Ítalski Rauði krossinn vinnur sleitulaust að rústabjörgun og neyðaraðstoð vegna jarðskjálftans

7. apr. 2009

Klukkan 3:30 þann 6. apríl varð öflugur jarðskjálfti í borginni L'Aquila í miðhluta Ítalíu, 120 km norðaustan við Róm. Skjálftinn mældist 6,3 stig á Richter samkvæmt upplýsingum frá ítalska Rauða krossinum. Tala látinna er komin yfir 200 og 1500 eru slasaðir í L'Aquila og nálægum þorpum. 70 manns hafa enn ekki fundist. Þessar tölur gætu enn átt eftir að hækka. Tugir þúsunda hafa misst heimili sín, en í borginni búa alls um 70.000 manns.

Björgunarsveitir frá ítalska Rauða krossinum voru komnar til L'Aquila innan klukkustundar frá því að jarðskjálftinn reið yfir. Leitað var í rústum alla nóttina með ljóskösturum og sífellt kemur meira hjálparlið og búnaður á jarðskjálftasvæðið. Þeir sem misst hafa heimili sín fá teppi, mat og önnur nauðsynleg hjálpargögn.

Ítalski Rauði krossinn hefur sett upp neyðarsjúkrahús til að létta undir með heilbrigðisstofnunum á svæðinu, en þær eru undir miklu álagi vegna hins mikla fjölda slasaðara. Ítalski Rauði krossinn hefur einnig sett upp eldhús sem geta framleitt 10.000 máltíðir á dag. 16 starfsmenn frá ítalska Rauða krossinum ásamt 30 sjálfboðaliðum stjórna þessum eldhúsum. Auk þess hafa verið sett upp tvö súpueldhús fyrir 200-400 manns til að bregðast við þörfum sjúkrahússins í L'Aquila meðan verið er að flytja sjúklinga þaðan.

Formaður og framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands sendu í dag stuðnings- og samúðarkveðjur til ítalska Rauða krossins vegna jarðsskjálftans.

Þeir sem misst hafa heimili sín þurfa að fá tafarlausa aðstoð
36 sjúkrabílar frá Ítalska Rauða krossinum taka þátt í flutningi særðra frá L'Aquila á sjúkrahúsin í Tagliacozzo, Pescina og Avezzano. Eins hefur Rauði krossinn flutt börn af heimili fyrir munaðarlaus börn í San Gregorio og mun tryggja að þau fái mat og húsaskjól. Að auki veita fimm teymi frá ítalska Rauða krossinum nú sálrænan stuðning á jarðskjálftasvæðinu. Landsfélagið hefur einnig á að skipa 30 hjálparsveitarteymum með leitarhunda auk dýralæknateyma og fleira hjálparstarfsfólks á sviði sálræns stuðnings
.
Talið er að allt að 10.000 byggingar í borginni séu alvarlega skemmdar ef ekki ónýtar. Ítalski Rauði krossinn sér fram á vaxandi erfiðleika við að finna heimilislausu fólki húsaskjól, hlý föt og mat. „Þegar búið er að sjá til þess að sjúkrahús á svæðinu anni þörfum hinna slösuðu þarf að leggja sérstaka áherslu á að finna húsaskjól fyrir þær þúsundir fjölskyldna sem misst hafa heimili sín af völdum jarðskjálftans,“ segir Tommasso Della Longa, sem hefur yfirumsjón með samskiptum ítalska Rauða krossins á hamfarasvæðinu.

Fórnarlömb jarðskjálftans þurfa á mikilli aðstoð að halda og ítalski Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni innanlands vegna hjálparstarfsins. Söfnun til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans fer fram á vefsíðu ítalska Rauða krossins.

Alþjóða Rauði krossinn styður starf landsfélagsins
Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú með ítalska Rauða krossinum að því að meta hvernig best sé að styðja hjálparstarfið.

Alþjóða Rauði krossinn ásamt landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafa áður lagt ítalska Rauða krossinum lið vegna mannskæðra jarðskjálfta. Árið 1980 misstu um 3.000 manns lífið eftir að banvænn jarðskjálfti varð í grennd við Napólí. Árið 1992 varð jarðskjálfti í Umbríu 13 manns að bana og eyðilagði gríðarmikil menningarleg verðmæti. Síðast árið 2002 varð jarðskjálfti 30 manns að bana í bænum San Giuliano di Puglia í suðurhluta Ítalíu. Meðal fórnarlamba voru 27 skólabörn og kennari þeirra.