Kólerufaraldurinn blossar upp meðan neyðarsjóðir þverra -Hildur Magnúsdóttir er hreykin af því að vera hjúkrunarfræðingur í Simbabve

13. feb. 2009

Kóleran í Simbabve er hvergi nærri á undanhaldi. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar nú að yfir 100.000 manns muni veikjast áður en að tilfellum fari að fækka og að kóleran muni geysa að minnsta kosti í þrjá mánuði í viðbót. Það er vegna regntímans og slæmrar salernis- og vatnsaðstöðu. Hildur Magnúsdóttir vinnur með neyðarteymi norska Rauða krossins á svæðinu.

„Hér er mikill viðbúnaður alþjóðasamfélagsins og eru t.d. enn hér sjö Rauða kross landsfélög með neyðarteymi vegna kólerunnar. Nú hafa 60.000 manns veikst og um 4.000 dáið. Við vorum að skoða og greina tölur frá þeim kólerumiðstöðvum sem við (norski Rauði krossinn) höfum sett upp og er ljóst að aðgerðir okkar hafa skilað miklum árangri í að fækka dauðsföllum á svæðinu sem okkur var úthlutað, en það heitir Midland og er í miðju landi.

Fyrsta námskeiðið í viðbrögðum og meðferð við kóleru fyrir hjúkrunarfræðinga var haldið fyrir stuttu. Leiðbeinendur eru sendifulltrúar sem eru menntaðir hjúkrunarfræðingar og yfirmenn norska Rauða krossins. Fyrirhugað er að halda sex námskeið í viðbót.

Ég var að koma úr ferð um norðurhluta héraðsins Gokwe sem ég starfa í. Það er afskekkt sveitahérað þar sem fólk drekkur vatn úr óhreinum ám eða regnvatn úr jörðu. Margir hafa þó aðgang að hreinu vatni en þurfa langt að sækja það í sumum tilfellum. Aðeins um 5% fólks í héraðinu hefur salerni. Þessi slæmi aðbúnaður er bæði vegna þess hve allir innviðir hafa veikst síðastliðin ár en líka sökum fáfræði. Við heimsóttum fimm stöðvar sem studdar hafa verið af Rauða krossinum. Á sumum þeirra hefur tilfellum fækkað en öðrum ekki. Ein heilsugæslustöð var að fá 20 manns til sín á einu bretti. Fólkið lá aðframkomið á gólfinu er við komum. Við veittum aðstoð og komum upplýsingum um þetta bága ástand til yfirvalda.

Aðalmálið er þó að dauðsföllum hefur snarfækkað eftir að við hófum stuðninginn. Aðgengi fólks að réttri og hraðri meðferð, þá helst að salt- sykurduftblöndu sem leyst er upp í hreinu vatni, er fyrst og fremst að þakka. Fólk deyr einfaldlega úr þurrki svo mikill er niðurgangurinn og uppköstin.

Aðeins þeir sem eru mjög aðframkomnir þegar þeir komast á meðferðarstöð þurfa að fá vökva í æð og ef til vill sýklalyf, en það eru aðeins um 20% þeirra sem veikjast. Áfram verður haldið að dreifa salt-sykur blöndunni og kenna hjúkrunarfólki rétta meðhöndlun. Breski Rauði krossinn vinnur á sama svæði að því að upplýsa almenning um hvernig fólk getur forðast smit. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur gott starf án þess að þiggja laun.

Ég er hreykin af því að vera hjúkrunarfræðingur því það eru þeir sem standa vaktina á þessum afskekktu svæðum dag og nótt, launalausir í algjöru aðstöðuleysi og setja sjálfa sig í hættu. Það er leitt hve lítið fé fæst til aðstoðar í Simbabve því það er virkilega þörf fyrir stuðning í þessu landi þar sem innviðir hafa hrunið, skortur er á mat og atvinnuleysi er 95%.“

Rauði krossinn reisir tjaldsjúkrahús

Maríanna Csillag með samstarfsmönnum sínum við að reisa tjaldsjúkrahús.

Maríanna Csillag vinnur með teymi frá finnska Rauða krossinum í austanverðu landinu við landamæri Mósambík. Ástandið þar er einnig mjög slæmt og kólerutilfellum fjölgar. Skólar hafa hingað til verið notaðir til meðhöndlunar á kólerutilfellum. „Nú hafa yfirvöld ákveðið að fá skólana aftur, þó svo enga kennara sé að fá, þannig að allt var sett í gang við að reisa tjaldsjúkrahús á hinum ýmsu stöðum. Ég er orðin mikill sérfræðingur í tjaldsjúkrahúsum,” segir Maríanna.

Versta ástandið er í þeim þorpum sem staðsett eru nálægt ám og fljótum því þorpsbúar ná í vatn þangað. Árnar eru allar mengaðar. Vatnsbólin sem fyrir voru eru annað hvort tóm eða dælurnar virka ekki, það er skortur á eldsneyti til að keyra pumpurnar eða þær eru ónýtar.

„Það er skelfilegt að almenningur hefur ekki aðgang að hreinu vatni og flest salernin eru full. Þá er einnig skortur á salernispappír og fólk notar lauf eða eitthvað annað og vatnið er mengað og afleiðingin er skelfileg. Við þetta bætist svo matarskortur og það er áætlað að um 50% af íbúum landsins líði skort,” segir Maríanna.