Rauði krossinn hjálpar nauðstöddum börnum í Mósambík

IRIN fréttastofuna

6. apr. 2009

Þegar Sergio Macuculi var lítill drengur bjó fjölskylda hans við sárustu örbirgð. Foreldrar hans áttu hvorki fyrir skólagjöldum eða mat handa fjórum sonum sínum. Loks ákvað móðir Sergios að fara með hann á Centro de Boa Esperanca, athvarf fyrir nauðstödd börn sem rekið er í samstarfi við Rauða krossinn í Mósambík.

Sergio var sex ára gamall þegar móðir hans kom með hann í athvarfið. Í dag, þrettán árum síðar er þessi hávaxni og hrausti ungi maður ákaflega ánægður að hún skyldi hafa tekið þessa ákvörðun.

„Fjölskylda mín átti við mikla erfiðleika að stríða þegar ég kom hingað fyrst og Centro de Boa Esperanca breytti lífi mínu sannarlega til hins betra. Hér hef ég lært að velja hið góða fram yfir hið illa og gera mér bjartar framtíðarvonir “, sagði Macuculi brosandi.

Rauði krossinn í Mósambík hefur rekið þetta athvarf í útjaðri höfuðborgarinnar Mapútó frá árinu 1990. Um það bil 100 börn á bilinu 7-19 ára fá þar að borða og þvo sér. Eins fá þau bæði skólavörur og skólabúninga. Athvarfið hefur einnig milligöngu um að börnin geti fengið ókeypis læknisþjónustu.

Lögð er áhersla á að starfið sé eðlilegur hluti af fjölskyldumynstri barnanna, hvort sem þau búa hjá foreldrum sínum eða fósturfjölskyldum. Aðeins börn sem eru heimilislaus eða búa við mjög slæmar heimilisaðstæður fá leyfi til að dveljast á Centro de Boa Esperanca á nóttunni. Á daginn ganga börnin í sinn hverfisskóla en utan skólatíma koma þau í athvarfið til að læra handverk og listir af ýmsu tagi.

Nauðstödd börn fá tækifæri
„Eftir að ég kom til Centro de Boa Esperanca fékk ég að byrja í skóla. Hér í athvarfinu hef ég svo lært smíðar og ýmis önnur handverk og listir. Nú er ég kominn í 10. bekk og ætla að fara í tækniskóla þegar ég útskrifast.“ segir Macuculi.

Draumur hans um að verða vélaverkfræðingur gæti hæglega átt eftir að rætast. Boa Esperanca heimilið hefur hjálpað miklum fjölda barna að þroska með sér þekkingu og hæfileika sem tryggja þeim farsæla framtíð. „Fjögur ungmenni sem voru hjá okkur frá því þau voru lítil börn eru í dag orðin kennarar við tækniskóla. Tvö önnur hafa lokið háskólaprófi á sviði vatnsöflunar og landbúnaðar,“ sagði Orlando Carupiea, upplýsingafulltrúi Rauða krossins í Mósambík.

Starfið hófst í borgarastríðinu
„Boa Esperanca heimilið var upphaflega stofnað til að hjálpa börnum sem höfðu misst foreldra sína í stríðinu. Á þeim árum söfnuðust stórir hópar munaðarlausra barna saman í höfuðborginni,“ sagði Maria Jose forstöðukona heimilisins.

Borgarastríðið í Mósambík varð milljón manns að bana og jafnmargir þurftu að flýja heimili sín áður en saminn var friður árið 1992. Mörg barnanna sem komu til Mapúto voru á flótta undan bardögunum og höfðu týnt foreldrum sínum.

„Vaxandi fjöldi munaðarlausra af völdum alnæmis er okkur mikið áhyggjuefni og við leitum sífellt leiða til að hjálpa þeim“
„Þó að friður kæmist aftur á í landinu bötnuðu kjör götubarna lítið“, sagði Jose. „Fátækt og alnæmi hafa mjög slæm áhrif á hefðbundið fjölskyldumynstur og hundruð þúsunda mósambískra barna þurfa að þola sárustu neyð af þeim sökum.“

Samkvæmt Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNAIDS), jókst hlutfall alnæmissmitaðra á meðal fullorðinna í Mósambík úr 8,2% í 16,2% frá 1998 til 2004. Hlutfallið er enn hærra á þéttbýlisstöðum á borð við Mapútó. Alls eru í landinu rúmlega ein og hálf milljón munaðarlausra barna, þar af hafa um 380.000 misst foreldra sína vegna alnæmis. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) gerir ráð fyrir því að hundruð þúsunda barna muni missa foreldra sína af völdum alnæmis á næstu árum.

Fjárhagslegur stuðningur frá Rauða krossi Íslands
Jose áætlar að hér um bil 2000 börn hafi farið um Centro de Boa Esperanca frá því að það var stofnað, en sífellt erfiðara verður að útvega mat og hún hefur áhyggjur af því að börnin fá ekki nóg að borða í athvarfinu.

„Þau þurfa að fá morgunmat, hádegismat og góðan síðdegisverð. Börnin hætta að koma í athvarfið ef við gefum þeim ekki nógan mat og það dregur úr möguleikum okkar til að hafa áhrif á þau. Með því að fá þau hingað sjáum við til þess að þau fái menntun og læri að bjarga sér í samfélaginu.“

Carupiea býst við því að fljótlega takist að auka tekjur Boa Esperanca. „Þökk sé fjárhagslegum stuðningi frá Rauða krossi Íslands hafa farið fram miklar viðgerðir og endurbætur á húsnæði athvarfsins. Þegar byggingin verður tekin í notkun á nýjan leik munu tekjurnar aukast talsvert þannig að vonandi verður hægt að kaupa nægan mat fyrir börnin.“