Krakkar frá URKÍ tóku þátt í ungmennamóti í Solferino á Ítalíu

2. júl. 2009

Ungmenni frá 150 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans komu saman í Solferino á Ítalíu í síðustu viku til að ræða hvernig bregðast skuli við þeim alvarlega mannúðarvanda sem ríkir um allan heim, oft atburðum sem  hafa engu minni þjáningar í för með sér heldur en orrustan um Solferino (Heljarslóðarorrusta). Á grunni hugleiðinga sinna settu ungmennin saman “Solferino yfirlýsinguna,” alþjóðlegt kall til aðgerða, sem þeir munu opinberlega kynna alþjóðasamfélaginu, það er að segja yfirvöldum í Sviss og Genf, fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, ríkja og alþjóðlegrar hreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands sendi fimm fulltrúa til Solferino, þau Ara Hjálmarsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Ágústu Ósk Aronsdóttur, Katrínu Björg Stefánsdóttur og Pálínu Björk Matthíasdóttur. Þátttakendurnir frá Íslandi tóku daglega þátt í mismunandi vinnustofum en viðfangsefni þeirra tengdust þeim málefnum sem koma ungu fólki innan Rauða Krossins við.

„Þrjú okkar lögðu af stað til Ítalíu að morgni þriðjudagsins 23. júní, en daginn eftir bættust svo Ari og Pálína í hópinn en þau voru að koma úr beint frá Gambíu eftir að hafa verið þar í fimm vikur á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins,“ sagði Arnar Benjamín eftir heimkomuna til Íslands. „Ferðin gekk vel og sjálfboðaliði Ítalska Rauða krossins sótti okkur á flugvöllinn í Mílanó. Þaðan fórum við á höfuðstöðar Rauða kross deildarinnar í Mílanó þar sem beið okkar stór hópur af sjálfboðaliðum frá mörgum löndum.“

Á mótinu eignuðust Íslendingarnir vini frá ýmsum mismunandi löndum allt frá Írlandi til Hong Kong til Ástralíu. Þátttakendur gistu í flóttamannatjöldum meðan á mótinu stóð og stór hluti dagskrárinnar fór fram undir berum himni. Krakkarnir fá URKÍ fengu um leið tækifæri til að efla samstarf við önnur ungmennafélög Rauða krossins á Norðurlöndum um verkefnið ,,á flótta" hlutverkaleik sem verið hefur árlegur viðburður hjá URKÍ í 10 ár. Ýmis fleiri lönd sýndu leiknum áhuga, þar á meðal Írland, Ítalía og Ástralía.

„Á laugardeginum tókum við þátt í göngu sem nefnist Fiaccolata til að minnast atburðanna í Solferino. Hvert landsfélag var með fána, nafn landsins og merki landsfélagsins, ýmist Rauða krossa, hálfmána eða kristalla. Gangan var rúmir 8 kílómetrar og tók 3 tíma. Eftir þennan viðburð var mótinu slitið, en nokkrir þáttakendur munu halda áfram göngunni alla leið til Genfar í Sviss með „Solferino yfirlýsinguna“ sem saminn var af þátttakendum á ungmennamótinu.“ sagði Arnar Benjamín.

150 árum eru nú liðin frá Heljarslóðarorrustu (Solferino júní 1859). Sá hræðilegi bardagi leiddi af sér stofnun Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Hreyfingin hefur haldið áfram að vaxa og er í dag orðin að stærstu mannúðarsamtökum í heimi, með næstum því 100 milljónir virkra sjálfboðaliða í 186 löndum. Þar á meðal eru milljónir ungmenna sem halda uppi öflugu mannúðarstarfi.

„Reynslan af þessu ungmennamóti var mjög dýrmæt og á vonandi eftir að gera okkur að betri sjálfboðaliðum,“ sagði Arnar Benjamín. „Við höfum eignast marga nýja og góða vini um allan heim og eigum eftir að halda við þá góðu sambandi.“