Rauði krossinn fordæmir árásir sem ógna lífi óbreyttra borgara í Gaza

16. jan. 2009

Rauði kross Íslands fordæmir árásir á sjúkrahús og vöruhús Rauða hálfmánans í Gaza í gær sem og ítrekuðum árásum á óbreytta borgara og segir þær stríða gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og öllum siðrænum gildum í mannlegu samfélagi.

„Byggingar Rauða hálfmánans skemmdust t illa í árásunum. Þetta gerir starfmönnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans enn erfiðara fyrir að halda úti lífsnauðsynlegu hjálparstarfi,” segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands.

Þúsundir manna sem þurfa nauðsynlega á læknisaðstoð að halda fá enga hjálp því öll sjúkrahús eru yfirfull og hjálparstarfsmenn hafa lítinn aðgang að svæðum þar sem fjöldi sjúkra og særða hafast við.

Flytja þurfti um 500 sjúklinga Al Quds sjúkrahússins, sem rekið er af palestínska Rauða hálfmánanum, á jarðhæð þar sem þeir hafast nú við fullir örvæntingar og hræðslu. Efri hæðir sjúkrahússins urðu illa úti í árásinni, og eldur kviknaði í annarri hæð byggingarinnar.


„Hjálparstarfsmenn Rauða hálfmánans og Rauða krossins vinna hér þrekvirki á hverjum degi við lífshættulegar aðstæður,” segir Pálína Ásgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins, sem er nú stödd í Gaza. Pálína vinnur að því að samhæfa neyðaraðgerðir Alþjóða Rauða krossins á sjúkrahúsum í Gaza og á Vesturbakkanum.

Einnig kviknaði í vöruhúsi palestínska Rauða hálfmánans í einni árásinni. Sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans var meinað af hersveitum Ísraela að freista þess að slökkva eldinn. Eldsneyti er geymt í vöruhúsinu, og komist eldur að því eru íbúar í nágrenninu í stórhættu.

Rauði krossinn lýsti því yfir í gær að árásir Ísraelshers hafi skelfilegar afleiðingar fyrir almenning í Gaza. Matvæli og lyfjabirgðir hafi orðið eldi að bráð í vöruhúsum Rauða hálfmánans og Sameinuðu þjóðanna, og óbreyttir borgarar sem flýji heimili sín matarlausir og örvinglaðir eigi ekki í nein hús að venda.

„Ástandið í Palestínu var skelfilegt fyrir. Maður getur hreinlega ekki ímyndað sér hvernig fólk fer að við þessar aðstæður þar sem skólar, sjúkrahús og byggingar Rauða hálfmánans og Sameinuðu þjóðanna verða fyrir árásum,” segir Anna, en hún og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauð kross Íslands ferðuðust um Palestínu síðastliðið sumar til að kynna sér samstarfsverkefni Rauða hálfmánans og Rauða kross Íslands og Danmerkur í sálrænum stuðningi á átakasvæðunum.