Nær hundrað þúsund manns hafa sýkst af kóleru í Simbabve

2. jún. 2009

Enn verður ekki séð fyrir endann á kólerufaraldrinum sem geisað hefur í Simbabve á undanförnum misserum. Vitað er um 98.308 sýkingar um land allt og 4.283 manns eru taldir hafa látið lífið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu á vegum Alþjóða Rauða krossins og Rauða krossins í Simbabve. Þar er varað við því að enn stafi mikil hætta af faraldrinum þó að dregið hafi úr tíðni sýkinga á undanförnum mánuðum. Talið er að fjöldi greindra tilfella eigi eftir að fara yfir 100.000.

Innviðir samfélagsins illa farnir
„Alvarlegasta ástæða faraldursins er sú að helstu stoðir samfélagsins eru nær algerlega fallnar. Vatnsveitur, hreinlætisaðstaða almennings og heilbrigðiskerfi landsins eru meira og minna ónýt. Það er ennþá skortur á drykkjarhæfu vatni og hreinlæti er mjög ábótavant. Það er ennþá mikil mannekla í heilbrigðiskerfinu og skortur á sjúkragögnum,” segir Marianna Csillag, sendifulltrúi Rauða kross Íslands í Simbabve. Marianna er hjúkrunarfræðingur og var send til Simbabve í janúar til að taka þátt í neyðaraðgerðum Rauða krossins vegna kólerufaraldursins. Þar hefur hún meðal annars starfað með neyðarteymi finnska Rauða krossins.

Fjárskortur hamlar aðgerðum Rauða krossins

Fjárskortur hamlar mjög aðgerðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans til að stemma stigu við kólerufaraldrinum. Hjálparstarfið mun á komandi mánuðum beinast að því að veita aðstoð til lengri tíma og stefnt er að því að veita 665.000 heimilum varanlegan aðgang að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu. Til dæmis er brýn þörf fyrir fjárframlög sem svara um bil 400 milljónum íslenskra króna (um það bil 3,75 milljónir svissneskra franka) til að lagfæra 1.150 vatnsból, bora 263 brunna og byggja 3.755 kamra.

„Því miður veldur þessi fjárskortur því að við höfum þurft að draga úr aðgerðum gegn faraldrinum fyrr en við hefðum viljað,” sagði Emma Kundishora, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Simbabve. „Nú þurfum við hins vegar að undirbúa næstu skref og hvetjum styrktaraðila til að veita verkefninu stuðning.”

Þrátt fyrir fjárskort hefur kóleruverkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans skilað miklum árangri frá því í desember árið 2008. Með stuðningi styrktaraðila hafa 75 neyðarsjúkrahús verið starfrækt á svæðinu og 450.000 manns hafa fengið aðgang að hreinu vatni. Dreift hefur verið 700.000 töflum til að hreinsa vatn og 700.000 manns hafa fengið lífsnauðsynleg hjálpargögn af ýmsu tagi.

„Enduruppbygging á mikilvægustu innviðum samfélagsins mun taka mörg ár,” segir Marianna, en hún hefur unnið sleitulaust við rekstur neyðarsjúkrahúsa sem reist hafa verið til að bregðast við faraldrinum. „Það þarf að reisa frá grunni alla hreinlætisaðstöðu og tryggja aðgang almennings að ómenguðu vatni. Við vonumst hins vegar til að aðgerðir Rauða krossins dragi verulega úr kólerusýkingum á komandi misserum.”