Alþjóða Rauða krossinn flytur særða og dreifir matvælum í Sri Lanka

11. maí 2009

Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins fluttu um 500 veika og særða burt af átakasvæðum í norðusturhluta Sri Lanka nú um helgina. Ferja sem Alþjóða Rauði krossinn hefur tekið á leigu, Green Ocean I,  flutti einnig nauðþurftir frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þessum hjálpargögnum verður dreift meðal þeirra þúsunda óbreyttra borgara sem hafa lokast af niður við ströndina vegna átakanna.

„Miklir bardagar standa ennþá nálægt heilsugæslustöð í Mullavaikkal, en það stofnar lífi sjúklinga, hjúkrunarfólks, lækna og starfsmanna Rauða krossins í mikla hættu,” sagði Jacques de Maio, yfirmaður aðgerða Rauða krossins fyrir suðurhluta Asíu. „Þetta hindrar flutninga á særðum, óbreyttum borgurum og fjölskyldum þeirra.”

Alþjóða Rauði krossinn hafði reynt í heila viku að bjarga tugum sjúklinga sem þurftu á lífsnauðsynlegri læknishjálp að halda, en ekki tókst að tryggja öryggi hjálparstarfsmanna til þess fyrr en nú.

„Ekki var hægt að flytja í burt alla sem hafa særst og það er mjög mikilvægt að fleira fólk verði flutt á næstu dögum,” sagði Majo. „Þau matvæli og sjúkragögn sem dreift hefur verið nægja ekki til að sjá fyrir grunnþörfum fólksins þar.”

Frá því 10. febrúar hefur Alþjóða Rauði krossinn flutt á brott meira en 13.000 manns af átakssvæðunum með báti til Trincomalee og Pulmoddai, sem eru svæði undir yfirráðum stjórnvalda. Frá því um miðjan febrúar hefur Alþjóða Rauði krossinn einnig skipulagt dreifingu meira en 2.300 tonna af mat á svæðið.