Aðstöðumunur ríkra og fátækra landa í baráttunni við farsóttir

3. júl. 2009

Alþjóða Rauði krossinn (IFRC) hefur sent frá sér nýja skýrslu  sem nefnist „The Epidemic Divide“ og þýða mætti lauslega sem „Faraldursgjáin“. Í skýrslunni er fjallað um þá erfiðleika sem farsóttir valda í þróunarlöndum. Byggt er á nýjum tölum sem Alþjóða Rauði krossinn birtir nú í fyrsta sinn.

14 milljónir deyja árlega vegna smitsjúkdóma
Smitsjúkdómar valda nærri því 14 milljónum dauðsfalla á hverju ári um allan heim. Dánartölur eru hins vegar ekki það eina sem skiptir máli og þær geta jafnvel verið misvísandi. Jafnvel þó að sjúkdómar sem ekki berast með smiti séu í dag valdir að flestum dauðsföllum í heiminum, þá sýnir þessi skýrsla að smitsjúkdómar hafa mest áhrif á líf almennings í vanþróuðum og fátækum samfélögum. Þetta eykur enn þann ójöfnuð sem ríkir milli þróunarlanda og auðugra þjóða.

Aukin áhersla Rauða krossins á farsóttir
Milli áranna 2004 og 2007 meira en þrefaldaðist starf Rauða krossins og Rauða hálfmánans á sviði farsótta. Milli áranna 2007 og 2008 fjölgaði þeim sem fengu hjálp vegna farsótta um 15,4%. Þetta sýnir að starfsgeta hreyfingarinnar hefur vaxið mikið en einnig að nýjar farsóttir valda sífellt meiri hörmungum, sérstaklega í þróunarlöndum.

Frá janúar 2006 til maí 2009 fékk rúmlega 41 milljón manns aðstoð frá landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim vegna farsótta. Alls fengu rúmlega 10,6 milljónir aðstoð fyrstu fjóra mánuði ársins 2009. Líklegt er að fleiri fái aðstoð vegna farsótta á þessu ári heldur en á því síðasta, en þá fengu 16,3 milljónir manns hjálp.

Bæði forvarnir og neyðarvarnir eru nauðsynlegar í baráttunni við farsóttir
Það er engin einföld lausn til í baráttunni við farsóttir. Til að draga úr áhrifum þeirra þarf að takast á við flókin atriði sem meðal annars fela í sér forvarnir gegn sjúkdómum, betri aðgang að heilbrigðisþjónustu, og sterkari innviði samfélagsins, sérstaklega á sviði vatnsveitna og hreinlætis.

Það er dýrt að bregðast einungis við farsóttum eftir að þær hafa brotist út og það eitt mun ekki koma í veg fyrir að þær brjótist út að nýju. Aðeins aðgerðir sem hafa langtímamarkmið að leiðarljósi og ráðast að rótum vandans munu skila raunverulegum árangri. Það er mikilvægt að upplýsa samfélög um hættuna sem stafar af farsóttum. Hægt er að bjarga mörgum mannslífum með einföldum skilaboðum. Nauðsynlegt er einnig að efla verulega samstarf allra hluteigandi aðila á þessu sviði til að hægt sé að tryggja varanlegan árangur.

Aðgerðarleysi með tilliti til forvarna veldur mikilli hættu

Litlu fé er veitt til forvarna gegn farsóttum á alþjóðlegum grundvelli og því skiptir mestu máli að hægt sé að nýta vel það sem menn hafa. Mikilvægt er að ýta undir breytta hegðun með sterka forvarnarmenningu að leiðarljósi. Skeytingarleysi þróaðra landa gagnvart farsóttum felur í sér umtalsverða ógn, bæði við þeirra eigin öryggi og annarra. Það að sjúkdómar á borð við mislinga skuli aftur vera komnir til Evrópu sýnir að með því að vanrækja starf gegn farsóttum í þróunarlöndum auka menn hættuna á því að þær berist til þróaðra landa.