Upplýst og undirbúin

8. júl. 2009

Í dag var formlega opnuð samevrópsk vefsíða um almannavarnir, www.informedprepared.eu.  Evrópusambandsskrifstofa Rauða krossins hefur umsjón með verkefninu, með stuðningi Evrópusambandsins og ýmissa stofnana og samtaka. Meðal þeirra eru Rauði kross Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Á vefsíðunni má finna fjölbreyttan fróðleik um náttúruhamfarir og aðrar ógnir. Almenningur getur nálgast upplýsingar um það hvernig hægt er að undirbúa sig og hvernig rétt sé að bregðast við á neyðartímum. Þá má finna ýmsa leiki og efni fyrir börn.

Vefsíðan nýtist einnig viðbragðsaðilum, stofnunum og samtökum sem vinna að almannavarnamálum enda má nálgast þar handbækur, skýrslur og fræðsluefni frá ýmsum löndum um efni sem tengist viðbúnaði og viðbrögðum. Dæmi um það eru handbækur um hvernig virkja skuli almenning í almannavarnaaðgerðum, leiðbeiningar vegna almannavarnaæfinga og margt fleira.

Þar sem síðunni er ætlað að vera lifandi skjal er fólk hvatt til að koma tillögum um breytingar og viðbótarefni á framfæri. Það má m.a. gera mað því að senda tölvupóst á Jón Brynjar Birgisson, neyðarvarnafulltrúa, jon@redcross.is.