Neyðarbeiðni frá Hvítarússlandi: mikil þörf fyrir ungbarnapakka

19. okt. 2009

Í Hvítarússlandi er nístandi fátækt og margar fjölskyldur búa í sárri neyð. Síðsumars barst beiðni frá Rauða krossinum í Hvítarússlandi um ungbarnapakka sem sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands hafa útbúið og dreift hefur verið á svæðum þar sem þörfin er mikil.

Starfsmenn Rauða krossins í landinu segja að barnapökkunum verði dreift meðal stórra fjölskyldna, einstæðra mæðra og á stofnunum fyrir munaðarlaus og fötluð börn. Áhersla verður lögð á að ná til fólks sem býr í sveitum landsins, oft við afar kröpp kjör.

Vetur eru harðir í Hvítarússlandi og því verður lagt kapp á að koma fatnaðinum á áfangastað áður en mesta kuldaskeiðið gengur í garð um jólaleitið. Með barnapökkunum er ætlunin að senda flísteppi sem til eru hjá Fatasöfnun Rauða krossins.

Í bréfi frá Rauða krossinum í Hvítarússlandi segir að fjölskyldurnar sem fá aðstoðina séu valdar á grundvelli fjölskyldustærðar, þarfa, búsetu og annarra aðstæðna. Hver skjólstæðingur kvittar fyrir móttökunni og skýrsla um dreifinguna verður send til Rauða kross Íslands.