Rauði krossinn segir hersveitir Ísraels brotlegar við alþjóða mannúðarlög

9. jan. 2009

Alþjóða Rauði krossinn krefst þess að sjúkrabílar Rauða hálfmánans í Palestínu fái óskertan aðgang að átakasvæðum í Gaza svo hægt sé að bjarga eins mörgum mannlífum og mögulegt er.
 
Rauði krossinn lýsti því yfir í gær að Ísraelsher hefði brotið gegn alþjóðlegum mannúðarlögum þegar hjálparstarfsmönnum var meinað að vitja særðra borgara í Zaytun hverfi Gazaborgar.  Fjórir dagar liðu þar til starfsmenn Rauða hálfmánans og  Rauða krossins komust til að sinna særðu fólki og ungum börnum eftir árás hersveita Ísraela á hverfið.  
 
Fjögur börn fundust örmagna við lík mæðra sinna, og voru 30 manns fluttir á brott sem þurftu aðhlynningar.  Í slíkum tilvikum ber hermömmum að veita lífsnauðsynlega aðstoð samkvæmt Genfarsamningunum.
 
“Hjálparstarfsmenn, og sérstaklega teymi palestínska Rauða hálfmánans, verða að komast óhindrað leiðar sinnar til að sinna særðu fólki og flytja það á sjúkrahús,” sagði Jakob Kellenberger, formaður Alþjóðaráðs Rauða krossins í dag.
 
Kellenberger segir ísraelsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau myndu tryggja að nauðsynleg aðstoð bærist fórnarlömbum stríðsins í Gaza.  Þetta feli í sér að sjúkraflutningamenn og annað heilbrigðisstarfsfólk eigi að hafa ótakmarkaðan aðgang að átakasvæðunum.
 
“Við fögnum því að daglega sé gert 3 klukkustunda hlé á árásunum.  Hinsvegar verða hjálparstarfsmenn að geta sinnt starfi sínu allan sólarhringinn ef þarf, en ekki aðeins þrjá klukkutíma á dag.”
 
Formaðurinn benti einnig á að bæði ísraelskar hersveitir og vopnaðar sveitir Palestínumanna eru bundnar af alþjóða mannúðarlögum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leita, sækja og flytja særða og sjúka, sérstaklega á svæðum sem sjúkrabílar komast ekki á vegna öryggisástæðna.
 
“Við höfum þegar séð dæmi þess að særðir borgarar hafi látið lífið vegna þess að hjálparstarfsmenn hafa ekki fengið leyfi til að sinna þeim.  Ef þessar grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga eru ekki virtar munu fjöldi þeirra sem hægt hefði verið að bjarga láta lífið.”