90 ára afmæli Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

4. maí 2009

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans var stofnað í París í Frakklandi þann 5. mai 1919. Í dag starfa 186 landsfélög og næstum því 100 milljónir sjálfboðaliða innan Alþjóðasambandsins, sem gerir það að stærstu mannúðarhreyfingu veraldar.
 
Alþjóðasambandið hefur skipulagt sérstök hátíðarhöld í Elysée höllinni í París til að minnast þessara tímamóta. Þar verður kynnt svonefnd Parísaryfirlýsing (Paris Declaration) en í henni er fjallað um þann vanda sem mest herjar á mannkynið í dag. Í skjalinu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn hamförum og skaðlegum áhrifum þeirra. Bent er á mikilvægi þess að draga úr þörfinni fyrir neyðarviðbrögð með neyðarvörnum.
 
Hátíðarhöldunum verður fylgt eftir með blaðamannafundi þar sem kynnt verður alþjóðlegt átak sem Alþjóðasambandið hefur sett af stað í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins. Átakinu verður hrint úr vör undir kjörorðunum „Veröldin okkar. Þú átt leik.“  Með því er fólki um allan heim boðið að vinna saman að mannúðarstarfi. Gagnkvæm aðstoð hefur aldrei verið mikilvægari en einmitt í dag og mannúðarmál skipta alla máli. Miklar vonir eru því bundnar við þetta nýstárlega verkefni.

Á vefsíðu Alþjóðasambandsins er að finna myndasafn sem sett var saman í tilefni afmælisins.