Endurbyggingarstarf Rauða krossins vegna jarðskjálftans í Abruzzo héraði á Ítalíu

18. maí 2009

Enn er ekki lokið starfi ítalska Rauða krossins vegna jarðskjálftans 6. apríl í Abruzzo héraði á Ítalíu. Jarðskjálftinn mældist 6,3 stig á Richterskvarða og varð 298 manns að bana. Um það bil 1.000 manns særðust og 28.000 misstu heimili sín. Mikið enduruppbyggingarstarf fer nú í hönd og þar leikur landsfélagið mikilvægt hlutverk. Um það bil 750 sjálfboðaliðar frá flestum deildum Ítalíu hafa unnið á vöktum við hjálparstörf í Abruzzo frá því að jarðskjálftinn átti sér stað. Gert er ráð fyrir því að 2.500 sjálfboðaliðar og starfsmenn til viðbótar taki þátt í uppbyggingarstarfinu á næstu mánuðum.

Margir af íbúum Abruzzo hafa flust í aðra landshluta í kjölfar skjálftans. Þúsundir fjölskyldna sem tapað hafa aleigu sinni og lífsviðurværi þurfa hins vegar að reiða sig á aðstoð frá ítalska Rauða krossinum og öðrum hjálparstofnunum. Ítalski Rauði krossinn rekur fimm búðir fyrir um 4500 manns og hefur útvegað þeim mat, vatn, hlý teppi og aðrar nauðsynjar. „Um það bil 22.000 manns þurfa að búa við þessi skilyrði næstu mánuði”, segir Tommaso Della Longa, talsmaður ítalska Rauða krossins.

Um leið og jarðskjálftinn reið yfir sendi Rauði krossinn starfsmenn og sjálfboðaliða á vettvang. Björgunarsveitir, sjúkrabílar, færanleg neyðareldhús og neyðargögn frá Rauða krossinum voru nýtt til hjálparstarfsins í náinni samvinu við almannavarnir á Ítalíu. „Það þurfti að útvega aðstoð á öllum sviðum, matvæli, föt, húsaskjól og sálrænan stuðning. Fyrstu vikurnar voru mjög erfiðar,” segir Della Longa.

Góður undirbúningur tryggði árangur
Það var öflugur neyðarundirbúningur sem tryggði skjót viðbrögð Rauða krossins. „Ítalski Rauði krossinn er stór hreyfing, en innan fárra klukkustunda voru allar deildir farnar að vinna saman að þessu verkefni. Innan 24 tíma vorum við komin með sjálfboðaliða frá öllum landshlutum. Fólk á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum gekk út af vinnustöðum sínum og fór til Abruzzo að hjálpa,” segir Della Longa. „Allir vissu hvert hlutverk þeirra var við kringumstæður sem þessar, þökk sé ítarlegum undirbúningi.”

Frá neyðarástandi til enduruppbyggingar

Ítalski Rauði krossinn hefur þróað áætlanir um langtímastuðning við fórnarlömb jarðskjálftans. Í kjölfar fyrstu neyðarviðbragða þróaði félagið tveggja ára áætlun um að endurreisa stoðir samfélagsins og hjálpa fólki að koma lífi sínu í eðlilegt horf. „Markmið okkar er að hjálpa fjölskyldum að bjarga sér á eigin spýtur án utanaðkomandi aðstoðar,” útskýrir Della Longa.

Áætlunin felur meðal annars í sér að útvega varanlegt húsaskjól, endurreisa skólastarf og efla félagslegt stoðnet samfélagsins. Áfram verður lögð mikil áhersla á sálrænan stuðning við fórnarlömb meðan þau eru að vinna sig út úr erfiðleikunum.

Alþjóðleg samstaða

Mörg landsfélög hafa veitt Rauða krossinum aðstoð sína og víða voru safnanir til stuðnings fórnarlömbum jarðskjálftans. „Ítalski Rauði krossinn er eitt af þeim landsfélögum sem mest hefur stutt við hjálparstarf á alþjóðlegum vettvangi. Við gerum okkur grein fyrir því að landsfélagið á Ítalíu er eitt af þeim sem er best í stakk búið til að bregðast við neyðarástandi heima fyrir,” segir Marc Austarita frá breska Rauða krossinum. „Margt fólk í öðrum löndum vill hins vegar leggja sitt af mörkum til að hjálpa. Með því að veita fjárstuðning til hjálparstarfs ítalska Rauða krossins vegna jarðskjálftans hefur fólk fengið tækifæri til að sýna samhug sinn í verki.”