt hefur verið í sérstaka meðferðarstöð fyrir kólerusjúklinga. Heilbrigðisstarfsmenn kenna menguðu drykkjarvatni um kólerufaraldurinn.

„Á sumum svæðum þarf almenningur að sækja vatn í grunna brunna og önnur menguð vatnsból. Einnig er auðvelt að safna regnvatni á þessum tíma árs vegna regntímans, og margir freistast til að nota það sem drykkjarvatn. Þetta vatn er oft mengað og getur valdið alvarlegum veikindum,“ segir Sandra Egenheer Fust, verkfræðingur á sviði vatnsöflunar og hreinlætis hjá Alþjóða Rauða krossinum í Harare.

Huld Ingimarsdóttir sem starfar sem verkefnisstjóri matvælaaðstoðar Alþjóða Rauða krossins í Simbabve segir ástandið vera gífurlega slæmt. Þetta sé í fyrsta sinn í mörg ár sem kólera kemur upp í höfuðborginni.

„Ástandið er enn verra fyrir þær sakir að fjölmargir hafa ekkert að bíta og brenna og er því veikara fyrir en ella. Vatnsskortur er í borginni og hreinlætisaðstöðu því víða ábótavant sem veldur því að kóleran smitast eins og eldur í sinu,” segir Huld.

Alþjóða Rauði krossinn veitir nú yfirvöldum í Harare og víðar í landinu aðstoð við að bregðast við ástandinu. Frá því að kólerufaraldurinn braust út snemma í nóvember hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift 1.000 lítrum af saltlausn til að gefa í æð og 20.000 saltskömmtum fyrir sjúklinga sem tapað hafa miklum vökva úr líkamanum. Eins hefur verið dreift ruslapokum, hreinsibúnaði, einnota hönskum og matvælum fyrir starfsmenn á heilsugæslustöðvum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Simbabve vinna við hlið starfsmanna Alþjóða Rauða krossins.

Til að útvega nóg af drykkjarvatni fyrir heilsugæslustöðvarnar í Budiriro og Glen View hefur Alþjóða Rauði krossinn borað þar tvær borholur. Vatnsdælum verður komið fyrir í þessari viku. Um leið hefur vatn verið flutt með bílum til heilsugæslustöðvanna í Budiriro, Glen View og  Rutsanana. Alþjóða Rauði krossinn vinnur einnig að því að gera við eldri borholur við heilsugæslustöðvarnar í Rutsanana og Mabvuku.