Alþjóða Rauði krossinn dregur úr starfsemi á Srí Lanka

10. júl. 2009

Eftir áratuga ófrið er nú lokið vopnuðum átökum milli stjórnarhers Srí Lanka og frelsishreyfingar Tamíl tigranna (LTTE). Í kjölfar friðarins hefur ríkisstjórn Srí Lanka beðið Alþjóða Rauða krossinn (ICRC) að draga úr starfsemi sinni í landinu.

Alþjóða Rauði krossinn hefur starfað á Srí Lanka frá árinu 1989. Hlutverk hans í landinu hefur þróast á undanförnum árum í samræmi við breyttar þarfir á sviði mannúðarmála. Alþjóða Rauði krossinn hóf mannúðarstarf sitt á seinnihluta níunda áratugarins í kjölfar uppreisnar í suðurhluta landsins. Seinna, eftir að átökin milli stjórnarhers Srí Lanka og Tamíl tigranna ágerðust, jók Alþjóða Rauði krossinn starfsemi sína á svæðinu mjög mikið.

„Nú erum við að endurskoða starfsemi Alþjóða Rauða krossins á Srí Lanka. Við þurfum að endurskipuleggja verkefni okkar og forgangsraða þeim í samræmi við breyttar aðstæður,“ sagði Jacques de Maio, yfirmaður aðgerða í Suður-Asíu. „Við byrjum á því að loka skrifstofum og kalla heim þá sendifulltrúa sem starfa í austurhluta landsins. Um leið munum við draga mikið úr allri starfsemi á svæðinu. Áfram verður þó haldið uppi nánum samskiptum við ríkisstjórn Srí Lanka á sviði mannúðarmála“

Alþjóða Rauði krossinn ítrekar að honum ber skylda til að aðstoða fórnarlömb þeirra átaka sem átt hafa sér stað að undanförnu, þar á meðal fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín og fólk sem snýr aftur heim eftir að hafa verið á flótta undan bardögum og ofbeldi.