FomaðurAlþjóða Rauða krossins krefst þess að óbreyttir borgarar og hjálparstarfsmenn njóti frekari verndar

15. jan. 2009

Jakob Kellenberger formaður Alþjóða Rauða krossins hvetur stríðandi fylkingar í Gasa til að hlífa almenningi við átökunum og tryggja öryggi hjálparstarfsmanna. „Báðir stríðsaðilar verða að tryggja að særðir komist skjótt undir læknishendur hvenær sem er sólarhringsins," sagði Kellenberger sem er staddur í Gasa til að kynna sér aðstæður. „Særðir geta ekki beðið aðstoðar í nokkra tíma hvað þá heilu dagana áður en þeir fá læknisaðstoð. Það verður að tryggja öryggi lækna og hjúkrunarliðs svo þau geti sinnt starfi sínu. Öryggi við hjálparstörf er ekki samningsatriði.” 
 
Á meðan heimsókn Kellengbergers stendur halda stríðsátök á Gasaströnd áfram að harðna með sífellt hræðilegri afleiðingum fyrir innilokaða íbúa svæðisins. Sjúkrahúsin eru nú þegar yfirfull og eiga erfitt með að taka á móti æ fleiri særðum.
 
„Ég varð vitni að skelfilegum afleiðingum stríðsins í dag,” sagði Kellenberger, „það er óásættanlegt að svo margir liggja særðir. Lífi almennings verður að þyrma og öryggi hjúkrunarliðs verður að tryggja.” Forseti Alþjóða Rauða krossins heimsótti sjúkrahúsið í Gasaborg þar sem hann hitti sjúklinga, skurðlækningateymi Alþjóða Rauða krossins og hjúkrunarlið.
 
Kellenberger ítrekaði að Alþjóða Rauði krossinn muni áfram gera allt sem í valdi hans stendur til að aðstoða hjúkrunarlið og hjálparstarfsmenn palestínska Rauða hálfmánans við störf þeirra en dag hvern hætta sjálfboðaliðar og starfsmenn palestínska Rauða hálfmánans lífi sínu við að bjarga öðrum.
 
Í dag hélt Kellenberger til Siderot í suðurhluta Ísraels sem hefur orðið fyrir flugskeytaárásum frá Gasa og hittir hjálparstarfsmenn ísraelsku Rauðu Davíðsstjörnunnar.

Kellenberger mun einnig ræða við Tzipi Livni utanríkisráðherra og Ehud Barak varnarmálaráðherra Ísraels sem og Mahmud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínu.
 
Frekari upplýsingar:
Dorothea Krimitsas, ICRC Geneva, tel. +41 22 730 25 90 or +41 79 251 93 18
Anne-Sophie Bonefeld, ICRC Jerusalem, tel. +972 2 582 88 45 or +972 52 601 91 50
Iyad Nasr, ICRC Gaza, tel. +972 59 960 30 15 (Arabic)
Yael Segev-Eytan, ICRC Tel Aviv, tel. +972 3 524 52 86 or +972 52 275 75 17 (Hebrew)
Nadia Dibsy, ICRC Jerusalem, tel. +972 5917900 or +972 52 601 91 48 (Arabic)