NATO leggur hvítum bílum

Þóri Guðmundsson sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

9. jún. 2009

Herir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan hættu að nota hvítmálaða bíla frá og með síðustu mánaðamótum, eftir mikinn þrýsting frá hjálparstarfsmönnum í landinu. Rauði krossinn hefur lengi bent á hættuna af því fyrir sjálfstæða og óháða aðstoð á vígvellinum að starfsfólk á vegum herja aki um á hvítmáluðum ökutækjum, sem hefð er fyrir að hjálparstofnanir noti.

Ákvörðun NATO ber að fagna. Með henni hefur fengist viðurkennt mikilvægi þess að skýr greinarmunur sé gerður milli þeirra sem tilheyra aðilum að átökum og hinna, sem veita aðstoð á grundvelli þarfar, algjörlega óháð átakalínum.

Mikilvægið er augljóst: starfsfólk sem tilheyrir einum aðila átaka getur engan vegin starfað á yfirráðasvæði andstæðingsins. Ef aðgreiningin milli þeirra og annarra hjálparstarfsmanna er óljós í hugum heimamanna, þá geta hvorugir starfað þar. Fólk sem býr utan þeirra svæða sem NATO herir hafa á sínu valdi verður því útundan í hjálparstarfi.

Alþjóða Rauði krossinn hefur starfað í Afganistan frá 1987. Fjöldi hjúkrunarfræðinga og annarra sendifulltrúa Rauða kross Íslands hefur unnið við hjálparstörf í landinu alla tíð síðan þá. Nú eru á vegum Alþjóða Rauða krossins um 1.400 starfsmenn í Afganistan, þar af á annað hundrað erlendir starfsmenn.
Sú hugmynd, sem hefur verið vinsæl meðal ríkja heims á undanförnum árum, að ákjósanlegt gæti verið að reisa við fallin ríki með sameinuðu átaki alþjóðasamfélagsins er nú heldur á undanhaldi. Í þeirri hugmynd fólst meðal annars að saman gæti farið hernaðarleg íhlutun, margháttuð viðreisn þjóðfélagsins og hjálparstarf á vígvellinum.

Þegar hjálparstarf er þannig samofið pólitískum og hernaðarlegum markmiðum er voðinn vís.