Í lífshættu við líknarstörf

Kristínu Gunnarsdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

27. apr. 2003

Sunnudaginn 27. apríl, 2003 – Morgunblaðið

Allt frá stofnun hefur Rauði krossinn sinnt kalli um aðstoð við íbúa á átakasvæðum og í þeim löndum, sem orðið hafa fyrir náttúruhamförum. Þorkell Diegó Þorkelsson segir Kristínu Gunnarsdóttur frá reynslu sinni af að starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn.

TILVILJUN réð því að Þorkell Diego Þorkelsson réðist til hjálparstarfa á vegum íslenska Rauða krossins árið 1991 og seinna til Alþjóða Rauða krossins. Hann var fyrst sendur til gömlu Júgóslavíu og seinna til Afríku, Afganistan, Asíu og loks Júgóslavíu á ný, þar sem hann starfaði fram á síðastliðið haust. Þá stóð honum til boða að taka við stöðu dreifingar- og innkaupastjóra fyrir Alþjóða Rauða krossinn á svæði sem nær frá landamærum Afganistan og yfir löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf til Alsír með aðsetur í Amman í Jórdaníu. En þá fékk hann alvarlegt flogakast og lamaðist um tíma þegar æxli við heilann, sem hann greindist fyrst með fyrir rúmum fimm árum, gerði vart við sig á ný.

Fór sem vörubílstjóri
Þorkell flutti ungur að heiman og bjó lengi á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann vann fyrst við fiskvinnslu og seinna rak hann verslun og bensínafgreiðslu og sinnti auk þess ýmsum félagsstörfum og starfaði meðal annars með Rauða krossinum fyrir vestan. Þorkell þekkti því til Rauða krossins og hafði lengi látið sig dreyma um að taka þátt í hjálparstarfi erlendis. Nokkrum árum síðar flutti hann til Reykjavíkur á ný og þar kom að honum bauðst að fara til Júgóslavíu sem vöruflutningabílstjóri í þrjá mánuði á vegum Rauða krossins. Þrátt fyrir meirapróf hafði hann aldrei ekið flutningabíl en einstaka sinnum hreyft til olíubíla þann tíma sem hann bjó á Suðureyri. Þorkell vildi ekki missa af þessu þriggja mánaða ævintýri og til þess að æfa sig fór hann eina ferð með flutningabíl sem kunningjar hans voru með í ferðum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. „Það var því ekki laust við að hrollur væri í mér þegar ég lagði í hann en ég lét slag standa," segir Þorkell.

Sambandslýðveldi Júgóslavíu var að liðast í sundur og Króatar og Slóvenar höfðu ákveðið að segja skilið við Serbíu og stofna sjálfstæð lýðveldi, þrátt fyrir andstöðu Serba. Bosníumenn fylgdu á eftir snemma árs 1992.

Serbar í Króatíu höfðu með hervaldi tekið þriðjung lands í Króatíu og voru við þröskuld stórra bæja eins og Karlovac og Siska í austri og Dubrovnik, Sibenika og Zadar í vestri. Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna var komið til Króatíu auk þess sem verið var að efla friðargæsluliðið í Bosníu.

Brauð fyrir fanga
Fyrsta verkefni Þorkels var að aka stórum flutningabíl með tengivagni fullum af brauði frá Zagreb í Króatíu til Manjaca-fangabúðanna skammt frá Banja Luka.

Bosníustríðið var að ná hámarki milli Serba annars vegar og múslíma og Króata hins vegar með hræðilegum afleiðingum. Þorkell sagði að oft hefði verið erfitt að komast með hjálpargögn um átakasvæðin. Ferð sem að öllu jöfnu tók þrjár til fjórar klukkustundir milli Zagreb og Banja Luka gat tekið upp undir sex klukkustundir vegna tafa við landamæri og varðstöðvar. Fyrir kom að bílalestir voru stöðvaðar vegna árása á nálæg þorp og einstaka sinnum var ráðist á lestarnar sjálfar en það var þó sjaldan.

Þegar ráðningartíma Þorkels lauk var honum boðið starf leiðangursstjóra flutningabíla Alþjóða Rauða krossins inn á ófriðarsvæðin með aðsetur í bænum Vojnic í Kraínahéraði í Króatíu. Hann sá um að fylgja bílalestunum frá Zagreb, höfuðborg Króatíu, til Knin og annarra staða sem Serbar réðu í Króatíu. Einnig voru farnar ferðir til Bihac og Kladusa og Banja Luka í Bosníu og bjó Þorkell á ýmsum stöðum í Króatíu og Bosníu þar til í lok árs 1993. "Stundum skall hurð nærri hælum, en ég óttaðist samt ekki um líf mitt á þessum tíma," segir Þorkell en þarna var hann með stuttum hléum fram í árslok 1993. "Þannig er að meðan á árás stendur reynir maður að vinna úr því sem er fyrir hendi og fyrir kom að maður gleymdi að hugsa um afleiðingarnar en ég hafði alltaf trú á að allt færi vel og að við samstarfsfólkið kæmumst í gegnum þetta."

Líbería
Í byrjun árs 1994 hélt Þorkell til Íslands en var fljótlega beðinn um að fara til Líberíu á vegum Alþjóða Rauða krossins. Líbería er á vesturströnd Afríku milli Sierra Leone og Fílabeinsstrandarinnar og er elsta ríki Afríku, stofnað árið 1847 þegar Bandaríkjastjórn keypti landið fyrir bandaríska leysingja.

Þegar Þorkell kom til Líberíu hafði borgarastríð staðið í fimm ár og því lauk ekki fyrr en árið 1997 með sigri uppreisnarforingjans, Georges Taylors, sem nú er forseti landsins.

Ekki að selja sokkabuxur
Þorkell flaug með rússneskri flugvél frá Abijan á Fílabeinsströndinni til höfuðborgarinnar Monróvíu.

„Þetta var einhver skrautlegasta flugferð, sem ég hef farið,” segir hann. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en við vorum komnir á loft að ég var eini hvíti maðurinn um borð með frekar sérkennilegum „karakterum”. Þeir voru ábyggilega ekki að selja neinar sokkabuxur. Það var eitthvað annað sem þeir voru að versla með. Áður en við lögðum af stað kom flugmaðurinn og færði mér „sveitta” samloku og volgt gos og þegar hann hallað sér yfir mig lagði af honum megna áfengislykt, sem mikið hvítlauksát náði ekki einu sinni að deyfa. Ég hélt að hann væri eini flugmaðurinn um borð og fannst það slæmt en þegar við vorum lentir sá ég að það höfðu tveir drukknir flugmenn verið við stjórn. Þar leiddi haltur blindan en þeir flugu eins og englar blessaðir og lendingin var mjúk. Ég flaug seinna með Rússum í öðrum heimsálfum, bæði í þyrlum og flugvélum og ég held að þeir séu alltaf undir áhrifum.”

Komst aldrei til Gbanga
Rauði krossinn var með skrifstofu í höfuðborginni Monróvíu og aðra í Gbanga í austurhluta landsins. Þar var annar Íslendingur, Helga Þórólfsdóttir hjúkrunarfræðingur, og þangað var för Þorkels heitið en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náði hann aldrei þangað. Uppreisnarmenn réðust á Gbanga og lögðu allt í rúst. Starfsmenn Rauða krossins sluppu sem betur fer allir lifandi en á hlaupum milli húsa, þar sem skotið var á allt sem hreyfðist og komust loks við illan leik til Monróvíu.

Í beinni skotlínu

Samtímis árásinni á Gbanga var gerð tilraun til stjórnarbyltingar í höfuðborginni. Uppreisnarmenn réðust á forsetahöllina og svo illa vildi til að Þorkell ásamt fleiri starfsmönnum lenti í beinni skotlínu að höllinni frá sjó. Þar var kominn Vestur-Afríkuherinn, að mestur skipaður hermönnum frá Nígeríu, en honum var ætlað að sjá um friðargæslu í landinu. Með fulltingi herskipa frá Nígeríu skutu þeir í átt að höllinni og uppreisnarmönnunum, sem þar voru. „Þetta eru ekki nýjustu og fullkomnustu herskipin sem til eru eða vopn sem þeir eru með þessir fuglar,” segir Þorkell.

Sprengjurnar lentu í fæstum tilfellum, þar sem þeim var ætlað að lenda og nokkuð var um mannfall óbreyttra borgara og aðrir slösuðust.

„Sprengjur og sprengjubrot lentu allt í kringum okkur og mér var svona frekar órótt, ég verð að segja það eins og er,” segir hann. „Maður hafði enga trú á að þessir hermenn gætu hitt í mark. Uppreisnarmenn og hermenn voru þvílíkir tindátar að hægt hefði verið að hafa gaman af við aðrar og hættuminni aðstæður. Uppreisnarmennirnir voru ekki allir háir í lofti og sumir þeirra kölluðu sig ýmsum sérkennilegum og skemmtilegum nöfnum til að auka á virðingu sína. Þarna var auðvitað Lautinant Rambó og nokkrir sem kölluðu sig Stallón, og einn hét General Salt and Pepper og annar General Bad-bad-thing. Ætli hann hafi ekki verið 16-17 ára sá, með eitt gler í brotnum sólgleraugum og hríðskotabyssu um öxl.”

Þorkell segir að fólk nái yfirleitt ekki háum aldri á þessum slóðum bæði vegna ófriðar og sjúkdóma. Læknisþjónusta er stopul og nánast engin lyf að hafa. Algengt er að börnum sé rænt úr þorpum og þau alin upp og þjálfuð til ódæðisverka, jafnvel gegn sínum nánustu. „Í mörgum tilfellum eru börnin undir áhrifum eiturlyfja og hvernig á að bregðast við slíkum aðstæðum? Eru þetta vondar manneskjur eða býr annað að baki. Ég tel að þeir sem stjórna unglingunum séu óprúttnir fjármálaspekúlantar, sem sækjast eftir yfirráðum yfir náttúruauðlindunum og pólitískum völdum,” segir Þorkell.

Leið illa
„Þetta var óþverraland og hver höndin upp á móti annarri,” segir hann. „Þeir höfðu drepið forseta sinn með tilþrifum og ekið honum um í hjólbörum eftir svívirðilegar aðfarir og hluta ríkisstjórnarinnar höfðu þeir tekið af lífi á ströndinni. Það var ansi mikil lífsreynsla að vera þarna. Mér leið illa og ekki bætti moskítóflugan líðanina með malaríu og öllu því sem henni fylgir. Ég held svei mér þá að flugan sé ræktuð þarna.”

Eftir árásina í Gbanga var ljóst að ekkert vit var í að skipuleggja hjálparstarfið á ný. Öllum hjálpargögnum hafði verið stolið, 15 nýjum vörubílum og 7 jeppum og var ákveðið að fækka starfsmönnum Alþjóða Rauða krossins í Líberíu um tíma.

Þjóðarmorðin í Rúanda

Þorkell veiktist af malaríu í Líberíu og var enn veikur af henni að talið var þegar hann fór þaðan til Genfar. Hann náði sér fljótlega og var þá beðinn um að fara til Rúanda í Afríku haustið 1994. Tveir þjóðflokkar búa í Rúanda, Hútúar og Tútsar. Hútúar eru fjölmennastir eða um 85% þjóðarinnar en Tútsar, sem töldust til yfirstéttar áður fyrr, eru um 15%. Árið 1959 gerðu Hútúar uppreisn og steyptu ríkjandi konungi landsins af stóli og í kjölfarið hófust fjöldamorð á Tútsum. Um 120 þúsund Tútsar flúðu þá land og síðan hefur hvað eftir annað komið til átaka milli þjóðflokkanna í Rúanda. Oftast voru það Hútúar sem myrtu hina hötuðu yfirstétt Tútsa. Landið hlaut sjálfstæði árið 1962 og héldu Hútúar völdum fram til 1973 þegar herinn tók völdin undir forustu Habiyarimana, sem var Hútúi. Hann hélt velli þar til flugvél hans var skotin niður í byrjun árs 1994 og var Tútsum í fyrstu kennt um. Í júní sama ár hófust þjóðarmorð Hútúa á Tútsum og er talið að um 800.000 Tútsar, börn og fullorðnir, hafi verið teknir af lífi í þeim mánuði einum.

„Það var mikið búið að ganga á þegar ég kom til höfuðborgarinnar Kígalí haustið 1994,” segir Þorkell. „Ástandið var mjög slæmt. Töluvert var um hryðju- og hefndarverk og búið að drepa um milljón manns bæði Tútsa og Hútúa.”

Þorkell segir það hafa verið skelfilegt að koma á þá staði, þar sem fjöldamorð höfðu verið framin á Tútsum og það jafnvel í kirkjum. Tútsar eru flestir kaþólskrar trúar og höfðu flúið þangað, þar sem þeim var hreinlega slátrað. "Það var ósjaldan að maður táraðist þegar við komum á slíka staði," segir Þorkell.

Sterk viðbrögð
Meðal verkefna Þorkels var að taka manntal á nokkrum strjálbýlum svæðum. Hann stýrði hundrað manna flokki, sem gekk hús úr húsi og skráði íbúana. Húsin stóðu sum hver ein og stök og oft þorðu íbúarnir ekki að gera vart við sig. Fyrir kom að þeir földu sig eða að komið var að fólki sem hafði verið myrt. "Það gat hafa gerst fyrir nokkru eða jafnvel nýlega," segir Þorkell. "Þetta var hræðilegt. Í flokknum sem ég stjórnaði voru um hundrað manns og voru flestir Tútsar. Meðalaldur þeirra var um tvítugt og hafði margt af þessu unga fólki misst alla fjölskylduna. Það voru því sterk viðbrögð hjá þeim þegar komið var að húsum, þar sem fyrir var fólk sem fallið hafði fyrir óaldarflokkum. Ein stúlknanna, Tútsi, sagði mér að hún hefði átt heima í bæ skammt frá Kígalí. Fjölskyldan, sem faldi hana og hennar fólk þegar þjóðarmorðin fóru fram, voru reyndar Hútúar en þegar gengið var hús úr húsi í leit að Tútsum þá földu þau hana og yngri systur hennar undir rúmi. Hún sagðist hafa verið svo hrædd um að hljóð heyrðist frá systurinni að hún greip fast um munninn á henni. Svo fast að systirin var með fingraför á kinnunum þegar hún sleppti takinu."

Ólýsanleg tilfinning
Þorkell var í Rúanda fram í apríl 1995 og segist hann hafa lært þar mikið um Rauða krossinn og hvernig hann starfaði. "Þá fór mér að falla verulega vel við hjálparstarfið," segir hann. "Við erum töluvert vernduð án þess að verið sé að hlífa okkur. Á endanum eru þeir hörðustu eftir en hinir gefast upp. Það er ekki hægt að lýsa hvernig tilfinning það er að hjálpa fólki sem hefur lent í hungursneyð. Þarna var fólk sem ekkert átti, ekkert húsnæði eða akra, ekkert að borða og ekkert vatn, ekkert. Ef hægt var að ná í vatn þá var það í mörgum tilfellum fúlt, mengað eða eitrað. Það er ólýsanlegt að sjá hvað fólk var ánægt þegar það fékk loks mat."

Ný ríkisstjórn var mynduð um haustið og til að lægja öldurnar og fá Hútúa sem flúið höfðu land til að snúa heim á ný var sæst á að forsetinn yrði Hútúi en forsætisráðherrann Tútsi. Samt sem áður veigruðu Hútúar sér í fyrstu við að snúa til baka af ótta við hefndir Tútsa og að verða ákærðir fyrir þátttöku í þjóðarmorðinu.

Fengu sinn dóm
Þorkell segir að oft hafi verið erfitt að átta sig á muninum á Hútúum og Tútsum. "Eitt sinn þegar við vorum að dreifa matvælum þá varð mikið uppistand í hópnum, sem taldi milli 5.000 og 6.000 manns," segir hann. "Einn af aðstoðarmönnum mínum kom til mín og sagði að fleiri en einn kannaðist við tvo af starfsmönnum mínum sem menn er höfðu komið ásamt öðrum í þorp skammt frá og drepið fjölda manns. Verra var að annar þeirra var túlkurinn minn og hugsaðu þér kaldhæðnina, hann hét Innocent eða Sakleysi."

Þorkell segist hafa orðið var við að hermenn umkringdu svæðið og við það jókst óróleiki meðal fólksins. Eftir að hafa rætt við liðsforingjann náðist samkomulag um að mennirnir tveir fengju að fara með Þorkeli gegn því að þeir lofuðu að strjúka ekki um nóttina. Innocent stóð við loforðið en hinn ekki en hann náðist seinna og báðir fengu sinn dóm.

Úr sama frændgarði

Eftir þetta atvik segist Þorkell hafa aflað sér upplýsinga um sína undirmenn og kom í ljós að einir fimm starfsmannanna, aðallega aðstoðarmenn hans, voru úr frændgarði Innocent og höfðu þeir umsjón með og sáu um dreifingu á matvælunum. "Þetta var ekki nógu gott. Innocent hafði verið í skjóli okkar í vinnunni. Það hlýddu honum allir og allir voru hræddir við hann," segir Þorkell. "Ég var reyndar búinn að átta mig á þessu en af því að hann var Hútúi, þá sá ég í gegnum fingur við hann eftir að ég frétti að hann hafði flúið til Rauða krossins meðan á blóðbaðinu stóð."

Þorkell segist einnig nokkrum sinnum hafa orðið var við að matvæli hurfu og fyrir kom að reynt var að stela mjöli og korni, jafnvel heilu sekkjunum. "Stundum kom til uppþota og við urðum að forða okkur," segir Þorkell. "Reyndar hafði því verið hvíslað að mér að einhver úr hópi starfsmanna tæki þátt í stuldinum og ég var búinn að reka eina tvo eða þrjá sem ég hafði séð til. Við vorum ekkert að súta það þó eitthvað meira færi af matvælunum en starfsmenn máttu ekki mismuna fólkinu."

Hann segist hafa farið að fylgjast betur með dreifingunni og sitja um vöruhúsið snemma á morgnana. „Þá fóru ýmsir hlutir að gerast og margir voru á ferðinni,” segir hann. „Á morgnana fóru vörubílar frá okkur um borgina og náðu í aðstoðarmennina. Þegar ég ók á eftir bílnum sá ég að pokar duttu við og við aftan af pallinum og einhverjar skuggaverur komu og hirtu þá. Yfirmaður minn sagði að ég yrði sjálfur að ráða fram úr þessu. Eftir nokkra umhugsun mundi ég eftir manninum, sem ekki gat leyst hnútinn og hjó á hann í staðinn. Ég rak því allann hópinn á einu bretti. Þetta hafði töluverð áhrif. Það fór að berast út að hann væri kannski ekki alveg eins linur og hann leit út fyrir þessi víkingur. Eftir þetta réð ég sjálfur til mín mannskap og þá gekk allt mun betur.”

Þorkell segist skilja að á ófriðartímum reyni menn að bjarga sér og sínum. „Ég hugsaði stundum til þess hvernig ég myndi haga mér við svipaðar aðstæður,” segir hann. „Þetta er auðvitað sjálfsbjargarviðleitni en okkur starfsmönnum Rauða krossins er trúað fyrir miklu fjármunum, sem við verðum að standa skil á.”

Yfirfull fangelsi
Þorkell segir að auk matvæladreifingar hafi Rauði krossinn séð fangelsum í landinu fyrir mat. Ný ríkisstjórn Rúanda fyllti fljótlega fangelsin af fólki á öllum aldri og voru jafnvel börn fangelsuð og sögð hafa tekið þátt í þjóðarmorðunum. Nefnir hann sem dæmi að aðalfangelsið í Kígalí taki um 300 fanga en þar voru 1.500 fangar. Enn verra hafi ástandið verið í fangelsinu í Gítarama. Þar gat einungis þriðjungur fanganna sofið samtímis, hinir urðu að standa. „Við urðum að skipuleggja matargjafirnar vel," segir Þorkell. „Hvernig og hvenær sólarhringsins hver hópur ætti að elda og var eldað í stórum tunnum því engir voru pottarnir. Ef Rauði krossinn hefði ekki gefið föngunum að borða hefðu þeir dáið hungurdauða til mikillar ánægju fyrir stjórnvöld, sem fannst alger óþarfi að halda lífi í þessum „morðingjum". Við urðum því oft fyrir aðkasti þegar við vorum að dreifa matnum og urðum að vera ansi hörð á því hverjir fengju mat og hverjir ekki."

Vinur minn síðan

Þorkell segist einu sinni hafa lent í því að vísa frá héraðshöfðingja, sem vildi fara að stjórna þegar verið var að dreifa mat utan við borgina. "Aðstoðarmenn mínir urðu mjög hræddir eftir að ég skipaði honum að fara og vildu hverfa frá og hætta dreifingunni," segir Þorkell. "Ég féllst á það og sagðist gefa þeim merki um að koma sér í bílana og í burtu þegar að því kæmi að fara. Ég var auðvitað síðastur með hóp af aðstoðarmönnum og þarna var kominn hópur á vegum höfðingjans í kringum okkur, sem voru hreint ekki skemmtilegir að fást við. Einn aðstoðarmannanna varaði mig við manni, sem þokaðist í átt til mín í gengum þröngina. Maðurinn reyndist vera hermaður í borgaralegum klæðum. Hann stökk að mér með hníf á lofti en einn aðstoðarmanna minna, ungur drengur, tók lagið með því að stökkva til. Hann særðist en okkur tókst að koma honum í bílinn og ókum á fullri ferð til Gítarama, þar sem hjúkrunarfólk tók við honum. Þetta var sem betur fer ekki mjög hættulegt sár, sem hann fékk í síðuna en hann var hugrakkur og er vinur minn síðan."

Fyrsta flogakastið

Um þremur mánuðum eftir þetta atvik var komið að starfslokum Þorkels í Rúanda. Hann ákvað að fara í langt frí til Íslands en mánuði síðar var hann beðinn um að fara á ný til Júgóslavíu.

„Ég var í Zagreb í Króatíu þegar ég fékk fyrsta slæma flogakastið og lenti á sjúkrahúsi," segir Þorkell. "Þetta var mikið áfall því er ekki að neita. Ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall og að mín síðasta stund væri upp runnin. Eftir rannsókn á sjúkrahúsinu kom í ljós að ég var hvorki með malaríu né flogaveiki heldur æxli við heilann. Þetta eru leiðindafréttir fyrir hvern sem er að fá. Ég vissi ekki hvað ég átti að taka til bragðs en ákvað að halda mig við Ísland um tíma," segir Þorkell.

Hann fór heim og eftir að hafa ráðfært sig við lækna í Genf og á Íslandi var horfið frá skurðaðgerð. Æxlið er á slæmum stað og hætta á að Þorkell geti lamast ef hreyft er við því. Ákveðið var að sjá hver framvindan yrði og eftir nokkra mánuði kom í ljós að æxlið hafði ekki breyst. Þorkell fékk lyf við flogaveiki, sem reynast honum vel og hélt á ný til starfa í Zagreb.

Fólkið brast í grát

Þetta var í lok árs 1995 og Króatar höfðu ráðist inn í Vestur-Kraína sem Serbar höfðu hertekið. Miklir bardagar stóðu yfir milli Serba og múslíma í Bosníu og serbneskar hersveitir höfðu nýlega tekið bæinn Srebrenica.

Þorkell var beðinn um að fara, sem fylgdarmaður íslenskra fréttamanna til Túsla í Bosníu, þar sem flóttamenn frá Srebrenica í Bosníu höfðu safnast saman. Meirihlutinn var konur, ungar stúlkur og nokkrir ungir drengir og nokkur börn. "Það var sláandi hvað lítið var af karlmönnum í hópnum," segir Þorkell. "Á þessum tíma var að koma í ljós að eitthvað alvarlegt hafði gerst og viðtölin, sem fréttamennirnir tóku voru átakanleg. Fólkið brast í grát þegar leið á frásögnina og skyldi engan undra."

Ótrúleg villimennska
Næsta verkefni Þorkels var sjá um skipulagningu á dreifingu hjálpargagna í austanverðri Bosníu frá bænum Bijeljina á landamærum Bosníu og Serbíu. Þar var mikið af flóttafólki, Serbum, frá Srebrenica og Serbum sem voru á flótta frá Króatíu til Júgóslavíu. Þegar þetta var höfðu Króatar ráðist inn í Suður- Kraína og stökkt Serbum á flótta. Þorkell segir að Serbar hafi í fyrstu staðið í þeirri trú að landið yrði allt sameinað í eina Serbíu eða Júgóslavíu og var það þeim mikið áfall þegar að svo fór ekki. Í Bijeljina var Rauði krossinn með vörugeymslu þaðan sem hjálpargögnum var dreift. Við það unnu þau Þorkell og Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þorkell sagði að dreifingin hefði komið í góðar þarfir í þann stóra hóp flóttamanna, sem kominn var frá Króatíu og Bosníu.

„Þar kom að við fórum til Srebrenica til að skoða hvað þar hafði gerst," segir Þorkell. „Þar blasti við mynd, sem hverfur ekki úr huganum meðan maður lifir. Þegar við komum voru þarna eingöngu serbneskir Bosníumenn. Allir múslímar höfðu verið fluttir í burt og þúsundir teknar af lífi með skipulögðum hætti eins og seinna kom í ljós. Konur voru fluttar í burtu og margir karlmenn flúðu til skógar, þar sem Serbar sátu fyrir þeim en einhverjir komust undan. Það eru til sögur af mönnum sem voru í marga mánuði á flótta."

Þorkell var í Bijeljina í nokkra mánuði eða þar til hann fór til Belgrad og tók við yfirumsjón með innkaupum og flutningum á hjálpargögnum til serbneska hluta Bosníu. Til Króatíu og Bosníu var dreift frá Zagreb í Króatíu. „Ég varð vitni að ótrúlegri villimennsku í öllum löndum gömlu Júgóslavíu. Maður hefði aldrei trúað því að óreyndu hjá jafnmenntuðum þjóðum. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég kom í Manjaca-fangabúðirnar fyrir utan Banja Luka í norðanverðri Bosníu. Þarna voru hundruð ef ekki þúsundir múslíma og Króata í fangabúðunum. Þetta var eins og að detta inn ljósmynd frá fangabúðum nasista. Þarna stóðu fangarnir við gaddavírinn á rifbeinunum einum saman. Það var rosalegt að sjá. Seinna þegar allt var um garð gengið trúðu Serbar ekki sjálfir því sem hafði gerst og spurðu, „Hvað gerðist? Tókum við þátt í þessu?"."

Aukin ábyrgð

Þorkell sá um dreifingu hjálpargagna frá Bijeljina til nágrannabæjanna þar til hann var sendur til Belgrad þar sem hann var fram á vor 1996. Þá hélt hann til Zagreb og þaðan fór hann til Sarajevo þegar honum bauðst að taka við stöðu svæðisstjóra yfir birgðahaldi og dreifingu hjálpargagna. "Þetta var spennandi starf og í fyrsta sinn sem ég tók svona mikla ábyrgð," segir hann.

Þegar hér var komið sögu var stríðinu að ljúka og alþjóðaherinn, að mestu skipaður Bandaríkjamönnum, kominn til landsins. Kosin var ríkisstjórn heimamanna en engar ákvarðanir voru teknar nema með samþykki Evrópubandalagsins.

Aftur til Afríku
Þorkell sinnti starfi svæðisstjóra þar til í lok árs 1997 þegar hann fór heim í rannsókn og myndatöku á ný. „Allt virtist vera óbreytt. Æxlið hafði ekki stækkað eða tekið breytingum þannig að ég gekkst inn á að taka að mér nýtt verkefni fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Sierra Leone á vesturströnd Afríku," segir Þorkell. „Þá var mjög gott ástand þar. Kosningar voru nýafstaðnar og nýr forseti kjörinn, sem hafði unnið hjá Sameinuðu þjóðunum á árum áður. Allt var með friði og spekt að mestu leyti og þarna eru einhverjar þær fegurstu sólbaðsstrendur sem ég hef komið á. Þetta voru náðugir dagar í fyrstu."

Nágrannaland Sierra Leone er Líbería, þar sem Þorkell hafði verið nokkrum árum áður og segir hann að sú staðreynd hefði átt að vera honum víti til varnaðar. Sierra Leone er eins og Líbería ríkt af demöntum, gulli og öðrum náttúruauðlindum, sem ýmsir hópar uppreisnarmanna börðust um yfirráð yfir.

„Þetta var sældarlíf um stund og allt gekk vel," segir Þorkell. „Alþjóða Rauði krossinn var með skrifstofu í höfuðborginni Freetown og hafði náð góðu sambandi við þá uppreisnarmenn, sem vitað var um á landsbyggðinni og gátu starfsmenn farið þar um óáreittir. Þarna var líka Hildur Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur sem sá um dreifingu hjúkrunargagna til stöðva Rauða krossins í landinu. Við vorum í þónokkuð góðum félagsskap og mikilli vinnu en Adam var ekki lengi í Paradís."

Stjórnarbylting
Snemma í maí var gerð bylting. Þorkell segist hafa verið á heimleið undir miðnætti kvöldið fyrir byltinguna og ekki orðið var við neitt óvenjulegt. Undir morgun vaknaði hann við torkennileg hljóð, lagði við hlustir og áttaði sig loks á að þetta var skothríð sem jókst stöðugt. „Síðar kom í ljós að uppreisn var innan hersins," segir Þorkell. „Hermenn brutu upp fangelsið en þar sátu inni einhverjir höfðingjar sem ákærðir voru fyrir landráð og einn þeirra Johnny Paul Koroma tók við stjórn, landsins. Nokkur stund leið þar til ljóst var hverjir stæðu með forsetanum og hverjir voru á móti. Í borginni voru einnig nígerískir hermenn úr fjölþjóðaher Vestur-Afríkuríkja að gæta forsetans og ráðhússins, sem barist var um."

Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins bjuggu allir, nema Þorkell, í talsverðri fjarlægð frá skrifstofu samtakanna. Eftir að hafa ráðið ráðum sínum um talstöð var ákveðið að Þorkell reyndi að komast á skrifstofuna og ná sambandi við höfuðstöðvarnar í Genf.

Íslenskan til bjargar
Bíllinn sem Þorkell ók á var kirfilega merktur Rauða krossinum og segist hann þá hafa treyst merkinu fullkomlega en það traust hafi dofnað síðan. Þorkell náði fljótlega sambandi við Genf og lét vita hvar starfsmenn Rauða krossins voru niður komnir. Starfsmenn annarra hjálparstofnana og erlendir ríkisborgarar höfðu flestir safnast saman á hóteli við ströndina. „Við áttum von á að reynt yrði að komast inn á skrifstofuna í leit að einhverjum verðmætum eins og síðar kom í ljós," segir Þorkell. „Ég fékk fyrirmæli um að fela alla passa og öll verðmæti en þau fyrirmæli var tæplega hægt að senda í loftið um talstöð og alls ekki á ensku. Við Hildur gripum til móðurmálsins, sem enginn annar skildi og töluðum saman á íslensku. Þannig fékk ég upplýsingar um talnaaðganginn að peningaskápnum og eins hvar allir lyklar voru geymdir. Þarna voru allir okkar peningar, flugmiðar og vegabréf sem ég varð að koma fyrir einhvers staðar með það í huga að svo gæti farið að kveikt yrði í húsinu. Það var því ekki auðvelt að finna stað, sem ekki gat brunnið og engum dytti í hug að leita á."

Fannst aldrei
Í tvo sólarhringa var Þorkell einn á skrifstofunni og í þrígang reyndu uppreisnarmenn að komast að húsinu. Í fyrstu tókst vörðunum við hliðið að telja þeim hughvarf en eftir að þeir komust inn í garðinn reyndi hann að tefja um fyrir þeim. Þegar þeir svo komust loks inn í garðinn fundu þeir ekkert fémætt og hurfu á braut. "Sumt faldi ég svo vel að ég fann það aldrei aftur," segir Þorkell og hlær við. "Ég var sennilega mun stressaðri á meðan á þessu gekk en ég gerði mér grein fyrir. Í þrjá daga gekk á með gripdeildum, nauðgunum og ofbeldi og einhverjir voru drepnir eins og alltaf gerist. Erlendir ríkisborgarar forðuðu sér eftir að ljóst varð að Johnny Paul Koroma hafði boðið uppreisnarmönnum úr norðurhéruðunum þátttöku í byltingunni. Að auki höfðu starfsmenn Sameinuðu þjóðanna verið fluttir til Gíneu. Við vorum ein eftir og hirtum alla bíla sem aðrar hjálparstofnanirnar skildu eftir en okkur gekk erfiðlega að útvega eldsneyti. Starfsmenn bandaríska sendiráðsins létu okkur fá úr sínum tönkum en starfsmenn þess breska harðneituðu að hjálpa okkur."

Uppdópaðir unglingar
Starfsmenn Rauða krossins reyndu eins fljótt og auðið var að koma hjálparstarfinu í rétt horf og fengu sendingu af hjúkrunargögnum með þyrlum frá Líberíu. „Þetta var allsvakalegt," segir Þorkell. „Fólk var hrætt og leist ekki sérlega vel á uppreisnarmennina enda ekki sjón að sjá þá. Þetta voru náttúrlega sömu „legátarnir" og ég hafði kynnst í Líberíu. Mest krakkar eða uppdópaðir unglingar sem drógu hríðskotabyssurnar á eftir sér. En það var betra að taka þá alvarlega. Það lærði maður fljótt."

Nokkrum dögum eftir að flestir útlendinganna höfðu verið fluttir úr landi braust út bardagi milli Vestur- Afríkuhersins, sem gætti hótelsins við ströndina og erlendu ríkisborgaranna sem þangað höfðu flúið, og uppreisnarmanna sem vildu fá útlendingana framselda.

Starfsmenn Rauða krossins voru enn í borginni þegar þetta var. Þannig vildi til að skrifstofustjórinn ásamt fimm starfsmönnum lokaðist inni á hótelinu en Hildur og Þorkell voru á skrifstofunni ásamt öðru starfsfólki. „Eftir rúman sólarhring ákváðum við að halda á þremur bílum að hótelinu," segir Þorkell. „Talstöðvarsamband við félaga okkar var að dofna og ekkert lát var á bardögum við hótelið. Þar gekk á með skothríð og sprengjuvörpur og þyrlur frá hernum skutu að hótelinu og eldar kviknuðu á sumum hæðunum. Þeir sem inni voru, um hundrað manns, komu sér niður í anddyri og kjallara og voru sumir slasaðir."

Aðalatriðið gleymdist
Þegar þau Hildur komu að hótelinu með hjúkrunargögnin var ákveðið að hún færi inn ásamt aðstoðarmanni og yfirmanni frá Abidjan en Þorkell yrði eftir utan við hliðið. „Þarna urðu okkur á mikil mistök," segir Þorkell. „Þeim var hleypt inn með hjúkrunargögnin en aðalatriðið gleymdist og það var að láta uppreisnarmenn skoða í kassana og sjá að í þeim var ekkert annað en hjúkrunargögn. Eftir dágóða stund komu þau Hildur út úr hótelinu en starfsmennirnir tveir og kassarnir urðu eftir. Uppreisnarmenn samþykktu með semingi að hjúkrunargögnin yrðu eftir á hótelinu en fannst sérkennilegt að enginn sjúklingur kom með þeim til baka."

Grunaðir um græsku
Þorkell varð eftir við hótelið til að fylgjast með framvindu mála og allt í einu brutust út heiftarlegir bardagar um hótelið. Uppreisnarmenn sem voru utandyra höfðu frétt að þessir fáu hermenn sem voru eftir inni á hótelinu hefðu nánast verið búnir með skotfærin áður en farið var inn með sjúkrakassana og þá lá beint við að álykta sem svo að skotfæri hefðu verið í kössunum sem Rauði krossinn færði þeim. „Ég fékk aldeilis að vita af því," segir Þorkell. „Ég var eini hvíti maðurinn utandyra og ekki nóg með það heldur var ég líka einn þeirra, sem höfðu komið með „skotfærin". Ég fékk einhverja pústra og hótanir og var látinn bíta í byssuhlaup. Ég ákvað að fara samt ekki frá hótelinu ef svo færi að þeir kveiktu í byggingunni með félaga mína og annað fólk innan dyra."

Gamlir bardagafélagar
Þrír hópar uppreisnarmanna sátu um hótelið og reyndu hermenn Vestur-Afríkuhersins að svara skothríðinni frá þeim. Samband var haft við foringja uppreisnarmanna Johnny Paul Koroma, sem reyndi að tala sína menn til en hann réð ekki við þá. Þorkell fór að svipast um eftir einhverjum sem hann gæti talað til og náði sambandi við foringja flokksins sem hélt til á ströndinni.

„Hann hét því góða nafni, Stallone. Hann var um tvítugt, kraftalega vaxinn með rauðan klút um höfuðið og byssubelti frá öxl niður á mjöðm eins og þeir eru með í mexíkóskum bíómyndum nema hvað þarna var alvara á ferðum," segir Þorkell.

Samningar gengu treglega og aðstoðarmanni Þorkels var ekki farið að lítast á blikuna að horfa til hans hlaupa á milli uppreisnarmannanna. „Það hefur verið sérstök lukka yfir mér að hlaupa ekki í flasið á neinni byssukúlu en þær voru mikið á ferðinni þarna og svo var ekki alltaf tekið vel á móti mér hjá þessum köppum," segir Þorkell. „Ég var sleginn niður, fékk hríðskotariffla í hnakkann og var auk þess boðið upp á ýmislega afgreiðslu. Þetta endaði loks með því að ég fékk Stallone vin minn til að hitta foringja hinna herflokkanna. Við fengum annan þeirra á okkar band og loks fundum við þann, sem stjórnaði aðgerðunum og hann samþykkti eftir smáþref að ræða vopnahlé. Þegar hann svo hitti loks foringja Vestur-Afríkuhersins kom í ljós að þeir voru gamlir bardagafélagar norðan úr landi og mestu mátar."

Samkomulag náðist um að allir innandyra fengju að yfirgefa hótelið samtímis en að hermenn Vestur- Afríkuhersins yrðu eftir. Sumir þeirra sem voru á hótelinu treystu ekki samkomulaginu. Þar á meðal voru konur sem uppreisnarmenn höfðu svívirt og aðrir sem höfðu átt í útistöðum við þá. Á síðustu stundu ákváðu um hundrað manns að fara. Þorkell gekk fyrir hópnum með fána Rauða krossins og tókst að koma öllum frá ströndinni þó svo að konur væru sérstaklega áreittar og að í hópnum væru liðhlaupar úr Vestur-Afríkuhernum, sem uppreisnarmenn vildu ólmir ná til.

Ótrúlegt hverju hægt er að venjast
Þorkell var rúmt ár í Sierra Leone og segir hann að gengið hafi á með „éljum". „Það komu tímar sem ekki voru mjög slæmir en maður venst þessu," segir hann. „Það er skrítið hvað hægt er að venjast svona illu sem verður nánast eðlilegt ástand í allri vitleysunni." Þrátt fyrir erfiðleika sinntu starfsmenn Rauða krossins hjálparstarfinu og dreifðu hjúkrunargögnum, matvælum, útsæði og fræjum og heimsóttu fanga. „Það var ótrúleg seigla í starfsfólkinu. Við vissum að Vestur-Afríkuherinn myndi ráðast inn og koma forsetanum til valda á ný og ég var þar þegar það gerðist," segir Þorkell. „Þá komu rúmlega 4.000 manns inn í garðinn til okkar. Við settum upp hjúkrunaraðstöðu og tókum á móti slösuðu fólki. Við gátum ekki hjálpað öllum og var útbúinn grafreitur fyrir þá sem létust."

Fór að missa trúna

„Sierra Leone er frægt land fyrir ofbeldi og þarna urðum við vitni að ofbeldisverkum sem við höfðum aldrei séð fyrr eða síðar og sum okkar ekki heyrt um," segir hann. „Algengt var að hendur og handleggir væru höggnir af fólki til þess að breiða út skelfingu meðal íbúanna." Þorkell segir að eftir dvölina í Sierra Leone hafi hann fyrst farið að missa trúna á virðingu annarra fyrir merki Rauða krossins.

„Ég lenti í ýmsu í Bosníu og þar féll einn samstarfsmannanna en þá trúði ég því að um einstakt tilvik hefði verið að ræða," segir hann. „Í Sierra Leone fannst manni oft að verið væri að nota samtökin. Því miður er það orðið þannig að uppreisnarmenn víða eru búnir að átta sig á að Rauði krossinn yfirgefur helst ekki átakasvæði, sama á hverju gengur. Samkvæmt Genfarsáttmálanum á hann að hjálpa íbúunum og hjúkra og sinna föngum en þegar farið er að myrða starfsmennina þá yfirgefur Rauði krossinn landið, en reyndar aðeins tímabundið. Stundum finnst manni eins og morð á starfsmönnum Rauða krossins séu skipulögð til að koma samtökunum í burtu svo ódæðismenn geti athafnað sig í friði. Það er ótrúlega seigla í stofnuninni og starfsmönnunum að gefast ekki upp. En það setur beyg að manni þegar starfsmenn falla eins og gerst hefur í Búrúndí, Afganistan og í Tsjetsníu."

Afganistan

Eftir fjórtán mánuði í Sierra Leone fór Þorkell til Zagreb.

Hann var úrvinda, þreyttur, slæptur og sundurtættur eftir hrakningana og þar ætlaði hann að safna kröftum. Eftir tvær vikur kom kall frá Genf og hann beðinn um að fara til Afganistan. Þetta var eftir seinni jarðskjálftana. Þorkell var sendur til Faisjabad í Norður-Afganistan þar sem aðaljarðskjálftarnir urðu og var hann með aðsetur í gömlum herbúðum frá tímum rússneska hersins. Rauði krossinn var þar með birgðar- og hjálparstöð sem Þorkell stjórnaði. „Allt var flutt til okkar í flugvélum en öll dreifing hjálpargagna til nauðstaddra íbúa í nágrenni Faisjabad var afar erfið," segir Þorkell. „Mikið var einnig flutt til okkar með þyrlum, bæði litlum og stórum og sumt kom á vörubílum. Frá okkur voru vörurnar ferjaðar með þyrlum og á múlösnum. Þarna er lítið um vegi og oftar en ekki hurfu þeir reglulega í skriðuföllum og flóðum."

Þorkell segir að í norðurhéruðunum séu allar reglur mun strangari en í borgum og bæjum og flestir íbúanna illa upplýstir. Oft var komið að rústum húsa, sem höfðu hrunið og þar varð fólk að hafast við í tjöldum. „Þegar við komum að var konunum smalað saman og þær lokaðar inni í tjöldunum," segir Þorkell. „Verst var að hjúkrunarfræðingarnir okkar, sem voru konur, fengu ekki alltaf að skoða þær. Stundum var það alveg útilokað. Af öllum þeim fjölda kvenna sem þarna búa fengum við einungis að flytja tvær á sjúkrahús nær dauða en lífi af því að eiginmenn þeirra voru aðeins víðsýnni en aðrir. En ef einhver von var til að þær héldu lífi án þess að fara á sjúkrahús þá fengu þær ekki að fara og margar þeirra létu þannig lífið. Það er alveg ljóst."

Málaliðar höfðingjanna
Þorkell hafði litla þyrlu til eigin umráða og flaug hann yfir þorpin og þá staði sem litu út fyrir að geta verið mannabyggðir og merkti inn á kort fyrir þyrlur sem komu í kjölfarið með hjálpargögn. Verst var að eiga við höfðingjana sem vildu stjórna aðgerðum Rauða krossins. „Við byrjuðum á að sveima yfir og lentum svo, þar sem fólk hafði safnast fyrir, aldrei annars staðar. Það gátu verið jarðsprengjur um allt og eins neitaði ég alltaf að fara um á bíl nema að höfðinginn kæmi með mér og helst að hann væri í bílnum á undan mínum," segir Þorkell. „Þessir höfðingjar stjórna lífi íbúanna. Þeir geta kallað þá til bardaga þegar þeim hentar og látið þá berjast fyrir hvern sem er. Þarna var eingöngu barist fyrir peninga og er sennilega enn."

Indónesía
Þorkell var í Afganistan í nokkra mánuði eða þar til verkefninu lauk og veturinn nálgaðist en þá lokast fyrir allar samgöngur. Næsta verkefni var í Sarajevo í Bosníu, þar sem hann vann við að koma á nýju aðhalds- og skráningarkerfi fyrir birgðastöð Alþjóða Rauða krossins. Þar var hann í nokkra mánuði áður en hann var sendur til Indónesíu sem ráðgjafi. "Þetta var rétt áður en allt varð vitlaust í Indónesíu og barist var á Borneó," segir Þorkell. "Óeirðir voru í Norður-Indónesíu, á Súmötru og á Kryddeyjunum milli kristinna manna og múslíma þó svo trúarbrögðin væru ekki aðalástæðan. Enn sem fyrr voru það náttúruauðæfin á Norður-Súmötru, sem barist var um. Þarna var ég við að þjálfa starfsmenn indónesíska Rauða krossins."

Fljótlega brutust einnig út bardagar á Austur-Tímor og var Þorkell sendur þangað til aðstoðar. Fylgismenn forseta Indónesíu höfðu komið upp vopnaðri sveit manna sem barðist fyrir áframhaldandi yfirráðum Indónesíu yfir Austur-Tímor. Þorkell sagði að þeir hefðu haft sínar aðferðir við að sannfæra kjósendur um að styðja sameininguna. "Annaðhvort kýst þú samband við Indónesíu eða þú kýst ekki aftur, voru skilaboðin, sem kjósendur fengu," segir Þorkell.

Stuttu eftir að Þorkell kom til Dílí höfuðborgar Austur-Tímor réðust þessar sveitir á flóttamannabúðirnar í borginni. "Þar varð mikið blóðbað," segir Þorkell. "Við reyndum að komast inn í búðirnar en tókst ekki fyrr en allt var um garð gengið og það var vægast sagt ljót aðkoma eins og þeir sem fylgdust með fréttum muna."

Áður en Þorkell hélt frá Austur-Tímor og Indónesíu var honum falið að koma með ábendingar um endurbætur á öryggismálum starfsmanna Rauða krossins og allri aðstöðu samtakanna.

Að því loknu hélt hann til Darwin í Ástralíu, þar sem talið var langlíklegast að flóttamenn frá Indónesíu myndu leita þangað og fólu yfirmenn hans honum að skipuleggja móttöku flóttamanna og kanna birgja fyrir hjálpargögn.

Yfir innkaupum og dreifingu í Júgóslavíu
Frá Ástralíu hélt Þorkell í frí til Íslands með viðkomu í Sarajevó. Þetta var í lok árs 1999 og ófriðlegt í Júgóslavíu. Klögumál gengu á víxl og tekist var á um Kósóvó og var mat manna að koma þyrfti Mílosevic frá völdum eins og síðar varð raunin. „Ég var ekkert sérlega velkominn á þessar slóðir, sem þegn Natóríkis, en ég komst loks inn og þar var ég fram í lok ágúst 2001," segir Þorkell. „Verkefnið sem ég tók að mér var umfangsmikið en það var að sjá um innkaup og dreifingu á hjálpargögnum í fyrrum Jógóslavíu."

Vöruhús Rauða krossins í Belgrad, Zagreb, Svartfjallalandi og Bosníu voru samtals um 30 þúsund fermetrar og undir stjórn Þorkels. „Við sáum um innkaup á matvælum, lyfjum, fatnaði og öllu sem til þurfti og var að jafnaði keypt inn fyrir um 1,5 milljón þýskra marka á mánuði. Hámark vörukaupanna var seinnihluta árs 2000 en síðan fór að draga úr þeim," segir Þorkell. „Þetta var árið 1999 og ástandið mjög slæmt eftir átökin. Júgóslavar fóru illa út úr viðskiptabanninu, sem sett var á þá og óðaverðbólgunni í kjölfarið. Fyrst var sett bann við sölu hergagna til Júgóslavíu en það var reyndar óþarfi því þeir voru ekki að kaupa hergögn heldur að selja enda júgóslavneski herinn talinn með öflugustu herjum. Ætli fátæktin árið 1999 meðal almennings í óðaverðbólgunni hafi ekki verið svipuð og árið 1993."

Þorkell segir að í stríðs byrjun hafi fólk átt eitthvað af peningum en svo var gjaldeyrisreikningum lokað og þeir gerðir upptækir og gjaldmiðillinn, dínarinn, var gjaldfelldur. „Þetta var eins og á millistríðsárunum í Þýskalandi þegar fólk hljóp með launin sín á milli verslana um leið og það fékk útborgað og keypti helst eitthvað sem geymdist vel," segir hann. „Skortur í verslunum var alger. Þetta var engu lagi líkt en svo fór þetta að lagast þegar menn lærðu á viðskiptabannið. Nágrannaþjóðirnar sáu sér fljótt leik á borði og fóru að versla við Júgóslava. Smygluðu inn vörum og eldsneyti, sem var af skornum skammti og græddu vel á þeim viðskiptum með heila járnbrautafarma af eldsneyti."

Grái markaðurinn

Viðskiptabanninu var aflétt árið 1996 og þá lagaðist ástandið aðeins en almenningur leið. „Atvinnuleysið var óskaplegt, 30-35%, að vísu dulið því grái markaðurinn dafnaði og óx. Það var verið að selja á hverju götuhorni, bensín og aðrar nauðsynjar," segir Þorkell. „Annað sem var áberandi á þessum tíma var að öllum skólum hnignaði alveg frá grunnskóla og upp í háskóla. Kennarar voru illa launaðir og þeir sem áttu möguleika á starfi erlendis reyndu að koma sér úr landi en það gat verið erfitt því Júgóslavar voru frekar illa séðir eftir átökin í Króatíu og Bosníu. Fram til ársins 2000 voru margar en smáar hjálparstofnanir að störfum í Júgóslavíu og Kósóvó. Ég held að fyrir marga hefði verið erfitt að lifa af veturinn 1999 til 2000 ef ekki hefði komið til hjálparstarf allra þessara stofnana."

Séð allt nema mannát
Vegna veikinda sinna er Þorkell undir eftirliti lækna og hefur farið reglulega í rannsókn ýmist á Íslandi, Júgóslavíu eða Sviss. Lengi vel tókst að halda flogaköstunum niðri með lyfjagjöf en haustið 2001 fékk hann slæmt kast og dreif sig til Íslands ásamt júgóslavneskri sambýliskonu sinni Sladjönu Vúkovic. Hann segist eiga henni lífið að þakka að ekki fór verr því henni tókst naumlega að koma honum á sjúkrahús í Belgrad þar sem þau bjuggu. „Það var reyndar svona ýmislegt í bígerð hjá mér á þessum tíma og hafði meðal annars komið til tals að ég færi til Amman í Jórdaníu og tæki við stöðu svæðisstjóra Alþjóða Rauða krossins yfir innkaupum og dreifingu hjálpargagna í Mið-Austurlöndum frá landamærum Afganistans til Alsírs. Tilkynningin um að staðan væri mín barst mér sama kvöld og ég fékk síðasta stóra kastið en ég sá hana ekki fyrr en löngu seinna þegar ég komst loks í tölvupóstinn minn," segir Þorkell. „Tekið var sýni af æxlinu og í framhaldi var ákveðið að kanna hvort geislameðferð hefði áhrif til góðs. Ég hugsaði með mér að frestur væri á illu bestur og hélt til Belgrad á ný áður en ég fór í meðferðina. Þar gekk ég frá mínum málum og fór í smáferðalag í gegnum Bosníu til strandarinnar þar sem ég vissi ekki hvort ég ætti afturkvæmt á þessar slóðir. Þetta var mjög skemmtileg ferð og ég hitti marga sem ég hafði unnið með en síðan hélt ég heim. Ég var settur í geisla og við fyrstu myndatöku var eins og æxlið hefði minnkað en við aðra myndatöku var enga breytingu að sjá. Við Sladjana erum hérna enn og ég fer í reglulegt eftirlit en hver veit nema ég leggist aftur í ferðir út í heim."

Mikil reynsla
Þorkell segir að ekki sé hægt annað en að draga lærdóm af því sem hann hafi upplifað. „Ég hef séð hræðilega hluti en líka skemmtilega og verið á stöðum, þar sem fáir hafa átt kost á að koma til og upplifað margt sem enginn annar hefur átt möguleika á," segir hann. „Alþjóða Rauði krossinn vinnur á ófriðasvæðum með það markmið að vera fyrstur inn með aðstoð og síðastur út. Áherslurnar hafa að vísu breyst á síðustu árum eftir að stofnunin varð fyrir því að missa starfsmenn sína. Ég hef séð ótrúleg afrek unnin af hjálparsamtökum en ég hef líka séð verstu hliðar mannsins. Ég held ég hafi séð allt nema mannát en einhvern veginn verður trúin á það besta í manninum alltaf yfirsterkari. Með tímanum lærir maður að búast alltaf við hinu versta en vona samt það besta."

Hljóðin fylgja mér enn
Atburðirnir í Freetown, höfuðborg Sierra Leone, eru þeir óhugnanlegustu, sem Þorkell upplifði. „Einu sinni var ég beðinn um að segja frá hvernig stríðsherrar fara með unga drengi og börn í stríði," segir Þorkell. „Ég var staddur í Belgrad þegar hringt var í mig frá íslenska Rauða krossinum og ég hóf söguna og ætlaði að segja frá því, sem ég upplifði í Freetown en allt í einu gat ég ekki komið upp orði. Ég var ekki enn búinn að vinna úr áfallinu sem ég varð fyrir, réð ekki við mig og brast í grát þarna sem ég sat mörgum árum seinna á skrifstofunni.

Þannig var að Læknar án landamæra höfðu ítrekað beðið okkur um að koma lyfjum og olíu á rafstöðina til þeirra á sjúkrahúsið en ástandið í borginni var mjög slæmt og enginn treysti sér milli húsa. Eftir nokkra daga sá ég að þetta gekk ekki lengur og ákvað að fara ásamt innlendum aðstoðarmanni mínum en hann ók bílnum. Það var farið að skyggja þegar við lögðum loks af stað, sem var heldur verra því þá fara illir andar á kreik. Hús brunnu víða í borginni og eftir að hafa talað til hóps óeinkennisklæddra ribbalda sem hleyptu okkur loks áfram komum við að gatnamótum, þar sem eldar loguðu. Þar var hópur af þessum ungu ribböldum, meira að segja ungar stúlkur líka. Þau voru svona sextán ára og suma þekktum við. Þetta voru strandastrákar sem héldu til á ströndinni á daginn og veiddu fyrir okkur humar í matinn. Þau voru náttúrlega undir einhverjum áhrifum og voru vopnuð sveðjum og hríðskotarifflum. Ég á erfitt með að tala um þetta meira að segja núna en þarna vorum við rifnir út úr bílnum. Sem betur fer náði ég að stinga bíllyklinum í vasann og um leið gat ég sagt þeim á skrifstofunni í gegnum talstöðina hvað var að gerast. Í fyrstu var okkur hrint fram og til baka og nokkrum skotum hleypt af en síðan var okkur fleygt í jörðina með riffilhlaup í hnakkann. Okkur var margsinnis hótað lífláti og við reyndum að tala þá til eins og við gátum. Sérstaklega félagi minn sem á auðvelt með að koma fyrir sig orði. Mér gekk ekki eins vel að skilja þessa „pidgin" ensku sem þau töluðu og þau ekki mína ensku. Búið var að kveikja bál þarna á krossgötunum, þar sem meðal annars var verið að brenna bíldekk. Þar sem við liggjum í götunni sjáum við að maður, sem átti að vera óvinur þeirra, er rifinn út úr einu húsanna. Hann neitar öllum sakargiftum og biður sér vægðar en þeir snúa sér að okkur og segja, - „Jæja, nú ætlum við að sýna ykkur hvernig fer fyrir ykkur". -

Þeir binda manninn á höndum og fótum þannig að hann getur sig hvergi hreyft og henda þar næst yfir hann bíldekkjum og var eitt þeirra logandi. Þarna brenndu þeir hann lifandi fyrir framan okkur. Okkur var sleppt en hljóðin frá honum fylgja mér enn."

krgu@mbl.is