Rauði krossinn leggur aukna áherslu á alþjóðlegt málsvarastarf

26. maí 2009

Alþjóða Rauði krossinn hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á málsvarastarf í þágu nauðstaddra og stefnt er að því að það verði æ stærri hluti af starfinu. Oft fellur þetta hlutverk Rauða krossins í skuggann af öðrum verkefnum þar sem skjótt þarf að bregðast við til að bjarga lífi fólks og heilsu. Það skiptir hins vegar miklu máli til að þeir sem minnst mega sín eigi sér sterkan málsvara, ekki aðeins innan þjóðríkja heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi. Það eru fyrst og fremst ákvarðanir æðstu valdhafa heims sem ráða því hvort styrjaldir eru háðar, hvort flóttamenn fá stuðning, eða almenningi er séð fyrir fullnægjandi heilsugæslu.
 
Við verkefnaval sitt bæði á innlendum og erlendum vettvangi hefur Rauði kross Íslands tekið þátt í málsvarastarfi með ýmsum hætti. Frá því í júlí 2005 hefur íslenskur sendifulltrúi, Michael Schulz, verið yfirmaður sendinefndar Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og áheyrnarfulltrúi hreyfingarinnar á allsherjarþingi þeirra.

Alþjóða Rauði krossinn í einstakri aðstöðu til að hafa áhrif

Auk fulltrúa 192 aðildarríkja eiga rúmlega 70 áheyrnarfullrúar sæti á Allsherjarþinginu. 3051 hjálparstofnun hefur ráðgefandi stöðu í efnahags og félagsmálaráði. 250 fjölmiðlafulltrúar eiga jafnframt í stöðugum samskiptum við stofnanir Sameinuð þjóðanna. Alþjóða Rauði krossinn er hins vegar eina mannúðarhreyfingin með fastafulltrúa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og öllum stofnunum þeirra. Hann er þannig í einstakri aðstöðu til að gera Rauða krossinn og Rauða hálfmánann sýnilegri og hafa áhrif á alþjóðlega stefnumótun á sviði mannúðarmála.

„Málsvarastarf okkar hér í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna felst meðal annars í því að fá alþjóðasamfélagið til að styðja aðgerðir og verkefni Rauða krossins og annarra mannúðarstofnana,“ segir Michael sem hefur unnið fyrir Rauða krossinn undanfarin 25 ár. „Við fáum jafnframt dýrmæt tækifæri til samstarfs við aðra um að ná þeim markmiðum sem Rauði krossinn hefur sett sér í mannúðarstarfi sínu.“

Málsvarastarf Rauða krossins á sér sterkar rætur
Alþjóða Rauði krossinn hefur þróað alþjóðlegt málsvarastarf sitt mikið á undanförnum árum og áratugum. Rekja má þennan þátt í starfi hreyfingarinnar til upphafs 20. aldar þegar Þjóðabandalagið skuldbatt sig til að ýta undir stofnun landsfélaga um allan heim með það að markmiði að bæta heilsufar, koma í veg fyrir sjúkdóma og draga úr þjáningum fólks um allan heim.

„Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er eitt af sterkustu öflum heims í baráttunni fyrir hagsmunum þeirra sem minnst mega sín,“ segir Michael. „Áheyrnarstaða hreyfingarinnar á allsherjarþinginu gerir okkur kleift að koma mikilvægum mannúðarsjónarmiðum á framfæri við æðstu valdamenn heims og hafa áhrif á ákvarðanir þeirra. Alþjóðasambandið ákvað nú í maí að efla málsvarastarfið enn frekar. Með því er stefnt að því að hafa meiri áhrif á ákvarðanatöku og almenningsálit um allan heim þannig að valdhafar gæti jafnan hagsmuna þeirra sem minnst mega sín og beri virðingu fyrir þeim sem búa við örbirgð og neyð.“