Rauða krossinn skortir fjármagn til að bregðast við skæðum kólerufaraldri í Simbabve

26. jan. 2009

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði krossinn í Simbabve óttast að ekki takist að afla nægilegs fjár til að áfram verði hægt að hjálpa kólerusmituðum og hefta megi frekari útbreiðslu faraldursins í landinu.

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands starfa í neyðarteymum Rauða krossins í Simbabve til að vinna gegn kólerufaraldrinum, hjúkrunarfræðingarnir Hildur Magnúsdóttir og Maríanna Csillag. Þá stýrir Huld Ingimarssdóttir samhæfingu matvæladreifingar Alþjóða Rauða krossins í landinu.

Rauði krossinn hefur sérstaklega áhyggjur af fjárskorti þar sem faraldurinn magnast dag frá degi samkvæmt nýútgefinni skýrslu heilbrigðisráðuneytis Simbabve og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt skýrslunni höfðu 48.623 manns smitast þann 21. janúar síðastliðinn og 2.755 látist af völdum kólerunnar. Sérfræðingar Rauða krossins hafa af því miklar áhyggjur að dánartíðni sjúkdómsins er nú 5,7% en það bendir til þess að faraldurinn sé síst í rénun. Þar sem dauðsföllum af völdum sjúkdómsins fjölgaði um 20% milli vikunnar sem er að líða og vikunnar þar áður þykir brýnt að afla aukins fjármagns svo hefta megi enn frekari útbreiðslu kólerunnar.

„Við óttumst að það muni taka margar vikur að ná tökum á faraldrinum vegna þess hve skæður hann er,” sagði Tony Maryon yfirmaður Alþjóða Rauða krossins í Simbabve. „Við munum starfa með stjórnvöldum að því að hefta frekari útbreiðslu kólerunnar og þegar því verkefni er lokið munum við aðstoða stjórnvöld og almenning í Simbabve svo hægt verði að minnka líkur á að kólerufaraldur geisi á ný. Við höfum hins vegar áhyggjur af því að ekki fáist nægt fjármagn til verkefnisins. Eins og staðan er í dag höfum við fjármagn til að sinna starfinu í fjórar vikur til viðbótar.”

Aðeins hefur tekist að afla um 60% þess fjárstuðnings (10,2 milljónir svissneskra franka eða (9,2 milljónir bandaríkjadala/ 6,6 milljónir evra) sem Alþjóða Rauði krossinn bað um þann 23. desember síðastliðinn svo bregðast mætti við kólerufaraldrinum í Simbabve. Síðastliðinn mánuð hefur hjálparstarfsfólk Rauða krossins sinnt þúsundum manns um allt land og starfað ötullega að því að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

„Við störfum þar sem kólerunnar hefur orðið vart,” útskýrði Emma Kundishora framkvæmdastjóri Rauða krossins í Simbabve. „Sjálfboðaliðar og starfsfólk félagsins útvega hreint vatn og hafa komið upp hreinlætisaðstöðu og meðferðarþjónustu. Þau veita einnig upplýsingar um smitleiðir sjúkdómsins og þær upplýsingar geta bjargað mannslífum.”

Styrkur Rauða kross hreyfingarinnar hefur komið í ljós í viðbrögðum hennar við kólerufaraldrinum en sjö alþjóðleg neyðarteymi eru nú á vettvangi til að aðstoða Rauða krossinn í Simbabve á svæðum þar sem faraldurinn er skæðastur.

„Alþjóða Rauði krossinn og einstök landsfélög hafa stutt Rauða krossinn og allan almenning í Simbabve með afgerandi hætti,” sagði Emma og bætti við „og saman höfum við náð árangri. En betur má ef duga skal og okkar vantar fjármagn til að miða enn betur í baráttunni við faraldurinn.”