Rauði krossinn hjálpar týndum börnum í Kongó

3. des. 2008

Tugir fjölskyldna hafa sundrast frá því að átök hófust að nýju í Lýðveldinu Kongó.  Einstök vinátta og samheldni íbúanna, ásamt stuðningi Rauða krossins gerir fólki mun auðveldara að takast á við erfiðleikana. Fjölskyldur í Kongó eru stórar og börnin stundum mjög mörg. Því miður kemur það oft fyrir að börn týni foreldrum sínum þegar þau flýja undan átökum ásamt íbúum heilla þorpa. Rauði kross Íslands styrkir leitar

Rauða kross Íslands styður sameiningu fjölskyldna sem sundrast hafa vegna stríðsátak í Kongó. Féð sem rennur til félagsins frá styrktarfélögum og það sem safnaðist í landsöfnuninni Göngum til góðs í október rennur til verkefnisins.

Alþjóða Rauði krossinn veitir aðstoð við að sameina fjölskyldur
Um það bil 250,000 manns hafa flúið heimili sín frá því að bardagar hófust í lok ágúst 2008. Alþjóða Rauði krossinn og landsfélag Rauða krossins í Lýðveldinu Kongó hafa skráð um hundrað börn sem orðið hafa viðskila við foreldra sína í Norður-Kivu héraði. Samstundis var gripið til ráðstafana til að finna ættingja þeirra og fjögur barnanna hafa nú sameinast fjölskyldum sínum á ný. Rauði krosssinn hefur opnað tvær nýjar skrifstofur í flóttamannabúðunum í Kibati, norðaustur af Goma til að gera leitina að týndum börnum auðveldari.

 Á hverjum degi eru nöfn týndra barna auglýst í útvarpsstöðvum í Norður-Kivu.

Kirotshe er lítið þorp í um það bil 40 kílómetra fjarlægð frá Goma. Þorpið stendur í skjóli grænna hæða með útsýni yfir dal sem er jafnvel enn gróskumeiri en hólarnir í kring. Í miðju þorpinu dreifa Alþjóða Rauði krossinn og Rauði krossinn í Kongó matvælum til fólks sem þurft hefur að yfirgefa heimili sín vegna bardaga að undanförnu. Sjá má merki þreytu, hungurs og sorgar á andlitum karla, kvenna og barna sem safnast hafa saman á þessum stað.

Samheldni og hjálpsemi gerir líf týndra barna bærilegra
Esta og Jashire eru ekki systur í raun og veru, þó að þær séu mjög nánar hvor annarri. Þær ólust upp í þorpum sem ekki standa fjarri hvort öðru og hittust einungis vegna þess harmleiks sem dunið hefur yfir svæðið á undanförnum mánuðum.

„Esta kom í lok september. Jashire kom tveimur vikum síðar. Þær hafa verið óaðskiljanlegar síðan,“ segir Kasongo. Hann á sjálfur níu börn og hefur boðið stúlkurnar velkomnar í fjölskyldu sína. „Þær urðu viðskila við foreldra sína og týndust þegar þær þurftu að forða sér undan átökunum. Ég ber ábyrgð á svæðinu hér í kring og það er í raun skylda mín að hugsa um þær þangað til við finnum fjölskyldur þeirra.“

Það eru engar flóttamannabúðir nálægt Kirotshe. Flestir þeirra sem þurft hafa að flýja heimili sín hafa fundið sér athvarf á heimilum fólks sem býr á svæðinu. Íbúar þessa landshluta hafa sýnt einstaka samheldni. Þó að fólk búi sjálft við fátækt hefur það tekið að sér tugi týndra barna.

Esta segir okkur frá því feimninslega þegar vopnaðir menn nálguðust Mitogoto, þorpið þar sem hún bjó. Þá flýði hún með móður sinni, eldri systur sinni og öðrum þorpsbúum. Þegar þau fóru gegnum skóg nokkurn heyrðu þau byssuskot og fóru að hlaupa. Þegar Esta loks nam staðar, aðframkomin af mæði, sá hún fjölskyldu sína hvergi.

Jashire er frá þorpinu Kiluku. Móðir hennar vann í fjarlægu þorpi sem nefnist Goma og faðir hennar er látinn. Jashire ólst því upp hjá ömmu sinni. Þegar hún flýði úr þorpinu þeirra ákvað amma hennar að verða eftir, því að hún var of gömul til að ganga langt. Það var það síðasta sem litla stúlkan heyrði af henni. „Mér líður betur núna, en mig langar óskaplega mikið að finna mömmu mína,“ sagði Jashire að lokum. „Það er gott að vera hér því að ég hef stað til að sofa á og mat til að borða, en mest þó vegna þess að Esta er hjá mér.“