Neyðargögnum dreift með flugi á Súmötru og mikil þörf fyrir meiri aðstoð á Filippseyjum

13. okt. 2009

Á næstu dögum verður mikið magn hjálpargagna sent með flugi til  þeirra sem lifðu af jarðskjálftana i vesturhluta Súmötru. Fyrsta flugvélin tók á loft í gær 12. október frá Kuala Lumpur og lenti í Padang klukkutíma seinna með 40 tonn af tjöldum, segldúkum, teppum og öðrum hjálpargögnum innanborðs. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins á Indónesíu sáu um að afferma vélina.

Aukin neyðaraðstoð á Indónesíu

Alþjóða Rauði krossinn (IFRC) leggur nú áherslu á að auka neyðaraðstoð sína á Indónesíu. Meðal annars eru notaðar þyrlur til að koma byggingarefnum og matvælum til fjölskyldna sem hafa einangrast í afskektum þorpum eftir að aurskriður féllu á vegi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um að dreifa hjálpargögnunum til nauðstaddra á hverjum stað. Undanfarna viku hefur Rauði krossinn á Indónesíu notað þyrlur til að koma hjúkrunarteymum félagsins á þessa afskekktu staði, en það hefur verið eina leiðin til að koma lífsnauðsynlegri læknishjálp til fórnarlamba hamfaranna.

„Við leggjum mikla áherslu á að koma matvælum í heimabyggðir fólksins til að koma í veg fyrir að fólk þurfi að yfirgefa heimili sín og koma til borganna að leita sér að mat,“ útskýrir Wayne Ulrich sem stýrir  neyðaraðgerðum  Alþjóða Rauða krossins í Padang.

Alþjóða Rauði krossinn hefur einnig sent endurbyggingarteymi til Padang. Til að hægt verði að gera við skemmdir á húsum og koma upp brábabirgðahúsnæði  verður dreift bæði byggingarefnum og verkfærum á næstu dögum og vikum.

Gríðarlegar skemmdir á Filippseyjum
Alþjóða Rauði krossinn  hefur sent frá sé endurskoðaða neyðarbeiðni fyrir Filippseyjar. Flóð og aurskriður hafa valdið alvarlegu tjóni í Manila og á norðurhluta Luzon. Eftir að hafa metið umfang skemmdanna ákvað Alþjóða Rauði krossinn að hækka upphæð neyðarbeiðni sinnar í meira en 6,8 milljónir svissneskra franka (rúmlega 800 milljónir íslenskra króna). Þetta fé verður notað til að styðja við hjálparstarf Rauða krossins á Filippseyjum. Alls munu 200.000 manns fá aðstoð í eitt ár.

Filippseyjar hafa orðið fyrir barðinu á tveimur fellibyljum á undanförnum tveimur vikum. Fellibylurinn Ketsana olli alvarlegum flóðum í Manila og tugir þúsunda heimilislausra hafast enn við í neyðarskýlum. Fellibylurinn Parma olli síðar miklum rigningum í norðurhluta Luzon. Vatnselgurinn varð til þess að 300 manns létust í aurskriðum um helgina.

Almenningur á Íslandi leggur sitt af mörkum
Rauði kross Íslands hefur staðið fyrir símasöfnun undanfarna viku vegna hamfaranna. Leitað hefur verið til deilda Rauða kross Íslands um fjárstuðning við landsfélög Rauða krossins á Indónesíu og Filippseyjum til að hægt sé að veita fórnarlömbum flóða og jarðskjálfta lífsnauðsynlega aðstoð.