Stórt skref í Ósló

Þóri Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

2. des. 2008

Í dag verður rekið smiðshöggið á áratugalanga baráttu Rauða krossins og annarra mannúðarsamtaka við að gera útlæg vopn sem særa og drepa löngu eftir að átökum linnir. Þá skrifa fulltrúar ríkja heims undir samkomulag um að banna framleiðslu, geymslu og notkun klasavopna.

Eyðileggingarmáttur klasavopna er mikill. Ef einhver tæki upp á því að varpa klasasprengju á miðbæinn í Reykjavík, þá myndu 600 litlar sprengjur falla á svæðið milli Tjarnarinnar og Reykjavíkurhafnar. Flestar myndu springa strax en allt að 100 liggja og bíða þess að forvitnar hendur tækju þær upp, jafnvel áratugum síðar.

Fyrsta borgin sem varð fyrir klasasprengju var Grimsby, árið 1943. Síðast var klasasprengjum varpað á Líbanon árið 2006. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var þar að störfum við að leita uppi virkar sprengjur.

Nú eru svæði í 20 löndum menguð af milljónum ósprunginna lítilla sprengja – og þá eru jarðsprengjur ekki teknar með í reikninginn. Samkvæmt samningnum sem verður undirritaður í Ósló er lagt bann við notkun þessara vopna og herjum gefin átta ár til að eyðileggja þau.

Stríðsaðilum þykja klasavopn ákjósanleg á vígvellinum. En eftir átökin liggja þessar litlu sprengjur, forvitnilegar að lögun og lit, og bíða þess að springa, jafnvel í marga áratugi. Helstu fórnarlömb þessara stríðstóla eru börn.

Jarðsprengjur voru bannaðar 1997. Árið 2003 var alþjóðasamningur undirritaður um úrgang á vígvöllum. Nú, 3. Desember 2008, samþykkja þjóðir heims bann við klasavopnum.

Íslendingar hafa borið gæfu til að taka þátt í mikilvægum alþjóðasamningum á sviði mannúðarréttar. Það skiptir miklu máli. Sex mánuðum eftir að 30 ríki hafa fullgilt sáttmálann um bann við klasavopnum gengur hann í gildi.

Fulltrúi Íslands skrifar undir samninginn strax í upphafi. Ef Alþingi fullgildir hann án tafar þá hafa Íslendingar lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að vernda saklaust fólk, einkum börn, á vígvöllum framtíðarinnar.