Gerum veröldina betri á 150 ára afmæli Rauðakrosshreyfingarinnar

8. maí 2009

Rauði kross Íslands tekur þátt í alheimsáskorun Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem nefnist Veröldin okkar. Þú átt leik (www.ourworld-yourmove.org). Átakinu er hrint úr vör í dag 8. maí á alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Því er ætlað að beina athyglinni að fórnarlömbum hamfara og styrjalda og fá fólk um allan heim til að leggja sitt af mörkum til að aðstoða þá sem eru í nauðum staddir og gera veröldina að betri stað.

Í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá stofnun Rauða krossins hefur þessi stærsta mannúðarhreyfing í heimi helgað árið 2009 baráttunni fyrir að gera veröldina betri. Með verkefnum sínum heimafyrir og á alþjóðavettvangi vinnur Rauði kross Íslands að því ásamt 186 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim að reyna að milda afleiðingar loftslagsbreytinga, bæta heilsu, að draga úr ógnum styrjalda og afleiðingum efnahagsþrenginga.

„Átakinu er ekki aðeins ætlað að gera fólk meðvitaðra um þarfir nauðstaddra heldur viljum við einnig hvetja fólk til að láta verkin tala. Við viljum ná til almennings og fá sem flest fólk til að taka þátt í sjálfboðnu starfi. Með því móti vonumst við til að geta breytt heiminum í kringum okkur,” segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands.  „Starf það sem hvert og eitt okkar vinnur í sínu nánasta samfélagi gerir okkur hæfari til að takast á við bæði núverandi og aðsteðjandi vandamál sem varða alla heimsbyggðina. Með sameinuðu átaki og með því að taka til hendinni strax í dag getum við lagt grunninn að betri framtíð.”

150 ár eru liðin frá bardaganum um Solferino á Ítalíu, en það var sá sögulegi atburður sem leiddi til stofnunar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þá eru einnig 90 ár frá því að Alþjóðasamband Rauða krossins var stofnað, og 60 ár frá undirritun Genfarsamninganna. Í dag 8. maí er um allan heim haldinn hátíðlegur alþjóðadagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

„Vegna þeirrar efnahagskreppu sem nú ríkir í heiminum eiga margir við mikla erfiðleika að stríða. Þeir sem áttu lítið fyrir eru enn verr staddir. Við berum öll sameiginlega ábyrgð á lífskjörum okkar sem byggjum þessa veröld og hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum til að hjálpa öðrum. Aðstoðin skiptir máli, hvort sem hún er fólgin í því að eyða tíma með öldruðum nágranna eða í því að fæða og hýsa fjölskyldu sem er á flótta undan átökum,” segir Jakob Kellenberger, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins.