Unnið að útrýmingu lömunarveiki í Afríku

5. jún. 2009

Rauði kross Íslands mun veita 5 milljónum króna í bólusetningarherferð gegn lömunarveiki sem nú stendur yfir í 14 Afríkulöndum. Herferðin sem hófst í mars stendur yfir í 5 mánuði og er ætlunin að ná til 80 milljón barna undir 5 ára aldri. Framlag Rauða kross Íslands mun renna til verkefna í Tógó og Gana, en bólusetning þar hófst nú í byrjun júní.

„Lömunarveiki var mikið skaðræði hér á landi fyrir nokkrum áratugum og gæti hæglega blossað upp aftur, hér og um allan heim, ef ekkert er að gert þar sem hún geysar núna. Það er allt of mikið í húfi þegar hægt er að koma í veg fyrir smit með jafn einfaldri bólusetningu og raun ber vitni þar sem bóluefni er dreypt á tungu barnanna,” segir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands.

Neyðarbeiðni Alþjóða Rauði krossins hljóðar alls upp 286 milljónir íslenskra króna og er átakið unnið í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO), Unicef, Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna, heilbrigðisyfirvöld og Rauðakrossfélög í löndunum fjórtán, ásamt Rótarýhreyfingunni. Rótarýhreyfingin hefur unnið að baráttunni gegn lömunarveiki frá 1985, og hefur Rótarý á Íslandi styrkt þá starfsemi. 

Á síðastliðnum 20 árum hefur gífurlegum árangri verið náð í því að útrýma lömunarveiki í heiminum. Árið 1988 var lömunarveiki landlæg í 125 löndum, en með skipulögðum bólusetningarherferðum hefur tekist að útrýma veikinni að mestu leyti nema í Nígeríu, Indlandi, Pakistan og Afganistan. Lömunarveikitilfelli hafa hinsvegar blossað upp í fjölmörgum löndum á undanförnum árum og veikin gæti hæglega aftur orðið að heimsfaraldri verði ekki reynt að stemma stigu við henni nú.

Rauði krossinn gegnir lykilhlutverki við bólusetninguna vegna hins þéttriðna nets sjálfboðaliða sem hreyfingin hefur yfir að skipa. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá til þess að börn og forsjármenn þeirra mæti í bólusetningu jafnt í borgum sem afskekktum byggðum.

Fyrir utan Tógó og Gana fer bólusetning barna fram samtímis í Angóla, Benín, Búrkína Fasó, Miðafríkulýðveldinu, Kongó, Fílabeinsströndinni, Eþíópíu, Kenýa, Malí, Níger, Súdan og Úganda.