Átökin á Gasa: Sameiginleg yfirlýsing Rauða kross hreyfingarinnar

14. jan. 2009

Alþjóða Rauði krossinn hefur miklar áhyggjur af átökunum á Gasaströndinni og af hörmulegum afleiðingum þeirra fyrir íbúa svæðisins. Almenningur sem hefur þurft að flýja heimili sín hefur lent í víglínu átakanna og hundruð óbreyttra borgara hafa látið lífið og enn fleiri eru særðir. Rauði krossinn harmar að særðum hefur ekki verið veitt læknisaðstoð þar sem sjúkrabílar jafnt sem hjúkrunarfólk hefur ekki getað komist leiðar sinnar. Dæmi eru um að særðir hafi látist á leið á sjúkrahús þar sem sjúkrabílar sem hafa flutt þá hafa ekki fengið fararleyfi í tæka tíð.

Alþjóða Rauði krossinn hvetur stríðandi aðila og þá sérstaklega Ísraelsmenn til að aflétta hindrunum svo að læknar og hjúkrunarlið geti sinnt starfi sínu og bjargað mannslífum. Félagið leggur áherslu á að samkvæmt alþjóða mannúðarlögum ber stríðandi aðilum að flytja særða burt af vígvellinum og veita þeim læknisaðstoð tafarlaust og án tillits til þess hvorum stríðaðila þeir tilheyra.

Gjöreyðilagt hús á sunnaverðri Gasa ströndinni. Mynd: ©Reuters /S. Salem.
Strákar bíða eftir hjúkrun á Shifa spítala. Mynd: ©Reuters /S. Salem.
Íbúar skoða eyðilagt hús sitt eftir árás Ísraela. Mynd: ©Reuters /S. Salem.

Rauði krossinn þakkar sjálfboðaliðum og starfsfólki palastínska Rauða hálfmánans sem hafa unnið sleitulaust að því að bjarga óteljandi mannslífum. Starfsfólk félagsins hefur særst þegar skotið hefur verið á það við störf og skemmdir á sjúkrabílum og öðrum eigum palestínska Rauða hálfmánans hafa dregið verulega úr getu félagsins til að sinna mannúðarstörfum á Gasasvæðinu.

Alþjóða Rauði krossinn harmar að stríðandi aðilar hlífi ekki hjálparstarfsmönnum, sjúkrabyggingum og sjúkrabílum sem bera greinileg verndarmerki Rauða hálfmánans. Félagið hvetur stríðandi aðila til að sinna skyldum sínum samkvæmt alþjóða mannúðarlögum og gera starfsfólki palestínska Rauða hálfmánans og hjálparstarfsmönnum annarra hlutlausra, sjálfstæðra og óhlutdrægra hjálparsamtaka kleift að sinna hjálparstarfi. Rauði krossinn fagnar öllum tilraunum til vopnahlés og krefst þess að mannúðaraðstoð verði tryggð þannig að hægt verði að veita særðum  læknisaðstoð og að hægt verði að flytja hjálpargögn til fórnarlamba átakanna.

Alþjóða Rauði krossinn fagnar því að egypski Rauði hálfmáninn leitast við að tryggja aðgang hjálparstarfsmanna inn á Gasaströnd og sinna fórnarlömbum átakanna og er reiðubúinn til að aðstoða landsfélagið við störf þess ef þess gerist þörf.

Fjöldi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem og Alþjóða Rauði krossinn starfa af fullum krafti á Gasasvæðinu og í nágrenni þess í samræmi við grundavallarmarkmið hreyfingarinnar. Rauða kross hreyfingin hvetur alþjóðasamfélagið, og þjóðir sem geta lagt fjármagn af mörkum, til að styðja mannúðarstarf Rauða kross hreyfingarinnar sem samhæfir verkefni sín með stofnunum Sameinuðu þjóðanna svo vel sé að verki staðið.

Á fundi sem egypski Rauði hálfmáninn boðaði til í Kairo þann 11. janúar skiptu Alþjóða Rauði krossinn og landsfélög Rauða kross hreyfingarinnar með sér verkum samkvæmt skilgreindu hlutverki. Aðilar á fundinum eru reiðubúnir til að sinna frekar mannúðarstarfi á Gasa eftir því sem þörf krefur.