Í fótspor Henry Dunant

24. jún. 2009

Í dag eru nákvæmlega 150 ár liðin frá því að orrusta við Solferino á Norður Ítalíu leiddi af sér hugmynd sem hefur síðan breytt heiminum. Svisslendingurinn Henry Dunant varð vitni að miklum hörmungum á völlunum við Solferino en jafnframt óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi íbúa í nærliggjandi bæjum sem hlúðu að hermönnum án tillits til þjóðernis þeirra.

Við heimkomuna lagði Dunant til að stofnuð yrðu hlutlaus sjálfboðaliðafélög sem myndu aðstoða þolendur vopnaðra átaka án tillits til þjóðernis, stjórnmálaskoðana eða trúarbragða. Þessi félög starfa í dag í 186 löndum og mynda með sér Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans, stærstu mannúðarhreyfingu veraldar.

Þörfin fyrir hlutlausa mannúðaraðstoð er engu minni í dag en hún var fyrir hálfri annarri öld síðan. 100 milljónir sjálfboðaliða og starfsmanna Rauða krossins og Rauða hálfmánans starfa í nánast öllum ríkjum heims að því að lina þjáningar og byggja betri heim.

500 ungir sjálfboðaliðar frá 149 landsfélögum eru nú saman komnir í Solferino, á heimsfundi  ungmennahreyfinga Rauða krossins og Rauða hálfmánans, til að minnast atburðanna þar en horfa jafnframt til framtíðar. Meðal umfjöllunarefna á fundinum eru alnæmi, loftslagsbreytingar, fólksflutningar og mismunun.

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands á fimm fulltrúa í Solferino. Þau eru Ari Hjálmarsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Ágústa Ósk Aronsdóttir, Katrín Björg Stefánsdóttir og Pálína Björk Matthíasdóttir.

,,Það er ómetanlegt að fá að kynnast fjölda fólks sem er að vinna að ýmsum mannúðarmálum út um allan heim. Með þátttöku á fundinum öðlast ég dýpri skilning á því hvernig Rauði krossinn starfar og verð um leið betri sjálfboðaliði“, sagði Arnar Benjamín.

Þátttakendur gista í flóttamannatjöldum meðan á honum stendur og stór hluti dagskrárinnar fer fram undir berum himni. Að fundinum loknum munu fulltrúar hvers lands ganga í lotum til Genfar í fótspor Henry Dunant.


Hægt er að fylgjast með fundinum á eftirfarandi vefsvæðum:

www.ifrc.org
http://ourworld-yourmove.org/blog-english/
http://www.youtube.com/Yourmove09
http://flickr.com/ourworldyourmove
http://twitter.com/yourmove09
http://facebook.com/ourworldyourmove