Mexíkóski Rauði krossinn í fremstu víglínu

4. maí 2009

Sjúkraflutningadeild mexíkóska Rauða krossins hefur það hlutverk að tryggja sjúklingum aðhlynningu áður en þeir komast á sjúkrahús og flytja þá þangað sem þeir geta fengið sérfræðiaðstoð. Þessi deild verður í lykilhlutverki ef inflúensa A (H1N1) breiðist enn meira út á meðal íbúa.

Deildin starfar undir kjörorðinu „tími er gull”, það er að segja sá tími sem menn hafa til að veita þeim skyndihjálp sem eru í lífshættu. „Þetta er mjög erfitt hér í Mexíkó-borg, sem er stærsta borg heims. Til að bregðast við erfiðleikum á sviði samgangna og flutninga leggjum við höfuðáherslu á að þjálfa áfram þá 12.000 sjálfboðaliða sem við höfum yfir að ráða. Það er líka mikilvægt er að vernda sjálfboðaliða, starfsfólk og almenning með því að tryggja notkun hlífðarfatnaðar og að hreinlætisreglum sé fylgt, þar á meðal sótthreinsun sjúkrabíla,” segir Roberto Chávez Manjarrez, yfirmaður sjúkraflutningadeildar.

Meðlimir í mexíkóska Rauða krossinum undirbúa dreifingu á tveimur milljónum bæklinga og tvö hundruð þúsund veggspjöldum. Bæklingunum var dreift til almennings þann 30. apríl síðastiðinn en þar koma fram upplýsingar um einkenni inflúensunnar og aðferðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu hennar.
Mikill viðbúnaður er í Mexíkó til að bregðast við inflúensunni. Ástandið er ennþá viðráðanlegt og því hefur mexíkóski Rauði krossinn enn svigrúm til að búa sig undir hugsanlegt neyðarástand. „Það er mjög mikilvægt að geta borið kennsl á alvarlegustu tilfellin ef faraldurinn versnar mikið. Með því getum við forgangsraðað útköllum þannig að sem minnstur tími fari til spillis. Einnig verður hægt að stytta þann tíma sem sjúklingar þurfa að ferðast með sjúkrabílum,” segir Manjarrez. „Ef neyðarástand skapast af völdum inflúensunnar má búast við mikilli aukningu á óþörfum útköllum.”

Sjúkraflutningadeildin og sjálfboðaliðar hennar eru mun betur undirbúin en áður. „Jarðskjálftinn í Mexíkó kenndi okkur hvað við vorum illa undirbúin. Við vitum núna hversu mikilvægt er að við séum reiðubúin til að bregðast fyrirvaralaust við neyðarástandi. Spænska veikin varð um 50 milljónum manna að bana og við vitum enn ekki hversu alvarleg þessi inflúensa getur orðið. Það þýðir að við getum engu til sparað við undirbúning hugsanlegra neyðarviðbragða,” sagði Manjarrez.