Aðstæður hælisleitenda í Grikklandi –vettvangsskýrsla Rauða krossins og Caritas í Austurríki

13. okt. 2009

Í ágúst 2009 birtu Rauði krossinn og Caritas í Austurríki niðurstöður vettvangsferðar til Grikklands í þeim tilgangi að kanna örlög hælisleitenda sem sendir voru frá Austurríki til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins. Vegna fjölda þeirra einstaklinga sem óska alþjóðlegrar verndar á Grikklandi hefur því oft verið haldið fram að grísk stjórnvöld og stjórnsýsla hafi hvorki bolmagn né getu til að tryggja hælisleitendum sanngjarna og réttláta málsmeðferð og að aðbúnaði hælisleitenda þar í landi sé verulega ábótavant.

Ríkisstjórnir sem taka þátt í Dublinar samstarfinu hafa hins vegar verið á öndverðri skoðun og haldið áfram að senda hælisleitendur til Grikklands á grundvelli þess þrátt fyrir tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og annarra samtaka og stofnana.

Tilgangur vettvangsferðar tveggja fulltrúa Rauða krossins og Caritasar var að kanna af eigin raun örlög þeirra hælisleitenda sem sendir voru frá Austurríki til Grikklands. Þeir sóttu Grikkland heim dagana 23.-28. maí 2009 og skoðuðu aðstæður hælisleitenda, tóku viðtöl við 14 hælisleitendur sem sendir höfðu verið til Grikklands frá Austurríki og ræddu við starfsfólk stofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni hælisleitenda varða í Grikklandi. Í viðtölunum reyndu fulltrúarnir tveir að kanna aðgengi hælisleitenda að hælismálsmeðferð í Grikklandi, aðbúnað og með hvaða hætti grísk stjórnvöld styddu þá. Sérstaklega var sjónum beint að hælisleitendum sem höfðu verið sendir til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauði krossinn hafa ítrekað beint þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þau endursendi ekki hælisleitendur til Grikklands þar til sýnt væri að þeim væri tryggð bæði réttlát málsmeðferð og fullnægjandi aðbúnaður þar í landi. Hér á landi bíða nú nokkrir hælisleitendur ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um hvort þeir verði endursendir til Grikklands í trássi við eigin vilja.

Niðurstöður ofannefndrar vettvangsferðar Rauða krossins og Caritasar hafa verið birtar í skýrslu sem má nálgast hér og hefur íslenskum stjórnvöldum verið sent eintak af skýrslunni. Samantekt um helstu niðurstöður skýrslunnar má finna hér að neðan.

1.    Aðgengi að hælismálsmeðferð í Grikklandi

Hælisleitendur sem vísað er til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins geta yfirleitt óskað hælis þegar þeir lenda á flugvellinum í Aþenu og fá útgefið svokallað bleikt kort sem er einskonar skráningarskírteini. Aðgengi þeirra að hælismálsmeðferð virðist því auðveldara en annarra útlendinga sem koma sjálfir til Grikklands því margir virðast ekki fá tækifæri til að óska hælis.

Hins vegar eru önnur alvarleg vandamál sem hælisleitendur sem snúið er til Grikklands  standa frammi fyrir. Þau eru aðallega þess eðlis að réttlát málsmeðferð er ekki tryggð og ófullnægjandi aðgengi er að upplýsingum, túlkum og lagalegri ráðgjöf. Það hefur meðal annars leitt til ótímabærra lykta á hælismeðferð og misbresti á því að hælisleitendur geti nýtt sér kærurétt innan frests.

2.    Aðbúnaður hælisleitenda

Samkvæmt höfundum skýrslunnar eru 700-1.000 gistipláss í Grikklandi sem standa hælisleitendum til boða. Af þeim eru um 300-330 gistipláss sem eru kostuð að fullu af grískum stjórnvöldum í móttökumiðstöð hælisleitenda sem Rauði krossinn í Grikklandi rekur. Önnur gistipláss eru starfrækt af félagasamtökum sem gjarnan njóta fjárstuðnings Evrópusambandsins.

Á árinu 2008 sóttu hins vegar um 20.000 einstaklingar um hæli í Grikklandi og á sama tíma voru um 30.000 ókláraðar hælisbeiðnir. Af tölunum má ráða að mikill meirihluti hælisleitenda getur ekki fengið gistipláss og verða því að finna sér húsnæði á almennum markaði en fá til þess enga aðstoð grískra stjórnvalda. Af þeim sökum eru flestir hælisleitendur tilneyddir að deila litlum herbergjum með vinum eða ættingjum, búa í yfirgefnum húsum, sofa í almenningsgörðum eða á götum Aþenuborgar eða gista á svoköllum „afgönskum hótelum“ sem eru í raun yfirfullir svefnstaðir þar sem einstaklingur greiðir 100-200 evrur á mánuði. Ekki er um eiginlegt hótel að ræða enda engin þjónusta og húsnæðið venjulega yfirfullt og ekki um langtíma búsetu að ræða.

Sé um fjölskyldur,  einstæðar konur eða sjúka einstaklinga að ræða sem vísað er til Grikklands á grundvelli Dublinar samkomulagsins er möguleikinn á gistiplássi og stuðningi grískra yfirvalda meiri en ella.

3.    Stuðningur grískra stjórnvalda við hælisleitendur

Fái hælisleitandi yfir höfuð gistipláss á vegum grískra stjórnvalda eða félagasamtaka virðist sem svo að grunnþörfum þeirra sé sinnt. Hins vegar eru líklega 90% hælisleitenda í Grikklandi sem ekki fá gistipláss í svokölluðum móttökumiðstöðvum og fá enga fjárhagslega aðstoð, mat, fatnað né heilbrigðisaðstoð frá grískum stjórnvöldum. Félagasamtök hafa reynt að bjóða hælisleitendum mataraðstoð í gegnum súpueldhús, matarpakka og eftir öðrum leiðum.

Samkvæmt grískum lögum hafa hælisleitendur sama rétt til heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og grískir ríkisborgarar. Hins vegar er aðgengi þeirra raunverulega takmarkað samkvæmt viðmælendum skýrsluhöfunda vegna tungumálaörðugleika, skorts á upplýsingum og peningum til að komast á spítala. Skýrsluhöfundar segjast hafa orðið þess varir að ríkisspítalar útvega ekki túlka og  sumir hælisleitendur báru því við að hafa verið neitað um heilbrigðisþjónustu af starfsfólki spítala. Því neyðast hælisleitendur til að leita heilbrigðisþjónustu hjá félagasamtökum sem hana bjóða en sú þjónusta er verulega takmörkuð vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Þá virðist vera mikill misbrestur á því að börn hælisleitenda eða börn sem sækja um hæli fái notið þeirrar menntunar sem þeim er tryggð í lögum og virðast ástæðurnar vera tungumálaerfiðleikar, skortur á fjármagni, óskýrar upplýsingar og að lok hælismeðferðar verði til þess að börn fái ekki notið menntunar.

4.    Aðgengi að vinnumarkaði

Samkvæmt grískum lögum eiga þeir hælisleitendur sem þegar hafa fengið útgefið svokallað bleikt kort, þ.e. skráningarskírteini, rétt á að fá atvinnuleyfi í Grikklandi. Í raunveruleikanum eru líkurnar á því að hælisleitandi finni atvinnu mjög litlar samkvæmt skýrsluhöfundum.  Ástæðurnar eru til að mynda tungumálaörðugleikar, skortur á fastri búsetu, sem er nauðsynleg til að fá útgefið atvinnuleyfi, ásamt því að ástand efnahagsmála sé slæmt. Efnahagskreppan í Grikklandi virðist hafa leitt til þess að atvinnuleyfi fyrir hælisleitendur eru aðeins gefin út ef útséð er að grískur ríkisborgari sækist  ekki eftir sama starfi. Afleiðingar alls þessa er að flestir hælisleitendur hafa enga atvinnu. aðeins hlutastarf eða í skamman tíma og algengt sé að atvinna sé ólögleg og án atvinnuréttinda. Meðallaun hælisleitenda í Grikklandi fyrir fullan vinnudag er á bilinu 20-25 evrur og stundum neita jafnvel atvinnuveitendur að greiða hælisleitendum laun eftir að vinnu er lokið.

5.    Lagalegt umhverfi í Grikklandi sem varða hælisleitendur

Samkvæmt skýrsluhöfundum virðist grísk löggjöf sem varðar hælisleitendur réttlát en í raunveruleikanum virðist hún ekki hafa verið innleidd sem skyldi. Sumir viðmælenda skýrsluhöfunda voru sammála um að það væru engin lög í Grikklandi fyrir hælisleitendur. Sérstaklega virðist sem lagaákvæði sem varði aðgengi að hælismeðferð, aðbúnaði, lagalegri aðstoð og upplýsingum hafi ekki verið nægjanlega vel innleidd af grískum yfirvöldum.

6.    Málsmeðferð og hlutfall hælisveitinga

Samkvæmt skýrsluhöfundum er aðgangur að hælismálsmeðferð fremur takmarkaður. Hver lögreglumaður í útlendingadeild grísku lögreglunnar má gera ráð fyrir að taka 20-25 hælisviðtöl á degi hverjum. Af því leiðir að viðtölin eru stutt og ófullnægjandi.

Þeim hælisleitendum sem er vísað til Grikklands á grundvelli Dublinar samkomulagsins eru venjulega beðnir um að skrifa fáeinar línur á eigin tungumáli um ástæður flótta síns til Grikklands. Það eru venjulega engin eiginleg viðtöl og ekki er boðið upp á túlkaþjónustu á flugvellinum. Sumir hælisleitendur sem skýrsluhöfundar ræddu við báru því við að þeir hafi ekki verið beðnir um að skrifa um ástæður flóttans við endurkomuna til Grikklands. Almennt séð virðist vera mikill skortur á upplýsingum hælisleitendum til handa – og því síður á móðurmáli þeirra – sem varða hælisferlið sjálft, möguleika á gistiplássi og aðbúnaði og hvar megi leita lagalegrar ráðgjafar.

Ákvarðanir á fyrsta málsmeðferðarstigi í Grikklandi eru staðlaðar einnar blaðsíðu ákvarðanir sem eru aðeins á grísku. Upplýsingum um upprunalönd hælisleitenda er ekki aflað við töku ákvarðana og,í þeim segir venjulega að sá sem neitað er um hæli hafi komið til Grikklands af efnahagslegum ástæðum og skorti raunverulega ástæður til þess að verða viðurkenndur sem flóttamaður.

Á árinu 2008 var hlutfall þeirra hælisleitenda sem var veitt staða flóttamanns á fyrsta málsmeðferðarstigi 0,05%

Þar til 20. júlí 2009 voru kærur teknar fyrir af sérstakri áfrýjunarnefnd.  Þar áttu meðal annarra sæti fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og gríska lögmannafélagsins. Nefndin studdist við upplýsingar um upprunalönd og tók mál til efnislegrar meðferðar. Hlutfall hælisveitinga hjá áfrýjunarnefndinni var 10,29% á árinu 2008. Einn viðmælandi skýrsluhöfunda  gat þess að hælisleitendur ættu venjulega fyrst möguleika á því að fá viðurkenningu á flóttamannastöðu sinni í áfrýjunarferlinu.

Þann 20. júlí 2009 var hins vegar áfrýjunarnefndin lögð niður með tilskipun nr. 81/09. Það þýðir að hælisleitendum sem hefur verið synjað á fyrsta stigi (hælisleitendur sem eru endursendir til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins) fá nú aðeins mál sín tekin fyrir af Greek Council of State (GoS) sem fyrir 20. júlí 2009 var það stjórnvald sem tók eftir atvikum til meðferðar hælisbeiðnir sem hafði verið neitað á fyrsta stigi og hjá áfrýjunarnefndinni.

Málsmeðferðin getur tekið mörg ár hjá GoS sem getur aðeins fellt fyrri ákvarðanir úr gildi eða staðfest þær. Mikill kostnaður fylgir áfrýjun til GoS og lögfræðikostnaði sem af hlýst. Það hefur þá hættu í för með sér að mikill meirihluti hælisleitenda muni ekki eiga þess möguleika að fá mál sitt tekið fyrir og sú hætta er einnig fyrir hendi að hælisleitendur eigi engan möguleika á að fá mál sitt tekið fyrir efnislega sé þeim synjað um hæli á fyrsta stigi.

7.    Ofbeldi og útlendingahatur
Margir viðmælenda skýrsluhöfunda sögðu að þeir hefðu þurft að þola munnlegar svívirðingar af hálfu grískra lögregluþjóna.

Skýrslan