Fólkið sem flýr heimkynni sín

Zoë Robert Morgunblaðinu

2. jún. 2009

Samanburður á afgreiðslu Íslendinga og Norðmanna á hælisumsóknum leiðir í ljós að frændur okkar veita mun fleiri stöðu flóttamanna. Zoë Robert heimsótti hælisleitendamiðstöðina í Þrándheimi. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Það berst tilfinningaþrunginn söngur frá sjónvarpinu í horninu. Söngvarinn er afganskur, eins og stöðin, og sungið um hvernig örlögin hafa aðskilið söngvarann og fósturjörðina að eilífu. Undir söngnum birtist eyðilegt landslag innan um afganska bæi og borgir. Við erum stödd í hælisleitendamiðstöðinni í Þrándheimi.

„Þetta er landið okkar, landið sem við elskum. Allir elska fósturjörðina. Þegar öruggt verður að snúa til baka munum við fara heim. Það þarf enginn að þvinga okkur til þess,” segir Jamal, Afgani á fertugsaldri.

Nazif, miðaldra maður frá austurhluta Afganistans, er í sömu stöðu.

„Ég átti í útistöðum við talibana og yfirgaf því landið mitt fyrir fimm og hálfu ári. Það var þá sem ég sótti um hæli í Noregi. Norsk yfirvöld sögðu hins vegar að ég yrði fara aftur heim. „Þín bíða engin vandamál,” var svar þeirra.”

Norsk stjórnvöld hafa vísað frá hælisumsóknum Jamals og Nazifs og gert þeim að yfirgefa Noreg.

Þótt ómögulegt sé að færa sönnur á fullyrðingar þeirra var komist að þeirri niðurstöðu að óhætt væri fyrir þá að snúa aftur til Afganistans, en stjörnvöld hafa í gegnum tíðina verið gagnrýnd fyrir að senda fólk aftur til þessa stríðshrjáða lands.

Norska útlendingastofnunin fullyrðir hins vegar að hún hafni ekki hælisleitendum sem hafa búið við ofsóknir, jafnvel þótt í Afganistan sé hægt að finna þeim örugg svæði.
Ef hælisleitandi getur ekki sannfært yfirvöld um að hann sé að flýja ofsóknir vegna kynþáttar, trúar, þjóðernis eða stjórnmálaskoðana, íhuga yfirvöld þann möguleika að flytja umsækjandann til öruggs svæðis í Afganistan, í samræmi við tilmæli Flóttamannastofnunar SÞ.

Lítum á nokkrar tölur
Árið 2008 tryggði norska útlendingastofnunin 80% þeirra Afgana sem sóttu um málsmeðferð einhvers konar vernd. Á sama tíma var 6% hælisumsókna hafnað.
Um tíundi hver umsækjandi var fluttur til landsins sem þeir komu frá á leið sinni til Noregs í samræmi við ákvæði Dyflinnarsamkomulagsins (nær til Noregs, Íslands og ESB). Vegna staðsetningar Noregs hafa hælisleitendur jafnan viðkomu í öðru landi en sökum þess að þeir ferðast ekki alltaf löglega þangað kemur ósjaldan upp óvissa um til hvaða lands eigi að senda þá. Málið er oft snúið.

Staða fólksins erfið
Þannig greindi dagblaðið Aftenposten nýlega frá því að árið 2008 hafi ekki verið hægt að senda heim hátt í helming hælisleitenda, í sumum tilvikum vegna þess að ekki var búið að gera samninga við heimaríki þeirra þar um. Hluti umsækjenda kýs að dveljast innan landsins þrátt fyrir að umsókn þeirra hafi verið hafnað, en norska hagstofan áætlar að 12.325 hælisleitendur hafi verið í þessari stöðu í fyrra.

Gunn Hilde Garte, stjórnandi hælisleitendamiðstöðvarinnar í Þrándheimi, segir stöðu fólksins erfiða. Þótt reynt sé að létta því lífið með afþreyingu beri gjarnan á leiða.
„Lífið er þeim erfitt. Þeir geta ekki gengið löglega í störf, gift sig eða gengið menntaveginn. Það líður yfirleitt nokkur tími áður en lögreglan rekur hælisleitendur úr herbergjum þeirra,” segir Garte.

Sveinung Sandberg, fræðimaður við háskólann í Bergen, hefur einnig vakið máls á þessari erfiðu stöðu en hann lýsti nýlega yfir þeirri skoðun sinni í viðtali við Aftenposten að „skapa þurfi hælisleitendum aðstæður sem þvingi þá ekki á braut afbrota”.

Jamal kveðst hafa komið til Noregs eftir að hafa flúið Austur-Afganistan fyrir fimm árum en fjölskylda hans er nú búsett í Pakistan.

Hann er í hópi umsækjenda sem kjósa að dveljast áfram í landinu þrátt fyrir synjun um dvalarleyfi, en réttur hans til að starfa í Noregi var numinn úr gildi eftir að umsókn hans var endanlega hafnað.

Jamal, sem virt hefur fyrirmæli lögreglu um að snúa aftur til heimalandsins að vettugi, dvelst því og starfar áfram ólöglega í Noregi í von um að stjórnvöld endurskoði málið.

„Nú er borin von að við fáum að vera í Noregi. En hvernig eigum við að geta snúið aftur til Afganistans? [...] Ef óhætt er að snúa þangað aftur, hvers vegna eru þá fjölþjóðlegar hersveitir þar?” spyr Jamal. Hann segir lífið erfitt.

„Allan tímann hef ég hugleitt framtíðina. Þetta er ekkert líf. Ég held að það sé betra að vera í fangelsi. Fólk vissi þá að ég sæti bak við lás og slá. Hér veit enginn af mér. Þetta er hvorki góð né örugg staða.”

Josiane, rúmlega þrítug kona frá Kamerún sem hefur beðið úrlausnar sinna mála í 10 mánuði, er sammála.

„Við getum ekki sofið. Við deilum herbergi með öðrum en glímum öll við eigin vandamál. Við verðum sturluð á biðinni,” segir hún.

„Ég á mér ekki framtíð. Það er erfitt heima fyrir. Menn drepa hver annan,” segir Sinesie, ung kona frá Búrúndí, og berst við tárin.

Í þriðja sæti Evrópuþjóða
Samkvæmt Flóttamannastofnun SÞ var Noregur í þriðja sæti Evrópuþjóða yfir fjölda hælisleitenda árið 2008, en í byrjun ársins bjuggu 132.400 manns í Noregi sem tengjast hælisumsóknum á einhvern hátt.
Fjölgunin í fjölda hælisleitenda til landsins var sú önnur mesta í Evrópu eða um 120%, aukning sem leiddi til mikils skorts á dvalarrýmum ásamt því að verða til að herða á innflytjendastefnu Noregs.

Þetta kemur fram í því að árið 2007 var 40% þeirra umsókna sem afgreiddar voru að fullu hafnað, tala sem hækkaði í 59% í fyrra. Meðal-afgreiðslutíminn var 7,5 mánuðir.

Málefni hælisleitenda eru umdeild í Noregi en í nýlegri skoðanakönnun á vegum norsku hagstofunnar sögðust 38% fylgjandi því að hert yrði á lögum um hælisleitendur, 7% voru fylgjandi því gagnstæða en 51% kvaðst styðja núverandi stefnu.

Ekki vandamál að taka við fjöldanum
Morten Tjessem, forstöðumaður samtaka hælisleitenda í Noregi (NOAS), sem fer fyrir eftirliti með stefnumótun í málaflokknum, segir stjórnina stundum senda þau skilaboð að hælisleitendur séu ógn.

„Það er ekki raunverulegt vandamál fyrir auðugt land eins og Noreg að taka við þessum fjölda,” segir Tjessem og bendir á að umsækjendur bíði oft í um ár eftir svari við umsókn sinni og í ár til viðbótar eftir því að áfrýjunin sé tekin fyrir.

„Það getur verið lýjandi fyrir þá að dvelja í miðstöðvunum svo mánuðum eða árum skipti [...] Umsóknarferlið tekur langan tíma, en sú bið er ekki bundin við Noreg.”
Jamal og vinir hans segjast aldrei munu snúa aftur til Afganistans, að minnsta kosti ekki eins og staðan er nú. Sjálfur kýs hann að fara huldu höfði í þeirri von að hann fái hæli.

Samanburður á afgreiðslu Íslendinga og Norðmanna á hælisumsóknum leiðir í ljós að frændur okkar veita mun fleiri stöðu flóttamanns. Zoë Robert heimsótti hælisleitendamiðstöðina í Þrándheimi.