Sífelld flóð í Mongólíu hamla hjálparstarfi

27. júl. 2009

Þann 17 júlí áttu sér stað alvarleg flóð í og í kringum Ulanbataar í Mongóliu. Vitað er um að minnsta kosti 24 dauðsföll sem er há tala miðað við heildarfólksfjölda. Um það bil 2000 heimili hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni af völdum flóðanna, en búfénaður hefur farist í  þúsundatali.

Upphæð sem svarar um það bil þrjátíu milljónum íslenskra króna (240.000 CHF) hefur verið úthlutað úr neyðarsjóði Alþjóða Rauða krossins til að aðstoða Rauða krossinn í Mongólíu við að koma neyðaraðstoð til um það bil 10.000 skjólstæðinga.

Francis Markus sendifulltrúi Alþjóða Rauða krossins er í Mongólíu og á næstu dögum mun hann flytja fréttir af því sem hann sér og heyrir meðan hann starfar fyrir Rauða krossinn í Mongólíu við að sinna þörfum þeirra sem hafa orðið fyrir skakkaföllum af völdum hamfaranna.

Sjálfboðaliðar frá mongólska Rauða krossinum afferma neyðargögn fyrir fjölskyldur sem hafa orðið fyrir barðinu á flóðum í Khan-Uul hverfi, Ulaanbaatar. Þetta er gamalt iðnaðarsvæði og flest hús byggð úr mold og timbri. Mörg húsanna hafa skemmst illa í flóðinu, og einnig margar tjaldbúðir.
Kona sem hefur orðið illa fyrir barðinu á flóðinu fær pakka með neyðargögnum frá mongólska Rauða krossinum. Í pakkanum eru stígvél, hlý föt og sóttvarnarefni. Meira en 40 fjölskyldum sem orðið höfðu fyrir tjóni vegna flóðannna var hjálpað í hverfinu Khan – Uul.
Eldri hjón, þau Ganbat og Enkjargal, þurfa að búa hjá ættingjum í nágrenninu ásamt fjórum börnum sínum meðan þau reyna að hreinsa húsið sitt. Líkt og á mörgum öðrum heimilum flæddi kamarinn þeirra líka, en það getur valdið mikilli hættu á sjúkdómum. Meðal neyðargagna sem dreift hefur verið eru efni til sótthreinsunar.

„Ég bjóst við því að ég væri að fara að skrifa um hreinsunarstarf í kjölfar flóðanna á föstudaginn sem urðu 24 manns að bana, verstu flóð sem hafa átt sér stað í Monólíu frá árinu 1966 segja heimamenn. Hjá þjóð sem telur ekki nema 2,7 milljónir manna telst þetta vera umtalsverðar hamfarir,“ segir Francis Markus, sendifulltrúi Alþjóða Rauða krossins í Mongólíu, „en náttúran var ekki í skapi til að auðvelda mér frásögnina.“

Hjálpargögnum dreift til nauðstaddra
Í einu af hverfunum sem varð fyrir flóðinu var gamall maður að ausa leðju í hjólbörur. Að öllum líkindum var þessi leðja að hluta til það sem skolast hafði upp úr kamri fjölskyldunnar í vatnselgnum. Kona hans var um leið að reyna að bjarga húsmunum á borð við rúmföt og gömlum stígvélum úr húsinu.

Áður en við náðum að komast til botns í þessari sögu heyrðust aftur þrumur og þungir dropar byrjuðu að falla úr lofti. Það byrjaði aftur að rigna, en þrátt fyrir rigninguna náðum við að fylgjast með dreifingu hjálpargagna frá Rauða krossinum í Mongólíu. Þar á meðal voru teppi, hlý föt, stígvél, matur og sótthreinsandi efni.

 „Ég hef ekki komist í vinnuna í þrjá eða fjóra daga vegna flóðanna og hef áhyggjur af því að yfirmaður minn reki mig ,“ sagði ung móðir og ríghélt í neyðarpakkann sem hún hafði fengið.

Varla vorum við komin aftur upp í bílinn fyrr en haglél buldi á þaki bílsins, og framkallaði hljóð eins og verið væri að skjóta upp flugeldum. Og ausandi rigningin safnaðist fljótlega upp í stöðuvötn sem náðu mönnum víða í mitti í tjaldbúðum hirðingja, þar sem fólk öslaði gegnum skitugan og óheilnæman flauminn.

Mikil þörf fyrir öflugri neyðarvarnir
Vörubílar frá NEMA, neyðarvarnarstofnun landsins, reyndu að komast leiðar sinnar inn á milli kyrrstæðra bíla með uppblásna gúmmíbáta á þakinu. Lögreglumaður kom öslandi gegnum leðjuna og sagði að tveir bílar væru fastir á veginum framundan og að vegurinn væri lokaður. Ég hef aldrei séð jafnmarga bíla snúa við og á sama tíma á jafn litlum fleti.

„Þessar hamfarir sýna að við þurfum að styðja við bakið á mongólska Rauða krossinum, styðja við uppbyggingu viðvörunarkerfis og annarra neyðarvarna,“ segir Qinghui Gu yfirmaður neyðarvarna Alþjóða Rauða krossins í Austur-Asíu, sem er með mér til að leggja mat á ástandið.

Mörg börn fórust í flóðunum. Aldraðir og börn eru í mestri hættu. Allir vonast til þess að fólk taki mark á viðvörunum um áframhaldandi stórrigningar og leitist við að tryggja öryggi fjölskyldna sinna.