Rauði kross Íslands og utanríkisráðuneyti styrkja hjálparstarf á Srí Lanka

4. jún. 2009

Rauði kross Íslands veitti í dag fimm milljónir króna til hjálparstarfs meðal flóttamanna á Sri Lanka, sem nú hafast við í flóttamannabúðum við afar slæman kost. Féð bætist við fimm milljónir króna sem utanríkisráðuneytið hafði þegar ákveðið að veita í gegnum Rauða krossinn. Framlagið frá Íslandi nemur því tíu milljónum króna.

Framlagið rennur óskipt til hjálparstarfsins á norðurhluta eyjarinnar. Þar ríkir nú gríðarleg neyð meðal almennra borgara sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna vopnaðra átaka á svæðinu, sem nú eru yfirstaðin. Nístandi þörf er fyrir matvæli, vatn og læknishjálp í yfirfullum flóttamannabúðum. 

Rauði kross Íslands hefur um árabil veitt aðstoð á Sri Lanka, einkum í kjölfar hamfaraflóðbylgjunnar sem reið yfir strandsvæði eyjarinnar í desember 2004.

Mikilvægustu þarfir flóttafólksins
Rúmlega 250.000 manns hafa flosnað upp af heimilum sínum í norðurhluta landsins og hafast nú við í flóttamannabúðum. Tugir þúsunda flóttamanna voru í sjálfheldu á mjórri ræmu meðfram ströndinni í norðausturhluta landsins á meðan bardagar stóðu yfir og þessi hópur hefur mestu þörfina fyrir aðstoð.

Aðgerðir Rauða krossins á undanförnum dögum

Alþjóða Rauði krossinn leggur áherslu á að skrá alla þá sem færðir eru í fangabúðir á vegum stjórnvalda. Þannig má fylgjast með því að fangar úr röðum Tamíl tigranna fái mannúðlega meðferð.

Á undanförnum dögum hefur Rauði krossinn fengið aðgang að svæðum sem áður voru lokuð vegna átakanna. Þar hefur verið dreift búsáhöldum, fötum og hreinlætisvörum til þúsunda fjölskyldna sem hafast við í flóttamannabúðum. Mannúðarstofnanir anna hins vegar ekki brýnustu þörfum fólksins og því hvetur Rauði krossinn yfirvöld á Srí Lanka til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa flóttamönnum og leyfa mannúðarstofnunum að starfa þar sem þeirra er þörf.

Fangaheimsóknir og sameining fjölskyldna
Frá árinu 1989 hefur Alþjóða Rauða krossinum verið veittur aðgangur að föngum í haldi yfirvalda. Sendifulltrúar fylgjast með því að þeir sem teknir hafa verið til fanga í átökunum fái mannúðlega meðferð og eiga samskipti og samstarf við yfirvöld um nauðsynlegar úrbætur. Í maí töluðu sendifulltrúar við um það bil 2.500 Tamíl tigra sem haldið er föngnum. Rauði krossinn heimsótti einnig fanga úr röðum stjórnarhers Srí Lanka sem voru í haldi uppreisnarmanna.

Á hverju ári aðstoðar Rauði krossinn hundruð þúsunda fjölskyldna við að endurheimta samband sitt við ástvini sína eða afla með öðrum hætti upplýsinga um afdrif þeirra. Mikil þörf er á því fyrir flóttafólkið að láta ástvini annars staðar í landinu vita um afdrif sín og hefur Rauði krossinn boðið fram aðstoð sína í því sambandi.