Gaza: Ein og hálf milljón manna í greipum örvæntingar

29. jún. 2009

Sex mánuðir eru nú liðnir frá því að hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna á Gasa lauk. Enn ríkir þó mjög alvarlegt ástand meðal almennings á svæðinu. Óbreyttir borgarar sjá ekki fram á geta komið lífi sínu í eðlilegt horf að nýju og fyllast æ meiri örvæntingu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem  Alþjóða Rauða krossinn (ICRC) sendi frá sér í dag. Ný skýrsla frá Alþjóða Rauða krossinum um ástandið á Gasa sýnir að íbúar eiga æ erfiðara með að sjá fyrir sér. Um leið fá alvarlega veikir sjúklingar ekki nauðsynlega læknisþjónustu. Skýrslan sýnir einnig að þúsundir Gasabúa sem misstu heimili sín og eignir fyrir hálfu ári hafa enn ekki fengið þak yfir höfuðið.

Hömlur á ferðafrelsi og flutningum auka neyð almennings

Samkvæmt skýrslunni eru takmarkanir á ferðafrelsi og vöruflutningum til og frá Gasa ein af helstu ástæðunum fyrir þeirri neyð sem ríkir meðal almennings. Erlendir stuðningsaðilar hafa lofað fjórum og hálfum milljarði bandaríkjadala til enduruppbyggingar á svæðinu, en talið er að það muni koma að litlu gagni meðan hömlur eru á innflutningi byggingarefnis og annarra nauðsynlegra aðfanga. Fram kemur að nauðsynlegri samfélagsþjónustu á borð við vatnsveitur og hreinlætisaðstöðu er mjög ábótavant. Gríðarlegu magni af óhreinsuðu skólpi er veitt út í Miðjarðarhafið á degi hverjum. Sjúkrahús eiga erfitt með að sinna sjúklingum vegna eftirlits og takmarkana á inn- og útflutningi. Flóknar og tímafrekar reglur hægja  á því að nauðsynlegar lækningavörur á borð við verkjalyf og röntgenfilmur berist til viðtakenda.

Einangrun Gasasvæðisins hefur leitt af sér mikið atvinnuleysi og efnahagslegt hrun. „Sérstaklega fátækustu íbúarnir hafa þegar nýtt sér til fulls allar tiltækar leiðir til að bjarga sér og hafa oft þegar selt allar eigur sínar fyrir mat,“ sagði Antoine Grand, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins á svæðinu. „Versnandi lífskjör munu hafa neikvæð áhrif á heilsu og velferð fólksins til lengri tíma. Verst áhrif hefur ástandið á börnin, sem eru meira en helmingur af íbúum Gasasvæðisins.“

Í skýrslunni fer Alþjóða Rauði krossinn fram á að hömlur á fólksflutningum og vörum verði aflétt. „Ísrael hefur rétt til að vernda íbúa sína gegn árásum“, sagði Grand. „En þýðir það að meira en ein og hálf milljón manna á Gasa hafi ekki rétt á að lifa eðlilegu lífi?“

Nauðsynlegt að fella niður innflutningshömlur á tækjum og aðföngum til sjúkrahúsa

Skýrslan nefnir meðal annars að nauðsynlegt sé að fella niður innflutningshömlur á lækningatækjum og  byggingarefnum á borð við sement og stál. Jafnframt er talið nauðsynlegt að fellaniður hömlur á útflutningi frá Gasa, að opna að nýju umferðarmiðstöðvar til að bæta flutninga á fólki og vörum. Eitt af því mikilvægasta er að veita bændum aðgang að þeim jörðum sem eru á öryggissvæðum við landamærin, og að tryggja að nýju öruggan aðgang sjómanna að fjarlægari miðum.

Skýrsla Alþjóða Rauða krossins dregur þá ályktun að mannúðaraðstoð geti ekki komið í staðinn fyrir trúverðugar aðgerðir á sviði stjórnmála ef takast eigi að fullnægja mannúðarþörfum almennings á Gasasvæðinu. Alþjóða Rauði krossinn hvetur ríkisstjórnir, áhrifamenn á sviði stjórnmála og vopnaða hópa sem aðild eiga að málinu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að opna Gasasvæðið að nýju og standa vörð um líf og virðingu almennings á svæðinu.

Starf Rauða kross Íslands á Gasa

Rauði kross Íslands kemur að hjálparstarfi í Palestínu með ýmsum hætti. Frá árinu 2007 hefur Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur starfað með Alþjóða Rauða krossinum á herteknu svæðunum og í Gasa.   Pálína tók við nýju starfi fyrr í þessum mánuði í Gasa þar sem hún mun stýra sjúkrahúsþjónustu og uppbyggingu heilbrigðisverkefna Alþjóða Rauða krossins. Þess má geta að Pálína er einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands og var sæmd fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn 17. Júní síðastliðinn fyrir alþjóðlegt hjálparstarf.  Hartnær 25 ár eru síðan Pálína hóf störf með Rauða krossinum.