Barist gegn alnæmi í sveitum Malaví

Þóri Guðmundsson

9. des. 2008

Söngur ómar um sveitir Malaví þegar fulltrúar Rauða kross Íslands koma að heimsækja leikskóla, sem byggður var fyrir aðstoð frá Íslandi. Í Malaví syngja menn þegar þeir eru glaðir og þegar þeir eru sorgmæddir. Söngurinn er ekki bara til hátíðarbrigða heldur er hann hluti af daglegu lífi.

Hér í litlu þorpi í Chiradzulu í Malaví er rituð nútímasaga Afríku. Nærri því einn af hverjum fimm fullorðnum íbúum Malaví er smitaður alnæmisveirunni. Þeir liggja fyrir í beddum eða sitja við dyr leirkofa með stráþaki. Sumir hafa fengið lyf sem halda veirunni í skefjum en aðrir eru langt leiddir og komast vart á sjúkrahús til að láta skoða sig. Þetta eru bæði karlar og konur.

Sumir komast í mannlega snertingu aðeins þrisvar í viku, þegar sjálfboðaliði Rauða krossins í Malaví kemur í heimsókn. Rauði kross Íslands hjálpar til við að þjálfa sjálfboðaliðana og fylla á litla sjúkratösku sem þeir hafa. Sjálfboðaliðirnir eiga yfirleitt sjálfir heima í einu af þorpunum sem þeir heimsækja.

Starfinu í Chiradzulu er haldið úti fyrir fé sem safnaðist í söfnunum Rauða krossins Göngum til góðs árið 2004. Auk þess hafa tombólubörn, fyrirtæki og styrktarmenn Rauða kross Íslands stutt starfið. Oft eru upphæðirnar litlar en skipta miklu máli þegar saman safnast.

Víða í Afríku er fólk á miðjum aldri að fækka svo mikið að helst virðist sem eingöngu séu eftir börn og gamalmenni. Algengt heimilismunstur er afi og amma að gæta barnabarnanna – en pabbi og mamma eru fallin frá. Sums staðar nýtur afa og ömmu ekki við og þá er elsta barnið höfuð fjölskyldunnar.

Á leikskóla sem byggður var fyrir stuðning frá Rauða krossi Íslands eru 365 börn, sem í flestum tilvikum hafa misst foreldra sína í helgreipar alnæmis. Þegar við heimsækjum leikskólann eru 127 börn á staðnum, 59 drengir og 68 stúlkur.

Leikskólinn er á stærð við litla stofu – eða kanski stórt eldhús – í venjulegu íslensku húsi, líklega um 35 fermetrar. Samt er búið að búa til sjö fræðsluhorn, þar sem börnin fást við  lestur, leiklist, tónlist, myndlist, fínhreyfingar og annað.

Þau börn sem komast ekki fyrir inni eru úti að leika sér í umsjón sjálfboðaliða Rauða krossins, sem eru bæði karlar og konur úr þorpinu. Þeirra umbun er helst sú að fá að ganga um í bolum merktum Rauða krossinum.

Þarna eru líka eldri munaðarlaus börn, enda þægilegt að nota leikvöllin sem samkomusvæði þeirra líka. Þeirra á meðal er Franco John, 17 ára nemi í menntaskóla. Hann býr með afa sínum, mömmu og fjórum systkynum. Faðirinn er fallinn frá.

„Mig langar til að verða lögfræðingur,” segir Franco.

Hann er að skrifa minningarbók, sem Rauði krossinn hefur útvegað honum. Í bókina skráir hann drauma sína og þrár um betra líf fyrir sig og fjölskyldu sína. Fortíðin hefur einnig sinn sess í bókinni en það er greinilega framtíðin sem skiptir mestu máli.

Violet er 18 ára. Í hennar bók kemur fram að hana dreymir um að verða lögreglukona. Af hverju? Jú, hún vill hjálpa fólki.

Það er líka barist gegn alnæmi með fræðslu. Við fylgjumst með leikatriðum fræðsluhóps malavíska Rauða krossins. Um 200 þorpsbúar eru viðstaddir. Spaugstofan íslenska gæti vart gert betur; að minnsta kosti veltast viðstaddir um af hlátri. Í flestum tilvikum virðist pabbinn verða aðhlátursefnið – þegar hann danglar í börnin eða rennir hýru auga til annarra kvenna.

Þannig eru unnið gegn alnæmi aðallega á þremur vígstöðvum: aðhlynningu þeirra sem þjást af sjúkdómnum, stuðningi við munaðarlaus börn og fræðslu um smitleiðirnar. Með þessum hætti hefur – að minnsta kosti í þessari malavísku sveit – tekist að upplýsa fólk svo það geti komið í veg fyrir smit og aðstoða fórnarlömb þessa mikla vágests sem alnæmisveiran er.

Mynd af verkefnum Rauða krossins í Malaví tekin í október 2008: