Ómetanlegt starf fer fram á kólerumiðstöðvum Rauða krossins í Simbabve

27. jan. 2009

Hjúkrunarfræðingarnir Hildur Magnúsdóttir og Maríanna Csillaq vinna sem sendifulltrúar Rauða krossins í Simbabve þar sem þær taka þátt í neyðaraðgerðum Rauða krossins vegna kólerufaraldurs í landinu. Þær starfa með neyðarteymum norska og finnska Rauða krossins og er hlutverk þeirra að greina kólerutilfelli og vinna að forvörnum með þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og sjálfboðaliða Rauða krossins í Simbabve.

Þann 11. janúar var opnuð kólerumiðstöð í tveimur tjöldum í borginni Mandawa í miðhluta landsins. Stöðin er rekin af yfirvöldum í Simbabve en Rauði krossinn útvegar þeim sjúkragögn. Hildur Magnúsdóttir er ein sendifulltrúa sem fara í viku hverri og athuga með birgðastöðu og hvernig gengur. Að hennar sögn komu 230 sjúklingar á stöðina fyrstu vikuna og aðeins einn þeirra lést. 

Dauðsföllum í héraðinu hefur stórfækkað síðan stöðin opnaði því hluti af starfseminni byggist á fræðslu. Rauði krossinn lætur sjálfboðaliðum í té fræðsluefni og fara þeir um héraðið og fræða íbúana um hreinlæti og mikilvægi þess að drekka salt - sykurlausn strax og þeir fá einkenni kóleru. Helsta ástæða dauðsfalla af völdum kóleru er ofþornun og er því

Kólerumiðstöð í tveimur tjöldum var opnuð í borginni Mandawa nú í janúar.

aðalmeðferðin fyrir langflesta að drekka salt – sykurlausn og passa að smita ekki aðra með því að gæta fyllsta hreinlætis og nota eingöngu ómengað eða soðið vatn til neyslu. Fræðslan skilar sér mjög vel.

Tæplega 50.000 manns hafa smitast af kóleru undanfarna tvo mánuði, og um 3.000 manns látist af hennar völdum. Neyðarteymi Rauða krossins frá Japan, Finnlandi, Þýskalandi og Bretlandi hafa sett upp sambærilegar stöðvar á fleiri stöðum í landinu til að stemma stigu við frekari útbreiðslu kólerunnar.