Hjálpargögn Rauða krossins komast til Simbabve

16. des. 2008

Hlaðinn vörubíll Rauða krossins kom til Harare, höfuðborgar Simbabve, í gær. Í bílnum eru nauðsynleg gögn til að landsfélag Rauða krossins geti haldið áfram mikilvægu starfi sínu í baráttunni við kólerufaraldurinn.

Meðal annars eru í farminum fjórir kólerupakkar, en þeir duga til að meðhöndla 4800 sýkta einstaklinga. Á leiðinni eru 16 slíkir pakkar til viðbótar sem munu gera Rauða kross Simbabve kleift að meðhöndla 30 þúsund manns.

Í bílnum eru einnig pakkar með efni sem hreinsar vatn og gerir það drykkjarhæft. Efnið virkar þannig að fyrst ræðst það á allar fljótandi agnir, sekkur þeim og sótthreinsar svo vatnið. Alls hafa verið sendir 552 þúsund pakkar af efninu í hjálparstarfið í Simbabve. Hver pakki hreinsar 20 lítra af vatni og gerir því Rauða krossinum mögulegt að sjá þeim allra verst stöddu fyrir meira en 10 milljón lítrum af hreinu drykkjarvatni. Rauði krossinn hefur frá lokum október dreift vatnshreinsiefnum til íbúanna.

Til viðbótar eru um borð 1500 „sogrör lífs” (life straws) sem suður-afrísk góðgerðarsamtök, „Water for All” (vatn fyrir alla), gáfu Rauða krossinum. Sogrör þessi má nota til að drekka beint úr óhreinu vatnsbóli því þau hreinsa vatnið um leið og það fer í gegn. Rörin verða notuð af sjálfboðaliðum Rauða kross Simbabve til að halda þeim heilbrigðum á meðan þau halda áfram forvarnarstarfi sínu, dreifingu vatnshreinsiefna og vökvabindandi sölt.

Til að halda áfram og styrkja forvarna- og kynningarstarfið eru í farminum einnig 40 þúsund bæklingar um kóleru, orsakir veikinnar, einkenni og fyrirbyggjandi hreinlæti, bæði á ensku og shona. Þessar upplýsingar eru gríðarlega mikilvægar til að fræða fólk og styrkja sjálfshjálp á helstu áhættusvæðum og minnka líkurnar á kólerutilfellum og dauða.